Starfsemi og uppbygging íþróttafélaganna í borginni. 3. liður á borgarstjórnarfundi 20. maí 2008.
Forseti, góðir borgarfulltrúar.
Ég vil byrja á því að óska Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa, til hamingju með að vera nýkjörinn formaður íþrótta- og tómastundaráðs og fá í því hlutverki að setja nafn sitt við lokagerð stórra samninga við Fram, ÍR og vonandi fleiri félaga um uppbyggingu íþróttamannvirkja í borginni.
Reykjavíkurborg hefur á undanförnum áratugum lagt verulega fjármuni í uppbyggingu íþróttamannvirkja og verið þannig í fararbroddi um margt er varðar íþróttastarfsemi, eins og höfuðborg sæmir. Byggð hefur verið upp myndarleg aðstaða í hverfum borgarinnar fyrir íþróttafélög, í skólum og á opnum svæðum. Auk þess hefur sérstakt átak átt sér stað í Laugardalnum þar sem þjóðarleikvangur hefur verið reistur og endurbættur, skautahöll og frjálsíþróttahöll hafa verið byggðar og aðstaða fyrir fleiri íþróttir útbúin. Það má því segja að miðað við að það sé ekki lögbundið skylduhlutverk sveitarfélaga að sjá um uppbyggingu íþróttamannvirkja þá sé mjög ríkulega að íþróttum staðið. Samt finnst ýmsum, t.d. framáfólki í íþróttafélögum, oft að hægt gangi, enda hefur uppbyggingin stundum átt sér stað í bylgjum og rykkjum sem ráðast af skipulagi nýrra hverfa eða endurskipulagningu gamalla hverfa. Fyrir vikið getur aðstaðan orðið dálítið mismunandi, að minnsta kosti tímabundið, eftir hverfum.
Reyndar er það eftirtektarvert að í íþróttalögum segir í 5. grein að íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna. Í annarri grein segir að meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skuli vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skuli taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf. –
Skipulagt íþróttastarf fer því einkum fram í skólum og í frjálsum félagasamtökum, einkum hinum hefðbundnu íþróttafélögum, sem mörg hver fylla nú aldarafmælið, eins og KR, ÍR, Fram og Víkingur, og önnur nálgast þann áfanga óðfluga, eins og Valur. Íþróttahreyfingin í borginni er án efa öflugasta hreyfingin meðal borgarbúa í tvenns konar skilningi.
Nýverið var undirritað samkomulag á milli borgarinnar og tveggja hverfisfélaga. Þetta eru mikil tímamót fyrir bæði félögin, þ.e. ÍR og Fram. Undirbúningur samkomulags við félögin hefur tekið mörg ár og nær yfir fleiri en eitt kjörtímabil. Grunnurinn var lagður á tímum Reykjavíkurlistans. Fram er orðið aðþrengt með starfsemi sína í Safamýrinni og því gefst Frömmurum nú gullið tækifæri til öflugrar uppbyggingar í Úlfarsárdal, en þar á að verja í heild hátt í þremur milljörðum króna til íþróttamannvirkja af ýmsu tagi, en á móti fær borgin svæði og mannvirki í Safamýrinni.
ÍR-ingar hafa beðið í áratugi eftir að fá eigið íþróttahús í Breiðholtinu og sjá nú loksins fram á að það komi á svæði þeirra í Suður-Mjódd og efli þannig þá starfsemi sem þar er fyrir og hefur verið byggð upp á síðustu tæplega 40 árum. Þótt vissulega hafi verið til staðar íþróttahús við skólana í Breiðholti, þá hefur það staðið félaginu að ýmsu leyti fyrir þrifum að hafa ekki gott íþróttahús á meginsvæði sínu. Þá er einnig gleðilegt að smíði félagsheimilis Leiknis í Efra-Breiðholti er langt komin. Það er mjög mikilvægt að stuðla enn að uppbyggingu í Efra-Breiðholti og styðja Leikni til áframhaldandi afreka.
