Stefán Jóhann Stefánsson

Vestfirskur Reykvíkingur, hagfræðingur, stjórnmálafræðingur og áhugamaður um uppbyggilegar aðstæður fyrir mannlífið í hverfum borgarinnar, borgarsamfélaginu og landinu öllu

Forsíða
Greinar
Ræður
Trúnaðarstörf
Málefni
Menntun og störf
Áhugavert efni
Um Stefán Jóhann
Senda póst til SJS

 

Eldri forsíðupistlar

 

 

 

Mánudagur 21. júlí 2008:
Frístundapeningar aðeins til námskeiða sem vara lengur en 10 vikur

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvernig á því stendur að ekki sé hægt að nýta frístundakortið í Reykjavík í styttri námskeið, s.s. reiðnámskeið, en kortinu er ætlað að styrkja íþrótta-, lista- og tómastundastarf 6 til 18 ára barna í borginni. Meginmarkmiðið með kortinu er að öll börn og unglingar í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Það hafa ýmsir byrjunarörðugleikar komið í ljós með frístundakortið sem verið er að fara yfir, m.a. um að kortið nýtist betur tekjuháum fjölskyldum en tekjulágum. Ég held að í vissum tilvikum sé hægt að víkja frá þessu skilyrði um tíu vikur, en þá verður, ef ég man rétt, öðrum skilyrðum að vera fullnægt, s.s. um að þetta sé liður í uppbyggilegu félagslegu starfi sem nær yfir lengra tímabil. Í ljósi þess að reiðnámskeið eru sögð mun vinsælli hjá stelpum en strákum finnst mér að skoða megi þau út frá jafnréttissjónarmiði, til að bæta aðstöðu stúlkna. Það er e.t.v. til ein leið til þess, en ákveðinn hluti frístundapeninganna skal nýttur til sérafmarkaðra verkefna. Þessi tíu vikna viðmiðun var sett til að ýta undir það að verið væri að styrkja skipulega, íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi barna og unglinga sem væri bæði uppbyggjandi fyrir iðkendur og um leið skapaði það sem við köllum félagsauð, með því m.a. að mynda tengsl á milli fólks í viðkomandi starfi.

Almennt má hins vegar segja að ekki er komin löng reynsla á frístundakortið og það þarf að fara yfir ýmsa byrjunarörðugleika sem komið hafa upp og fara yfir álitamál, t.d. hvort til greina geti komið út frá sérstökum jafnaðarsjónamiðum, að styrkja vissa hópa til að stunda reiðnámskeið.
 

Fimmtudagur 3. júlí 2008:
Viðurkenning til húseigenda fyrir fegrun umhverfis

Eigendur þriggja húseigna í Breiðholti fengu afhent viðurkenningar hverfisráðs Breiðholts fyrir viðhald og snyrtimennsku húseigna og umhverfis. Þetta voru eigendur fjölbýlishúsanna Dalseli 38-40, Gaukshóla 2 og Eyjabakka 2-16. Sjá meðfylgjandi sem er tekið af vef borgarinnar:

w.08.vidurkenningar

Dalsel 38-40,  Stefán Jóhann Stefánsson stjórnarmaður í Hverfisráði Breiðholts afhenti Þórhalli Sverrissyni gjaldkera húsfélagsins og Kristínu Jónsdóttur viðurkenninguna.

 

w.08.vidurkenn

Eyjabakki 2-16, Þorkell Ragnarsson stjórnarmaður í Hverfisráði Breiðholts afhenti Bjarna Bjarnasyni formanni húsfélagsins viðurkenninguna.

 

Snnudagur 29. júní 2008:
Úr Meyjarsæti í Hlöðufell

Í dag gekk ég ásamt hópi sprækra göngumanna með Útivist úr Meyjarsæti að Hlöð

ufelli. Meyjarsæti er fyrir ofan Bolabás við svokallaða Hoffmannaflöt, en þar ku meyjar hafa fylgst með mönnum sínum berjast til forna. Gengið var meðfram Tindaskaga og Skjaldbreið og að Hlöðufelli, tæplega 30 kílómetra leið. Ferðin tók daginn. Lagt var af stað frá Umferðamiðstöðinni kl. 8, komið rétt upp úr 9 að Meyjarsæti og svo var gengið sleitulítið til klukkan rúmlega 5 þegar áfangastað var náð. Veður var ágætt, ekkert allt of hlýtt, en bjart og örlítill mótvindur, dálítið moldrok sem þó var hægt að sneiða hjá með því að halda sig aðeins í hlíðum Skjaldbreiðs. Á þessari leið hefur margt gerst sem hér verður ekki getið um, en víst er að náttúran er mikilfengleg, fjöllin tignarleg og gróðurinn ótrúlegur. Lambagrasabreiður voru þarna á vissum stöðum ótrúlega fallegar og geldingahnapparnir vöktu einnig sérstaka athygli mína.

