Greinar:
Hér eru birtar nokkrar greinar sem birtar hafa verið í dagblöðum og á
vefjum.
Tökum þátt í opnu prófkjöri
(Í Morgunblaðinu 11.2.2006)
Í dag og á morgun gefst Reykvíkingum kostur á að taka þátt í opnu
prófkjöri Samfylkingarinnar og hafa þannig áhrif á það hverjir skipa
framboðslista flokksins við borgarstjórnarkosningarnar í vor.
Frambjóðendur hafa síðustu daga og vikur kynnt sig, verk sín og
skoðanir. Ég hef lagt áherslu á reynslu mína sem varaborgarfulltrúi og
formaður og fulltrúi í nefndum og stjórnum á sviði velferðar, umhverfis,
jafnréttis og rekstrar. Þá hef ég lagt áherslu á sjónarmið mín um
velferð fyrir alla, jafnrétti, umhverfisvernd, gott atvinnulíf og
heilbrigðan rekstur borgarinnar.
Ég hef lagt
áherslu á að það þurfi að efla starfið í leikskólum og hverfisskólum
borgarinnar því það er börnunum og framtíð borgarinnar fyrir bestu, og
að auðvelda þurfi enn frekar íþrótta- og listiðkun barna. Ég hef lagt
áherslu á að eyða þurfi kynbundnum launamun og auka jafnrétti kynjanna,
og að brýnt sé að koma á mannréttindastefnu sem taki til ólíkra hópa og
í raun allra íbúa. Ég hef lagt áherslu á að við þurfum að virða þarfir
aldraðra, hefja sem fyrst byggingu nýs hjúkrunarheimilis og bæta
þjónustu við aldraða sem búa heima. Þá hef ég lagt á það áherslu að við
förum vel með það fé, landrými og umhverfi sem okkur er trúað fyrir.
Ég hef ritað um þetta margar blaðagreinar, einkum hér í Morgunblaðinu,
auk þess sem ég hef rætt þessi mál í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Þá er
allt þetta efni meira og minna á þeim vef sem ég hef komið mér upp í
tengslum við þetta prófkjör. Slóðin er www.stefanjohann.is og þar er
hægt að kynna sér þessi mál. Ég hvet Reykvíkinga til að taka þátt í
prófkjöri Samfylkingarinnar og ég hvet þá einnig til að setja mig í
þriðja sætið á listanum, eða því sem næst.
Öldrunarþjónustu þarf að bæta
(Í Morgunblaðinu 10.2.2006)
Góð þjónusta við
aldraða er einn af hornsteinum hvers velferðarsamfélags. Hér í Reykjavík
er veitt margs konar þjónusta við aldraða, en það er ýmislegt sem má
bæta. Einna brýnast er að flýta því sem kostur er að taka í notkun ný
hjúkrunarrými til að leysa vanda þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir
slíkt. Það þarf líka að fylgja eftir samþættingu á heimahjúkrun og
félagslegri heimaþjónustu til að gera þeim sem það vilja kleift að búa
lengur heima.
Aldraðir geta
nýtt sér ýmsa þjónustu á vegum borgarinnar. Það er boðið upp á
félagsstarf og heimsendingu á mat, aðstoð við heimilishald, auk
almennrar félagsþjónustu af ýmsu tagi. Þessi þjónusta léttir undir með
fólki og á að auka á öryggi og öryggistilfinningu. Velferðarráð hefur
ákveðið að grípa til aðgerða til að mæta þörfum þeirra eldri borgara sem
búa við einangrun. Þá höfum við í velferðarráði lagt áherslu á gott
samstarf við aldraða og gert sérstakan þjónustusamning við Félag eldri
borgara til að betur sé hægt að sinna tiltekinni þjónustu við þennan
hóp. Allt þetta skiptir máli, en þó verður ekki framhjá því litið að það
þarf að skoða heildstætt þennan málaflokk og jafnvel færa stærri hluta
hans frá ríkinu til borgarinnar.
Það hefur
talsverða ókosti í för með sér að yfirstjórn öldrunarmála sé ekki á
einni hendi. Það er ekki hægt að koma upp nýju hjúkrunarheimili sem þörf
er á í Reykjavík án þess að samþykki heilbrigðisráðuneytis komi til. Það
hefur verið stefnan að fjölga hjúkrunarheimilum í Reykjavík og nú hillir
undir að sú stefna verði að veruleika með smíði hjúkrunarheimilis með
110 rýmum í Sogamýri. Annað er í bígerð í Vesturbænum.