Þessi uppbygging mun skipta verulega miklu máli fyrir þessi félög. Íbúar í viðkomandi hverfum og þeir sem starfa í íþróttafélögunum binda miklar vonir við þau áform sem kynnt hafa verið. Það er því mikilvægt að samkomulag um þessar framkvæmdir gangi eftir og að fjármagn verði tryggt til að þær gangi eðlilega fyrir sig.
En það eru fleiri félög sem hafa þurft bætta aðstöðu. Unnið er að lagfæringum og endurbótum á Fjölnissvæðinu og miklar umræður eru um endurbætur á svæði og mannvirkjum Fylkis í Árbænum. Hið sama gildir um aðstöðu KR-inga í vesturbænum. Víkingar eru að fá nýjan gervigrasvöll, en önnur aðstaða í Víkinni hefur verið byggð upp á undanförnum árum. Þá hafa áætlanir verið unnar fyrir Þrótt í Laugardalnum, m.a. um færslu á aðalkeppnisvelli fyrir knattspyrnu þar sem núverandi keppnisvöllur er, auk þess sem setja á gervigrasvöll á svæði þar rétt hjá. Mér er ekki kunnugt um annað en að undirbúningsvinna hafi verið langt komin fyrir nokkrum mánuðum, en tiltölulega lítið hefur verið aðhafst ennþá þótt gert sé ráð fyrir fjármagni til þessara verkefna á árinu. Og ekki má gleyma hinum miklu framkvæmdum sem verið hafa á svæði Vals á Hlíðarenda.
Ég vona svo sannarlega að sá ótti muni reynast ástæðulaus sem grafið hefur um sig um að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar muni ekki geta framfylgt gefnum loforðum. Af því tilefni verð ég að minna á bókun fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks í íþrótta- og tómstundaráði 22. febrúar sl. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:
Þær upplýsingar sem liggja fyrir sýna að núverandi meirihluti ætlar að skerða framlög vegna stofnframkvæmda íþróttafélaga um 30% á næsta ári og 15% á árinu 2010. Ljóst er að loforðalistinn sem sjálfstæðismenn gáfu fyrir kosningarnar 2006 með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í fararbroddi er orðinn æði þunnur. Á næstu tveimur árum á að skera niður í stofnframkvæmdum um hátt í milljarð króna. Auk þess á að færa til framkvæmdafé frá íþróttafélögum til annarra þátta, þannig að félögin í borginni koma til með að finna verulega fyrir skerðingunni.
Tilvitnun lokið.
Hvað ætlar meirihlutinn að gera í málefnum Fylkis, Þróttar og KR? Það væri gott að fá svar formanns ÍTR við því. Meirihlutinn segir í áhersluatriðum sínum að hann ætli aðeins að ljúka vinnu við gerð samninga við þessi félög. Það vita allir að það er ekki nóg að gera samninga. Framkvæmdir þurfa að fylgja og því vaknar spurningin: Á ekkert að gera fyrir þessi félög á næstu árum, .. annað en að undirrita samninga? Eru framkvæmdir það langt undan að þær séu ekki í sjónmáli?
Að þessu sögðu er ekki hægt annað en að velta aðeins fyrir sér fjármálunum, m.a. út frá ummælum borgarstjóra við umræður um þriggja ára áætlun nýverið þar sem hann fjallar um agaleysi og óábyrg loforð tiltekinna borgarfulltrúa. Nánar um það hér á eftir, en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið í ár og þriggja ára áætlun 2009, 2010 og 2011 er gert ráð fyrir að verja rétt ríflega 5 milljörðum króna í stofnframkvæmdir í íþrótta- og tómastundamálum. Þetta er reyndar talsvert minni fjárhæð en var í þriggja ára áætlun Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að meðtalinni fjárhagsáætlun í fyrra. Nú er reiknað með að um helmingur áætlaðs fjár til stofnframkvæmda fari til ÍR og Fram. Þá eru ótaldar stórar framkvæmdir annarra félaga, endurbætur á Laugardalslaug og fleira – og því spurning hvort formaður íþrótta- og tómstundaráðs telji ekki þörf á meiri fjármunum til þess að standa undir lofuðum framkvæmdum. Þess vegna spyr ég Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa og formann íþrótta- og tómstundaráðs, hvort hann muni beita sér fyrir auknum fjármunum til þessa málaflokks á næstu árum.