Rétt er að taka fram að þetta var sjöundi leggurinn í göngu Útivistar yfir langið frá Reykjanesi að Langanesi, svokallaðri Steingrímsgöngu Sigfússonar. Fyrsta gangan var í mars og hafa nokkrir tekið þátt í öllum göngunum, en þetta var fyrsta gangan mín.

 

Laugardagur 28. júní 2008:
Engar verjur í Bónus?

Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs í gær mættu þrjú reykvísk ungmenni til að fylgja eftir tillögum sem samþykktar voru á fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa í vor. Tillögurnar voru um ungmennahús í miðbænum, vinnu ungmenna, graffiti og fleira. Unglingarnir fluttu mál sitt vel og voru glæsilegir fulltrúar reykvískra ungmenna á þessum fundi. Við, gamlingjarnir í ráðinu, hlustuðum og krakkana og tókum þeim vel og var reynt að koma eins og hægt var til móts við tillögurnar.
 
Stúlka í hópnum flutti tillögu um að nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla fengju að vinna með skóla á frístundaheimilum. Fram kom á fundinum að þessir krakkar væru sumir að vinna í Bónus, en það var talið að það myndi miklu fremur hindra ótímabærar þunganir ef unglingarnir fengju að vinna með smábörnin á frístundaheimilunum. Þá kom fram hjá ráðsmönnum að ekki væri hægt annað en að taka þessari tillögu vel. Varð af því tilefni til þessi vísa:
  

Unglingur unga vill passa,

og ala upp yndisleg börn,

að afgreið' í Bónus á kassa,

er alls engin getnaðarvörn!

 

(frásögn og vísa örlítið breytt til að brjóta ekki reglur borgarinnar um frásagnir af nefndafundum)

Föstudagur 20. júní 2008:
Frístundakort nýtist betur tekjuháum

Frístundakortin sem innleidd voru í Reykjavík fyrir nokkru hafa komið rekstri íþróttagreina á styrkari grunn í einhverjum tilvikum. Að vísu er reynslan af kortunum ekki löng svo gæðamat ber að taka með vissum fyrirvara. Í frétt í Fréttablaðinu 15. júní sl. var fjallað um frístundakortin og dregnir fram ýmsir jákvæðir þættir, svo sem þeir að frændur vorir á Norðurlöndum líti til kortanna með áhuga. Ekki gátu viðmælendur blaðamanns um neikvæða reynslu af kortunum, sem þó hefur verið fjallað um á vettvangi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Einn helst ókosturinn sem komið hefur fram er sá að kortið virðist vera nýtt betur eftir því sem tekjur fjölskyldu iðkenda hækka. Þetta vakti sérstaka athygli þeirra sem tóku saman skýrslu fyrir ÍBR um málið, en sú skýrsla var kynnt fyrir íþrótta- og tómstundaráði. Þeim tilgangi virðist því ekki hafa verið náð að tryggja með kortunum jafna þátttöku barna óháð tekjum foreldra. Að vísu er gert ráð fyrir að gripið sé til sérstakra ráðstafana, m.a. til handa hinum tekjulægri, en enn er óljóst hverju það skilar.

Þetta er miður, en kemur svo sem ekki á óvart miðað við reynslu annarra sveitarfélaga sem tekið hafa upp svipað fyrirkomulag. Styrkir af þessu tagi virðast almennt fremur leita til þeirra sem hafa hærri tekjur fyrir. Þetta vekur einnig upp spurningar um fyrirkomulag annarra styrkja, t.d. á vegum ÍTR. Þannig hefur komið í ljós að á rúmlega áratug hafa styrkir Afreks- og styrktarsjóðs raðast þannig niður að eitt hverfafélag í Reykjavík hefur fengið langmest, eða 30% fjárins, á meðan annað fékk 0,9%. Ég tel að þessi munur sé meiri en svo að réttlætanlegt sé og það sé ástæða til þess, t.d. í ljósi þess sem fram kom í skýrslu ÍBR um frístundakortin, að skoða þess mál gaumgæfilega og leita leiða til að jafna betur aðstöðu barnanna í borginni.