Smíðin sjálf
leysir þó ekki allan vanda, því það þarf að koma til rekstrarfé. Það
kemur lögum samkvæmt úr ríkissjóði, og rekstrarframlög hafa verið það
knöpp að flest hjúkrunarheimili hafa búið við mjög þröngan kost og
jafnvel safnað skuldum. Rekstrarvandi hjúkrunarheimilanna hefur sett
mark á starfsemi þeirra. Það er oft ekkert svigrúm til þess að bæta
starfsemina og starfsmönnum er skorinn þröngur stakkur í mörgum
skilningi. Lág laun eru áhyggjuefni og starfsmannavelta er oft meiri en
æskileg er í svo viðkvæmri þjónustu. Úr þessu verður að bæta með
sameinuðu átaki opinberra aðila og fleiri aðila.
Ég hef trú á
því að með þeim byggingum sem hafa verið ákveðnar eða eru í bígerð muni
aðstæður batna verulega að þessu leyti. Það þarf þó að halda áfram að
þróa þjónustu í þessum málaflokki. Þar er mikilvægt að haft sé samráð
við samtök aldraðra og að sjónarmið þeirra séu virt í þessum efnum,
hvort sem um einstaklinga eða samtök er að ræða. Það er ekki það sama
sem hentar öllum og þess vegna þarf þjónustan að vera með fjölbreyttu
sniði.
Stefán
Jóhann Stefánsson, situr í stjórn hjúkrunarheimilis í borginni og býður
sig fram í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Velferð og lífsgæði (Í Morgunblaðinu 8.2.2006)
Prófkjör
Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram um næstu helgi. Þar gefst
Samfylkingarfólki og öðrum borgarbúum kostur á að velja borgarstjóraefni
flokksins og aðra frambjóðendur á lista fyrir komandi
borgarstjórnarkosningar. Ég býð mig fram í þriðja sætið í þessu
prófkjöri.
Ég hef verið varaborgarfulltrúi á þessu kjörtímabili og setið í tveimur
nefndum sem stýra mikilvægum málaflokkum, nefnilega velferðarráði og
umhverfisráði. Þá sit ég í stjórn hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar, hef
verið í jafnréttisnefnd og var formaður stjórnar Innkaupastofnunar
Reykjavíkurborgar þar til skipulagi hennar var breytt og var einnig
formaður stjórnar Vélamiðstöðvar ehf. þar til hún var seld.
Reynslan
Í starfi mínu
fyrir Samfylkinguna og Reykjavíkurlistann hef ég
beitt mér í velferðarmálum, og lagt þar m.a.
áherslu á að styðja betur við bakið á ungum
mæðrum, forsjárlausum feðrum og öldruðum. Ég hef
talað fyrir heilbrigðu tómstundastarfi fyrir
börn og unglinga. Ég hef unnið að ýmiss konar
framtaki í jafnréttismálum. Ég hef beitt mér í
umræðu um fjármál borgarinnar og m.a. dregið
fram stöðu borgarsjóðs í samanburði við önnur
sveitarfélög. Ég hef einnig beitt mér í
umhverfismálum, og þá einkum verið umhugað um að
auka loftgæðin og draga úr því svifryki sem
stafar frá umferðinni og getur verið börnum og
öðrum hættulegt þegar fram í sækir. Tilraunir
mínar til að hafa áhrif byggjast á sannfæringu
minni um að hin sígildu sjónarmið jafnaðarmanna
um frelsi, jafnrétti og samhygð séu best til
þess fallin að bæta samfélagið.
Framtíðarsýn
Það dugar að
sjálfsögðu ekki aðeins að benda á það sem gert
hefur verið því stjórnmálamenn þurfa að hafa
einhver stefnumið og einhverja framtíðarsýn. Ég
vil stuðla að því að Reykjavík eflist að grósku
og þrótti, að velferð borgarbúa verði aukin, og
lögð meiri áhersla á jafnrétti og lífsgæði
borgarbúa. Þess vegna eru nokkur helstu
áherslumál mín í stuttu máli þessi:
1. Eflum
framsækið skólastarf frá leikskólum til háskóla.