Þótt dagskrárliðurinn hér fjalli einungis um íþróttafélögin er ekki hægt annað en að spyrja um áform meirihlutans í öðrum megin starfsþætti íþrótta- og tómstundaráðs: Hvað ætlar meirihlutinn að gera í málefnum frístunda, og þá einkum í því er varðar aðbúnað frístundaheimila, en nýverið var birt mjög dökk skýrsla um ástand þeirra sem í fáeinum tilvikum eru beinlínis heilsuspillandi. Hér má minna á að meirihlutinn skrifaði undir bókun sem við í minnihlutanum lögðum fram í íþrótta- og tómstundaráði á fundi 16. apríl sl. Þar segir, með leyfi forseta:
Starf frístundaheimila og tómstundamiðstöðva hefur fest sig í sessi og er orðinn veigamikill þáttur í þjónustu borgarinnar. Skýrsla um aðstöðu þessarar starfsemi sýnir svo ekki er um villst að taka þarf til hendinni svo aðstaðan verði boðleg. Skorað er á ÍTR að hafa hraðar hendur og taka myndarlega á þessum málaflokki. Mikilvægt er að efla enn frekar samstarf á milli ÍTR og Menntasviðs að þessu leyti. Börn og unglingar borgarinnar eiga það skilið. Starfsfólki tómstundamála og frístundaheimila eru færðar þakkir fyrir góð störf við erfiðar aðstæður.
Tilvitnun lokið.
Þar sem þessi mál eru til umfjöllunar má einnig minna á svokallaðar Sumartómstundir á vegum ÍTR, en þar vantaði þegar síðast fréttist um 8 milljónir króna fyrir um 30 stöðugildum svo að hægt yrði að sinna þeim umsóknum sem hlotið höfðu jákvæða umsögn starfsfólks íþrótta- og tómstundasviðs. Að óbreyttu fækkaði þannig þessum störfum um helming frá síðasta sumri ef ekkert verður að gert. Við fulltrúar Samfylkingar og vinstri grænna hvöttum til þess í íþrótta- og tómstundaráði 25. síðasta mánaðar að hér yrði bætt úr.
Varðandi frístundaheimilin er gott til þess að vita að nýkjörinn formaður ÍTR, Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, hafi skorað á sjálfan sig að gera eitthvað í málunum, eins og hér kemur fram. Þess vegna vaknar spurningin: Hvenær ætlar borgarfulltrúinn að bregðast við þessari áskorun og sjá til þess að brugðist verði við þessari dökku skýrslu um frístundaheimilin.
Forseti, góðir borgarfulltrúar og aðrir áheyrendur.
Þótt mannvirki séu í flestum tilvikum forsenda þess að hægt sé að stunda íþróttir í dag þá þarf fleira að koma til. Mannvirkin eru oft nauðsynleg forsenda íþróttastarfs, en þau nægja ekki ein og sér. Margir eru í launuðum störfum við rekstur mannvirkjanna og í hluta íþrótta- og félagsstarfsins. Starfsmenn íþróttafélaganna og launaðir þjálfarar skipta hundruðum, jafnvel þúsundum ef allt er talið með.
En til þess að hægt sé að halda uppi íþróttastarfi þarf einnig að koma til ólaunað framlag fjölda manna. Það er sem sagt talsverður hluti starfsins sem fer fram í sjálfboðavinnu foreldra og áhugafólks um íþróttastarfið. Þessi sjálfboðaliðaþáttur vill oft gleymast í umræðunni af því að hann sést ekki í reikningum félaga eða opinberra aðila. Það hefur þó verið reynt að meta þetta vinnuframlag til fjár og skiptir það þá milljörðum króna á ári, bara hér í höfuðborginni. Þannig var fyrir um ári kynnt rannsókn Þórdísar Gísladóttur um hagrænt gildi íþrótta, en þar kemur fram að íþróttahreyfingin sé fjölmennasta áhugamannahreyfing á Íslandi með 118.000 félagsmenn og 69.000 iðkendur. Sjálfboðaliðar í stjórnun og nefndum eru um 16 þúsund, vinnuframlag þeirra 2 milljónir klukkustunda á ári, eða um þúsund ársverk og áætlað heildarvirði sjálfboðaliðastarfs 7- 8 milljarðar króna. Það má því gera ráð fyrir að verðmæti vinnuframlags sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni í Reykjavík sé af álíka stærðargráðu og bein fjárframlög borgarinnar til málaflokksins. Það munar um minna.