Miðvikudagur
28. maí 2008:
Gleyma verkalýðsflokkar í Evrópu verkalýðnum?

Ég rakst nýlega á grein þar sem lýst er viðhorfum verkalýðs og launþega til þess sem er að gerast í Evrópusambandinu. Fram kemur að óánægju gætir hvað mest hjá þessum hópi samfélagsþegna sem jafnframt eru hefðbundnir kjósendur verkalýðs- og jafnaðarmannaflokka. Þessir hópar hafa verið í fararbroddi í andstöðunni gegn breytingum á stjórnarskrá sambandsins og verið almennt neikvæðari til þess sem er að gerast í Evrópusambandinu. Ástæðan er tiltölulega einföld. Viðvarandi atvinnuleysi, skert þjónusta og minna afkomuöryggi bitnar á þessum hópum.

Gjá á milli forystu og fylgjenda - vonleysi grefur um sig
Þetta kemur fram í nýlegri grein í tímaritinu Challenge og er eftir Vincent Navarro og John Schmitt, sem báðir eru fræðimenn á þessu sviði. Hér verður ekki lagt mat á gæði greinar þeirra, en umfjöllunin kemur þó ekki á óvart og er í líkum anda og hjá ýmsum öðrum. Þeir lýsa því í greininni sem er birt í upphafi þessa árs að kröfur Evrópusambandsins til aðildarríkja, m.a. er varðar opinber fjármál, hafi umræddar afleiðingar. Jafnframt hafi fjarlægðin á milli hinna ýmsu valdakjarna sambandsins og almennings í löndunum aukist og skilningur og samstaða minnkað. Það eigi ekki hvað síst við um forystumenn og fylgjendur jafnaðarmannaflokkanna, en þeir flokkar eru þó almennt fylgjandi auknum samruna og þeim kröfum sem frá sambandinu koma. Höfundarnir rekja niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna í Frakklandi, Hollandi og Luxemborg um nýja stjórnarskrá, og greina auk þess frá skoðanakönnunum um sömu atriði í öðrum ríkjum, s.s. Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Þar kemur fram að fólk úr launþega- og verkalýðsstétt er almennt, og oft stór meirihluti, á móti aukinni samrunaþróun. Tekjuhæstu hóparnir eru hins vegar þessu almennt hlynntir. Ástæðurnar eru eins og að ofan greinir tiltölulega einfaldar. Þær má rekja til versnandi afkomu og vonleysis að ýmsu leyti vegna beinna eða óbeinna krafna frá Evrópusambandinu.

Vaxandi tekjumunur - afkomuóöryggi - minni þjónusta
Þannig hafi tekjubil á milli hópa aukist víða verulega, einkum þar sem tekjur lægri tekjuhópanna hafa staðið nokkurn veginn í stað á meðan tekjuháir hópar hafa rakað saman fé, m.a. vegna aukins hagnaðar. Þá hafi bætur vegna veikinda, slysa og atvinnuleysis víða verið lækkaðar. Að auki hafi afkomuöryggi minnkað með afnámi ýmissa reglna, sem áttu m.a. að draga úr atvinnuleysi, án þess að fullnægjandi árangur hafi náðst í þá átt. Atvinnuleysið, þriðja stóra ástæðan fyrir vonleysi verkalýðsstéttarinnar í Evrópu, var að jafnaði minna í álfunni en í Bandaríkjunum fram undir 1980, en þá jókst það og hefur verið meira í Evrópu, m.a. vegna samræmdra viðmiðana um efnahagsstjórn, eftir því sem þessir höfundar halda fram. Nú sé hliðstæð þróun að eiga sér stað í Austur-Evrópu.

Velferð almennings?
Upplýsingar á borð við þessar hljóta að vekja fólk til umhugsunar, ekki síst jafnaðarmenn sem telja að það sé lykilatriði í velferðarpólitík að tryggja sem best atvinnustig til lengdar. Jafnaðarmenn vilja að sjálfsögðu að atvinnulífið sé vel rekið, að bankarnir séu reknir af öryggi og að þeir dafni. Það er forsenda fyrir almennri velferð til framtíðar. En þegar jafnaðarmannaflokkar virðast vera farnir að setja hagsmuni fjármagnseigenda áberandi ofar hagsmunum launþega hljóta að vera farnar að renna tvær grímur á einhverja stuðningsmenn jafnaðarmannaflokkanna.