Gott og fjölbreytt skólastarf er vel til þess
fallið að jafna stöðu barna og ungmenna í
lífinu. Lengja þarf fæðingarorlof, fjölga
dagvistarrýmum og auka framboð á
leikskólaplássum. Byggjum þekkingarþorp í
Vatnsmýrinni.
2. Tryggjum
fyrirtækjum í ýmsum greinum aðstöðu til vaxtar í
landi borgarinnar.
3. Reykjavík
verði áfram í fremstu röð sem vinnuveitandi.
Útrýmum kynbundnum launamun og eflum öruggt og
heilsusamlegt vinnuumhverfi.
4. Bætum
aðstöðu barna sem búa við erfiðar aðstæður.
Styrkjum sjálfshjálpargetu þeirra sem þurfa að
leita aðstoðar. Látum borgina annast sameinaða
heimahjúkrun og heimaþjónustu og auðveldum
öldruðum enn frekar að búa í eigin húsnæði.
Þjónustuíbúðum þarf að fjölga og bæta sem fyrst
við hjúkrunarrýmum til að eyða biðlistum.
5. Öllum börnum
upp að vissum aldri verði gefinn kostur á
gjaldfrjálsum íþróttum og listum.
6. Jöfnum stöðu
kynjanna, vinnum gegn ofbeldi gegn konum og
börnum.
7. Bætum stöðu
fatlaðra, samkynhneigðra, aldraðra og nýbúa með
nýrri mannréttindastefnu.
8. Eflum öryggi
borgarbúa og verndum æskuna, m.a. fyrir
óæskilegum auglýsingum.
9. Þéttum byggð
hæfilega og byggjum upp ný og fjölbreytt hverfi
með góðu aðgengi að útivistarsvæðum.
Almenningssamgöngur verði efldar og aukum
loftgæði í borginni.
10.
Fjármálastjórn verði ábyrg og framsýn svo hægt
verði að veita þá þjónustu sem við viljum.
Höfundur er varaborgarfulltrúi og býður sig fram í
3. sæti í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík.
http://www.stefanjohann.is
Samfylkingin sækir á
(Í Morgunblaðinu 31.1.2006)
Nú er framundan spennandi
tími í borginni. Hið pólitíska landslag er breytt. Það verður eftir sem
áður tekist á um meginsjónarmið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt
áherslu hlutverk einkaaðila og minni umsvif hins opinbera. Samfylkingin
leggur hins vegar áherslu á að velferð og lífsgæði verði ekki tryggð
nema til komi virkt framtak samfélagsins sem miði bæði að því að efla
þann þrótt og mátt sem í borginni býr og jafna kjör með því að bjóða
þeim aðstoð sem á þurfa að halda. Á þessu hefur oft verið talsverður
munur í málflutningi sjálfstæðismanna í borgarstjórn og annarra.
Samfylkingin viðurkennir hlutverk einkaframtaksins, enda leggur hún
áherslu á frelsi til athafna og framtak einstaklinga. En það er ýmis
þjónusta sem við viljum veita sem einkaaðilar og markaðir eru ekki færir
um að annast svo að vel sé út frá sjónarmiðum jafnréttis og þess
réttlætis sem við viljum viðhafa.
Þetta á við um ýmislegt sem flokkað er undir félags-, heilbrigðis- og
menntamál.
Skólamál
Þannig er það réttlætismál að hverfisskólar séu helstu menntastoðir
grunnskólabarna. Ýmis félagasamtök sem reka skóla og leikskóla auka á
fjölbreytni, en við getum aldrei byggt aðeins á þeim og aðeins upp að
vissu marki. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að við eigum að efla
framsækið skólakerfi frá leikskólum til háskóla, því gott og fjölbreytt
skólastarf jafnar stöðu barna og ungmenna í lífinu. Sá grunnur sem
lagður er í lífi barna skiptir verulegu máli. Utan fjölskyldunnar skipta
leikskólar og grunnskólar höfuðmáli.
Hér í borginni er unnið mjög faglegt og
gott starf á mörgum sviðum í skólakerfinu. Það þurfum við að styrkja
þannig að það verði hægt að koma til móts við nemendur með ólíkar
þarfir. Samfylkingin hefur miklu hlutverki að gegna í borgarmálunum.