Það er auðvitað hætt við því þegar svo stór hluti starfsins er unninn í sjálfboðavinnu að starfsemin geti orðið sveiflukennd og ef til vill ómarkvissari en ef allt starfið væri unnið af fólki sem sinnti því í launuðu og fullu starfi. Þess vegna er sá stuðningur sem Reykjavíkurborg veitir íþróttafélögunum á grundvelli sérstakra þjónustusamninga mjög mikilvægur. Á síðasta kjörtímabili var unnið að sérstökum þjónustusamningum við íþróttafélögin af forystufólki Reykjavíkurlistans, en Anna Kristinsdóttir gegndi þá formennsku í íþrótta- og tómstundaráði. Það var undir hennar forystu sem þjónustusamningarnir voru undirbúnir og innleiddir, en þessir samningar stuðla að mjög stöðugu og öflugu faglegu starfi hjá íþróttafélögunum.
Það vita flestir sem komið hafa nálægt starfi íþróttafélaga í einhvern tíma að það mæðir oft talsvert á þeim sem gefa sig í starfið. Það átta sig kannski ekki allir á því hversu mikið þetta fólk gefur af sér til samfélagsins. Allir vita að íþóttaiðkun unglinga er mikilvægur liður í forvörnum gegn áfengis- og vímuefnanotkun. Í áðurnefndri rannsókn Þórdísar Gísladóttur er talið að kostnaður samfélagsins við ungling í vímuefnaneyslu geti verið á bilinu 1-3 milljónir króna á ári. Samfélagskostnaður við ungling í íþróttum er hins vegar metinn á aðeins 17-18 þúsund krónur á ári. Miðað við þetta virðist ljóst að þeir fjármunir og sú vinna sem er verið að verja til íþrótta geta skilað sér margfalt til samfélagsins aftur.
Eins og ég gat í upphafi segir í íþróttalögum að samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skuli taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf. Í skýrslu starfshóps á vegum menntamálaráðherra frá 2006 um drög að íþróttastefnunni Íþróttavæðum Ísland er talsvert fjallað um forvarnargildi íþrótta og segir þar m.a. að regluleg hreyfing sé lykill að bættri heilsu og ótvíræð forvörn. Auðvitað er æðsta markmiðið með þessari starfsemi hið forna markmið Aþenubúa heilbrigð sál í hraustum líkama. Markmiðið er að efla lýðheilsu, þ.e. að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Reyndar voru það aðallega eða eingöngu karlmenn sem stunduðu íþróttir í Grikklandi til forna og þá gjarnan naktir, en í dag eiga bæði kynin að hafa jöfn tækifæri, þótt ekki gangi það fyllilega eftir í öllum tilvikum. Úr því þarf að bæta. En kannski eimir enn eftir af því viðhorfi sem var sagt einkenna Spartverja að hugsa fremur um líkamann en sálina.
Skipulagt íþróttastarf verður seint ofmetið. Það má heldur ekki gleyma þeirri íþróttaiðkun sem einstaklingar og hópar stunda sjálfir, af eigin hvötum og á eigin vegum. Slík íþróttaiðkun er talsverð í öllum aldurshópum, ekki hvað síst í þeim eldri, svo sem göngur af ýmsu tagi. Þess vegna langar mig að minna á tillögu sem við fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðum fram í íþrótta- og tómstundaráði 25. síðasta mánaðar, svohljóðandi með leyfi forseta:
Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til framkvæmdastjóra að láta fara fram hugmyndavinnu á sviðinu um merkingar, upplýsingaskilti og bætta aðstöðu á göngu- og hjólastígum borgarinnar sem hefði það að markmiði að auka hreyfingu borgarbúa, s.s. göngur, skokk og hjólreiðar.
Tilvitnun lokið.