Þriðjudagur
27. maí 2008:
Ýmislegt í gangi í borgarmálunum

Það er ýmislegt í gangi í borgarmálunum þótt það rati ekki í fjölmiðlana.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti í fyrri viku tillögu sem ég lagði fram fyrir hönd minnihlutans í ráðinu um að láta fara fram hugmyndavinnu á sviðinu í því skyni að ýta undir notkun á göngu- og hjólastígum sem hefði það að markmiði að auka hreyfingu borgarbúa með göngum, skokki og hjólreiðum.

Jafnframt var samþykkt tillaga sem ég lagði fram fyrir hönd minnihlutans um að framlögð þarfagreining Fjölskyldu- og húsdýragarðsins yrði höfð til hliðsjónar við gerð næstu fjárhagsáætlunar fyrir borgina. Brýnt er m.a. að bæta úr húsnæðisaðstöðu fyrir menn og málleysingja í garðinum.

Þá má greina frá því að tveir ungir menn mættu á síðasta fund ráðsins og mæltu fyrir tillögum um aukið fjármagn til sumarstarfa og um starfrækslu félagsmiðstöðva í öllum hverfum. Var tillögum ungu mannanna tekið vel og vísað til frekari vinnslu og athugunar, en við í minnihlutanum hvöttum til þess að séð yrði til þess að fjármagn til sumarstarfa yrði ekki skorið niður.

Jafnframt lagði ég fyrir hönd minnihlutans fram fyrirspurn, sem er svohljóðandi:

Í könnun sem kynnt var á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs komu fram vísbendingar um að frístundakortið væri misjafnlega nýtt eftir tekjuhópum og hverfum. Telur framkvæmdastjóri ÍTR þetta gefa tilefni til frekari skoðunar og/eða aðgerða miðað við þau yfirlýstu markmið með kortinu að jafna aðstöðu barna í borginni?

Fimmtudagur 22. maí 2008:
Hvernig komum við í veg fyrir mismunun?

Tölur sem nýverið hafa verið kynntar sýna vísbendingar um að opinber stuðningur við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og unglinga nái ekki þeim tilætlaða árangri að jafna aðstöðu barna til iðkunar. Rétt er strax að hafa í huga að framlög sveitarfélaga til íþrótta- og tómstundamála eru mjög ríkuleg víða hér á landi, auk þess sem geysimikið sjálfboðastarf er unnið sem reikna má á líku verðgildi og hið opinbera framlag. Framlag sveitarfélaga til íþróttamála er ekki eitt af hefðbundnum verkefnum sveitarfélaga og samkvæmt íþróttalögum er í raun gert ráð fyrir að grundvöllur íþróttastarfs sé íþróttakennsla í skólum og starfsemi frjálsra íþróttafélaga.

Það er því engin ástæða til að vanþakka það sem gert er. Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því ef framlögin stuðla ekki að því að ná yfirlýstum markmiðum, svo sem þeim að jafna aðstöðu barna og unglinga til að taka þátt í íþróttum. Það var einmitt aðaltilgangurinn með innleiðingu svokallaðs frístundakorts í Reykjavík. Frístundakortið hefur komið sér mjög vel fyrir þau börn, unglinga og fjölskyldur sem hafa nýtt það. Jafnframt hefur það auðveldað starfið að mörgu leyti fyrir íþróttafélögin. Hins vegar verður ekki annað séð af nýlegri könnun sem kynnt var í íþrótta- og tómstundaráði að frístundakortið skili sér betur til tekjuhærri fjölskyldna. Í könnuninni kom fleira fram sem undirstrikar þetta mat.

Það sem fær mig til að hafa orð á þessu er annars vegar það að ég hef heyrt svipaðar lýsingar af styrkjum af þessu tagi í öðrum tilvikum. Af því tilefni skoðaði ég tiltekna styrki til íþróttafélaganna í Reykjavík úr svokölluðum Afreks- og styrktarsjóði. Vissulega er þar að hluta til verið að styrkja afrek en ekki iðkunina sem slíka, en skoðun á úthlutun fyrir síðustu ár er samt talsvert sláandi. Þar kemur í ljós að á 14 ára tímabili fékk eitt félag um 30% af úthlutuðu styrktarfé til hverfafélaga í borginni á meðan annað félag í barnfleira hverfi náði ekki prósenti af fénu. Það er hægt að koma með ýmsar útskýringar sem skýra að einhverju leyti þennan prósentumun, en það breytir því ekki að fénu er mjög misjafnlega dreift til félaganna, og þar með barnanna, í borginni. Þar, eins og almennt gildir um styrki til listastarfs og margs konar tómstundastarfs, er féð oft nýtt hvað best af þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er náttúrulega grátlegt, ekki hvað síst fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu og vilja sjá hlutina gerast öðruvísi.