Fyrir dyrum stendur að velja fólk á lista í prófkjöri fyrir komandi
borgarstjórnarkosningar. Það er vösk sveit einstaklinga með
fjölbreytilegan bakgrunn sem gefur kost á sér. Ég býð mig fram í þriðja
sætið.
Jafnrétti
(á vef Samfylkingarfélagsins)
Jafnrétti og réttlæti eru
lykilatriði í stefnu Samfylkingarinnar. Viðamesta jafnréttisverkefnið er
enn sem fyrr að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna. En það þarf
jafnframt að vinna að því í miklu meiri mæli en áður að bæta stöðu
ýmissa hópa, svo sem fatlaðra, fólks af erlendum uppruna, samkynhneigðra
og aldraðra. Reykjavíkurborg má ekki mismuna neinum, heldur verður hún
að vinna að jafnri stöðu allra án tillits til uppruna, kynferðis eða
mismunandi uppleggs fólks að öðru leyti. Allir eiga að hafa sömu
mannréttindi.
Leggja þarf aukna áherslu á jafnréttismál kynjanna á
öllum sviðum og í öllum stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar. Eitt
brýnasta verkefnið til að byrja með er að tryggja launajafnrétti í
reynd.
Fólk af erlendum uppruna hefur auðgað íslenskt
samfélag, enda hafa fyrirtæki og stofnanir kallað eftir fólki til starfa
erlendis frá. Það er þó ekki hægt að líta á þetta fólk eingöngu sem
vinnuafl. Það þarf að efla íslenskukennslu fyrir þennan hóp. Gjöld fyrir
málanámið mega ekki verða að hindrun í þessu efni. Koma þarf í veg fyrir
að hópar af erlendu bergi einangrist og að spenna skapist á milli ýmissa
hópa vegna skilningsleysis og samskiptaörðugleika. Þess vegna þarf að
auðvelda samskiptin og tungumálið er besta samskiptatækið.
Vinna þarf að því að bæta stöðu samkynhneigðra í
samfélaginu. Þar er eitt brýnasta verkefnið að draga úr fordómum og á
því þarf að byrja strax í grunnskólum. Þetta er spurning um
mannréttindi.
Það þarf að vinna betur að því að tryggja fötluðum
jafnan rétt á við aðra í samfélaginu. Í sumum efnum þyrftu
sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka sig saman um að veita
þjónustu við þennan hóp, t.d. er varðar ferðaþjónustu, sem er hvað
þróuðust í Reykjavík. Það hlýtur hins vegar að vera sóun þegar senda
þarf nokkra sérútbúna bíla í stað eins bíls til nokkurra einstaklinga á
sama stað sem nýta sér þjónustu innan borgarinnar, bara vegna þess að
þessir einstaklingar eiga ekki lögheimili í sama sveitarfélaginu.
Yngstu og elstu aldurshóparnir þurfa eðlilega að
jafnaði meiri þjónustu en aðrir. Öldrunarþjónusta er mjög aðþrengd á
Íslandi í dag. Það á ekki hvað síst við um hjúkrunarheimili sem fá
rekstrarframlag frá ríkinu sem í fæstum tilfellum dugar til að standa
fyllilega undir þeirri þjónustu sem til er ætlast. Enn er hér skortur á
hjúkrunarrýmum, en nú hefur verið gert samkomulag um byggingu
hjúkrunarheimilis í austurbæ Reykjavíkur með 110 rýmum, auk þess sem
stefnt er að smíði hjúkrunarheimilis í vesturbænum. En jafnframt hefur
verið unnið markvisst að því að finna lausnir fyrir þann hóp aldraðra og
sjúkra sem kýs að búa heima.
Jafnréttisbaráttan hefur því á sér margar hliðar. Sem
fyrr er eitt viðamesta verkefnið að jafna stöðu kynjanna, en
jafnréttisbaráttan þarf einnig að ná til annarra hópa sem hér er fjallað
um. (Efst á síðu)
Loftgæði í Reykjavík
(í Morgunblaði 23.1.2006)
Í síðasta
mánuði óskaði ég eftir því á fundi umhverfisráðs Reykjavíkur að lögð
yrðu fram gögn um loftgæði í borginni í kjölfar þess að svifryk í
andrúmslofti borgarbúa hafði í nokkrum tilfellum farið yfir mörk sem
sett eru með hliðsjón af heilsufarsmarkmiðum. Það þarf að bregðast við
og draga úr svifryki til að koma í veg fyrir hugsanlegt heilsutjón og
eins þar sem verið er að herða viðmiðanir í þessum efnum í Evrópu.