Meirihlutinn óskaði eftir því að afgreiðslu þessarar tillögu yrði frestað, en ég er sannfærður um að ef aðstaða almennings til aukinnar hreyfingar yrði bætt enn betur með þessum hætti, sem þyrfti líklega ekki að kosta svo mikið í samanburði við annað, þá gæti það haft mjög jákvæð áhrif. Minna má á að ýmsir heilbrigðispostular hafa mælt með því að í stað þess að læknar vísuðu á tiltekin lyf þá myndu þeir ráðleggja fólki að hreyfa sig meira, t.d. fara reglulega í gönguferðir, því það kæmi að betra haldi en viss lyfjanotkun.
Forseti, góðir borgarfulltrúar.
Aftur að heimavelli okkar hér í borgarstjórn. Í ræðu borgarstjóra þegar þriggja ára áætlun borgarsjóðs var til umfjöllunar fyrir tveimur mánuðum sagðist hann vilja beita sér fyrir aga og festu í samskiptum við íþróttahreyfinguna. Þess vegna langar mig til þess að spyrja borgarstjóra: Hefur agaleysi ríkt í samskiptum borgarinnar við íþróttafélögin? Hvers konar agaleysi er hann að tala um; almennt agaleysi eða einstök tilvik – og þá hvaða tilvik? Borgarstjóri sagði einnig í ræðunni, og vitna ég nú beint í hana með leyfi forseta: „Vandamálið hefur fremur verið hitt, að borgarfulltrúar hafa gefið íþróttafélögunum fyrirheit án þess að bera þau fyrst undir borgarstjórn.“ – Tilvitnun lokið. Þess vegna spyr ég borgarstjóra: Hvaða borgarfulltrúar hafa gefið fyrirheit þau sem hann ræðir þarna um og hvaða fyrirheit eru það? Hvaða borgarfulltrúar hafa með þessu sýnt agaleysi eins og borgarstjóri er að gefa í skyn. Sýndi t.d. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri agaleysi með samþykktum sínum í fyrsta meirihlutanum á þessu kjörtímabili um útgjöld til íþróttafélaga í ljósi þess að Ólafur F. Magnússon núverandi borgarstjóri hefur skorið þessi framlög niður um milljarð næstu tvö árin?
Í áðurnefndri ræðu segir borgarstjóri að hann telji vera tækifæri til samnýtingar íþróttafélaga á keppnisvöllum og að hann hafi falið „embættismönnum að ræða við forystumenn í íþróttafélögum um hvernig sé skynsamlegast að byggja upp íþróttamannvirki til lengri framtíðar þar sem hagkvæmni verður gætt.“
Af þessu tilefni spyr ég borgarstjóra: Hvernig hafa þessar viðræður gengið – og er eitthvað út úr þeim komið? Hefur hann sjálfur einhverja skoðun á því hvernig samnýtingu af þessu tagi verður fyrir komið?
Í umræðu um þessi mál er rétt að fjalla um frístundakortið sem svo er kallað og var innleitt á síðasta ári. Innleiðing þess hafði verið rædd í nokkurn tíma og Reykjavíkurlistinn hafði samþykkt áætlun um fjárútlát til þeirra hluta. Þessir frístundapeningar skipta verulegu máli fyrir þá sem nýta þá og þeir gagnast íþróttafélögunum mjög vel. Það eru þó vonbrigði að fleiri skuli ekki nota kortið en raun ber vitni. Vonir stóðu til að allt að 65% aldurshópsins 6 til 18 ára myndi nýta sér þennan stuðning í fyrsta áfanga. Það markmið náðist ekki og ríflega 53% af aldurshópnum 6 – 18 ára sem eiga lögheimili í Reykjavík nýttu sér styrkinn á síðasta ári og það virðist jafnvel hafa átt sér stað fækkun á þessu ári, ef rétt er lesið í skýrslur um málið.
Þess vegna langar mig að spyrja formann íþrótta- og tómstundaráðs: Hverjar eru nýjustu tölurnar yfir nýtingu á frístundakortinu? Er enn aðeins um helmingur barna á viðkomandi aldri sem nýtir sér kortið? Og í framhaldi af því: Ef fjármunir sem til þessa eru ætlaðir hafa ekki verið nýttir hvernig verður þeim þá ráðstafað?
Forseti, góðir borgarfulltrúar!
Að lokum þetta:
Það voru bundnar miklar vonir við að frístundakortið myndi jafna aðstöðu barna sem búa við mismunandi efnahag til að stunda íþróttir. En það þarf að kanna vel hvort þetta gangi í raun eftir. Þær upplýsingar sem ég hef fengið úr öðrum sveitarfélögum sem innleitt hafa álíkan stuðning benda ekki til þess að aðstaða barna hafi verið jöfnuð. Og reyndar sýnir nýleg könnun að hér í Reykjavík er frístundakortið nýtt mun meira og betur af tekjuhærri hópum.
Upplýsingar um þetta sem koma fram í nýlegri könnun eru í raun mjög sláandi – og þær gefa sterkar vísbendingar um að frístundakortið sé ekki að ná því marki að jafna aðstöðu barna til íþróttaiðkunar. Þvert á móti má ætla að frístundakortið leiði til mismununar meðal barna hvað þetta varðar – þótt vissulega efli það íþróttalíf meðal þeirra sem taka þátt.
Þetta hlýtur að vekja ugg og spurningar hljóta að vakna í fyrsta lagi um frekari skoðun á framkvæmd og áhrifum kortsins og í öðru lagi hvort og þá hvernig útfærslan hafi mistekist. Þessar upplýsingar hljóta að leiða til þess að viðvörunarbjöllur eru farnar glymja á skrifstofum þeirra sem halda utan um skipulag þessa starfs. Hvað hyggst formaður ÍTR gera í málinu? Ætlar hann að stuðla að auknum ójöfnuði í borginni með óbreyttri útfærslu styrkja?
Markmiðið með frístundakortinu var að jafna aðstöðu barna, en ekki ýta undir þá mismunun sem þegar er til staðar að ýmsu leyti. Það er ekkert hægt að líta fram hjá því að framlögum og styrkjum er mjög misjafnlega skipt á milli barnanna í borginni, hvort sem um er að ræða íþróttir, listir eða aðrar tómstundir. Ein skýringin er sú að sum börn taka þátt, en önnur ekki, - og því njóta þau börn sem taka þátt styrkjanna en hin ekki. Annað er að sumir styrkirnir virðast leita meira til ákveðinna félaga og hverfa. Þetta getur ýtt undir og styrkt þá félagslegu einsleitni sem orðið hefur vart við. Þegar til dæmis er skoðað yfirlit yfir það hvert styrkir Afreks- og styrktarsjóðs á vegum ÍTR hafa farið á 14 ára tímabili kemur glögglega í ljós að fáein félög fá mjög stóran hluta styrksins, en fáein önnur félög nánast ekki neitt. Þannig virðast gömlu félögin í gamla hluta borgarinnar, sem standa á gömlum merg og hafa auk þess mun greiðari aðgang að styrktarfé fyrirtækja, fá hlutfallslega mjög stóran hluta þessara styrkja borgarinnar, á meðan sum yngri félög í nýrri hverfum fá nánast ekki neitt þótt barnafjöldinn sé þar jafnvel mestur og þar ætti þörfin að vera mest. Ef eingöngu hverfafélögin eru skoðuð þá fær eitt félag 30 prósent af styrkjafé þeirra á 14 ára tímabilinu á meðan annað félag fær aðeins 0,9% þótt barnafjöldinn sé þar mun meiri.
Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni og kalla fram hugmyndir um að endurskoða þurfi styrkjakerfi borgarinnar í átt til aukins jafnaðar. .... Því þótt aðstaða til íþróttaiðkunar fari stöðugt batnandi og sé mjög til fyrirmyndar að mörgu leyti hlýtur það að vera skylda borgaryfirvalda að sjá til þess að úthlutuðum gæðum af þessu tagi sé ekki alltof misjafnlega skipt meðal barnanna í borginni. Við viljum stuðla að betri heilsu fyrir alla, ekki aðeins fyrir suma, og við viljum tryggja jafnt aðgengi barna úr öllum hópum að íþrótta- og félagsstarfsemi. Þar eigum við dálítið í land.
|