Stærsti hluti svifryks í Reykjavík stafar frá umferð,
og þar af er mestur hluti að vetri til vegna malbiksagna sem nagladekk
rífa upp. Það er mat starfsmanna borgarinnar að tíu þúsund tonn af
malbiki séu rifin upp árlega og að kostnaður vegna þess sé á bilinu
100-200 milljónir króna.
Framkvæmdasvið borgarinnar hefur þegar gripið til þess
ráðs að þrífa betur götur í þeirri von að það megi draga úr
svifryksmengun. Vinnuhópur um notkun nagladekkja, sem skilaði skýrslu nú
eftir áramótin, greinir frá því að reynsla erlendis frá bendi til þess
að hægt sé að minnka verulega notkun nagladekkja án þess að draga úr
umferðaröryggi. Vinnuhópurinn leggur til að víðtækt samráð verði haft
við lögreglu, Vegagerð, önnur sveitarfélög, Umferðarráð og Félag
íslenskra bifreiðaeigenda um næstu skref í þessum málum. Það þurfi að
upplýsa vel um allar hliðar málsins. Nefndar eru hugsanlegar leiðir til
að draga úr óæskilegum afleiðingum af notkun nagladekkja. Þar á meðal er
að hámarkshraði verði lækkaður tímabundið við þær aðstæður þegar svifryk
getur orðið mikið, að litið verði á kostnaðarþætti málsins, að hvatt
verið til vistvæns aksturs og að almenningssamgöngur verði bættar. Hvað
síðasttalda atriðið varðar þá vill umhverfisráð borgarinnar láta kanna
kosti þess að hafa gjaldfrjálst í strætó fyrir vissa hópa á tilteknum
tímum.
Það þarf að vinna markvisst í þessum málum og nýta þá
þekkingu sem við teljum besta og hafa heildarhagsmuni allra borgarbúa að
leiðarljósi. (Efst á síðu)
Íþróttir og listir
fyrir öll börn (birt í Mbl. 10. janúar 2006)
Íþrótta- og æskulýðsmál hafa verið í góðum farvegi í borginni, en betur
má ef duga skal. Þótt við eigum marga frábæra íþróttamenn og listamenn
eru of mörg börn sem hætta íþróttaiðkun, listnámi eða annarri skipulegri
tómstundastarfsemi of snemma. (meira)
Eflum velferðina og jöfnum kjörin!
(Birt í Fréttablaðinu 6.1.2005)
Nýlegar upplýsingar um ofurlaun stjórnenda fyrirtækja og stofnana vekja
furðu margra. Víst er að velferð flestra stjórnenda er í góðu lagi, en
fjölmargir aðrir hafa litlar tekjur og þurfa að reiða sig á aðstoð hins
opinbera til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. Í þeim hópi er fjöldi
barna og aldraðra. Til að efla hina almennu velferð er mest um vert að
bæta kjör þessa hóps. (meira)
Siðbót
sjálfstæðismanns?
(Fréttablaðið
birti þetta 9.12.2005)
Frambjóðandi í
prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á dögunum lýsti því yfir að
hann sæktist ekki eftir fjárstuðningi frá byggingaverktökum og gaf þar
með í skyn að það gæti verið varasamt fyrir stjórnmálamann að taka við
fé úr byggingabransanum. Það væri hins vegar í lagi að þiggja fé frá
öðrum. Af þessu tilefni er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvað
liggi að baki þegar aðrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, þ.e. þeir
sem ekki höfðu þennan fyrirvara á styrk frá byggingaverktökum, lýsa
yfir skoðunum í skipulags- og byggingarmálum. (meira)
Breiðholtið er gott og
batnar enn (Breiðholtsblaðið 9.12.05)
Hverfafélag Samfylkingarinnar í Breiðholti hélt aðalfund í Gerðubergi
30. nóvember sl., en félagið hefur verið starfandi frá sumri 2003. Á
aðalfundinum mættu m.a. borgarstjórinn í Reykjavík, Stefán Jón Hafstein
borgarfulltrúi og Mörður Árnason alþingismaður. Fundarmenn vildu margir
fylgja fastar eftir hraðatakmörkunum í hverfinu, bæta
almenningssamgöngur og kjör kennara, svo nokkuð sé nefnt. (meira)
Samfylkingunni vex ásmegin
(5.12.2005) (Fréttablaðið birti þetta 6.12.2005)
Það hefur
verið dálítið forvitnilegt að fylgjast með umfjöllun sumra fjölmiðla og
andstæðinga Samfylkingarinnar um stöðu flokksins. (meira)
Vitundarvakning í umhverfismálum? (Fréttablaðið 1.12.05)
Líklega hafa ýmsir vaknað til vitundar um mengandi áhrif umferðar á
höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Í fréttum var frá því sagt að magn
tiltekinna efna hefði verið meira en góðu hófi gegndi og að á slíkum
þurrum og köldum vetrardögum færi mengun frá útblæstri bifreiða og
svifryk frá umferð yfir hámörk sem sett eru til verndar heilsu manna.
Síðan fór að blása, en vindurinn blæs þessu að mestu á haf út - og lengi
tekur víst sjórinn við. (Lesa
meira)
Jöfnum leikinn enn frekar
(á vef SFFR 14.10.05)
Svo virðist í þeirri umræðu sem
nú á sér stað í aðdraganda borgarstjórnarkosninga að ýmsir vilji gera
skipulagsmál að aðal kosningamálinu. Menntamál eru einnig nefnd, einkum
menntun yngstu barnanna, leikskólabarnanna. Það fer minna fyrir því að
álitsgjafar vilji taka hin almennu velferðarmál inn á sitt umræðuborð.(Lesa
meira)
Hófleg gjöld á fyrirtæki í
Reykjavík
Mikilvægt er að þess sé gætt að
gjöld hins opinbera fyrir þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga séu
hófleg og í samræmi við lýðræðislega mótaða stefnu. Þetta á að
sjálfsögðu við um gjöld sem sveitarfélög innheimta hjá fyrirtækjum vegna
mengunar- og heilbrigðiseftirlits. (Sjá
nánar - greinin birtist í Fréttablaðinu í september 2005).
Samfylkingin á
leikinn
Nú er ljóst að
Reykjavíkurlistinn býður ekki fram með sama hætti og gert hefur verið í
þrennum undangengnum kosningum. (Sjá
nánar) - Greinin birtist í Fréttablaðinu í september 2005 og
jafnframt á
vef
Samfylkingarinnar)
Hjólað í vinnuna,
grein í Morgunblaðinu 28.5.2005.
Velferðarþjónusta í Reykjavík, grein í Morgunblaðinu 19.3.2005.
Staða
forsjárlausra foreldra könnuð, grein í Fréttablaði í júlí 2005.
Ástæður
verðhækkunar húsnæðis að undanförnu, Morgunblað 1. apríl 2005.
Velferðarþjónusta í Reykjavík, Morgunblað 19. mars 2005.
Áfengisveitingar í íþróttahúsum?, Morgunblað 19. apríl 2004.
Samábyrgð í heilbrigðismálum, Morgunblað 2. desember 2003.
Nýskipan innkaupamála í Reykjavík, Morgunblaðið 30. ágúst 2003
Árangursríkt átak hjá Félagsþjónustunni, Morgunblaðið 7. desember 2002
Velferðarborgin Reykjavík, Morgunblaðið 22. maí 2002
Öflugt íþróttastarf, Morgunblaðið 14. maí 2002
Frábærir leikskólar, Morgunblaðið 11. maí 2002
Til hvers allt
þetta at?, Morgunblaðið 16. febrúar 2002
Aukin og bætt þjónusta, Morgunblaðið 12. febrúar 2002
Frétt í
Morgunblaðinu 8. maí 2004 um afstöðu til áfengisveitinga í íþróttahúsum.
Frétt í Morgunblaðinu 2. apríl 2004 um átök um áfengisveitingar í
íþróttahúsum.
Afstaða til eignameiri og eignaminni - frétt í Morgunblaði af
borgarstjórnarfundi í janúar 2004
Stefán í 9.
sæti Reykjavíkurlistans - grein í Morbunglaði 12. febrúar 2002
Eldri greinar eftir mig er m.a. hægt að
finna í
gagnasafni á vef Morgunblaðsins. |