Umræður í borgarstjórn 20. maí 2008
:
Öflugt íþróttastarf, en ekki fyrir alla

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag var rætt um málefni íþróttafélaganna í Reykjavík. Þar sem ég er fulltrúi Samfylkingar í ráðinu flutti ég þar ræðu og fór yfir stöðu mála, fjallaði um íþróttafélögin, sjálfboðastarfið, frístundakortin og fleira. Ég fjallað einnig um það hvernig opinber framlög til íþróttamála gagnast ekki öllum jafnt, og að því miður virðist frístundakortið ekki hafa náð þeim tilgangi sínum að jafna aðstöðu barna í borginni.

Sjá nánar:

Páskadagur 23. mars 2008:
Frídagar á Íslandi

Eftir því sem mér skilst eru frídagar á jólum og páskum fleiri hér á landi en í flestum nágrannaríkjum okkar Íslendinga. Fyrir vinnandi fólk ættu frídagar að vera til að hvílast og endurnærast. Svo er eflaust í mörgum tilvikum, en örugglega ekki öllum. Í þetta sinn ákváðum við bara að vera heima og sinna því nauðsynlegasta. Sleppa sumarbústaðarferð eða skíðaferð á æskuslóðirnar. Kyrrðin í bústað við Þingvelli eða fegurð fjallanna á góðum degi á skíðasvæði Ísfirðinga eru endurnærandi. En það er líka endurnærandi að vera bara heima hjá sér í rólegheitum. Dunda sér við eitthvað smálegt. Kíkja í blöðin að morgni. Hlusta eftir fréttum. Líta til veðurs. Athuga vefsvæðið sem maður hefur ekki gefið sér tíma til að sinna! Útbúa páskaeggjaratleik! Eins gott að gleyma því ekki.....

 

Þriðjudagur 19. febrúar 2008:
Stórfelldur niðurskurður meirihluta Sjálfstæðismanna og F-lista til íþróttamála!

Mér sýnist að Ólafur F. og Sjálfstæðismenn ætli gjörsamlega að snúa bakinu við nokkrum hverfafélögum í borginni. Í þriggja ára áætlun um fjárhag borgarinnar sem kynnt var í borgarstjórn í dag kom fram að fé til framkvæmda nokkurra íþróttafélaga verður skorið verulega niður. Þvert á gefin loforð sjálfstæðismanna fyrir nokkrum mánuðum sem ítrekuð voru fyrir nokkrum dögum á fundi ÍTR. Ég leyfi mér hér að birta stutta samantekt Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, um málið.

„Niðurskurður til íþrótta næstu þrjú ár
- áætlanir ÍR, KR, Fram og Fylkis í uppnámi

Stefnumörkun nýs meirihluta Ólafs F. Magnússonar og Sjálfstæðisflokksins í þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar (2009-2011) kynnir stórfelldan niðurskurð í stofnframkvæmdum íþróttamannvirkja. Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar í gær. Þetta vekur sérstaka athygli því í engum málaflokki gekk Sjálfstæðisflokkurinn rösklegar fram í kosningaloforðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Mér reiknast til að það sem eftir stendur af framkvæmdum af þeim loforðalista hefði kallað á framkvæmdir fyrir um 5,5 milljarða króna næstu þrjú ár og er þó líklega ekki allt talið sem sett var fram.

Milljarð vantar miðað við síðustu áætlun
Síðasta þriggja ára ætlun (2008-2010) var afar metnaðarfull í íþróttamálum þótt hún hefði líklega aldrei náð að koma öllum loforðum sjálfstæðismanna í hús. Í þessari fyrri áætlun var gert ráð fyrir 1.730 milljónum króna til framkvæmda í íþrótta- og æskulýðsmála árið 2009 og 1.650 milljónum króna árið 2010. Þetta var í samræmi við viðræður sem fram fóru við íþróttafélögin í tíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar á stóli borgarstjóra. Nú ert gert ráð fyrir 1.200-1.300 milljónum á ári næstu ár. Þar af kemur inn nýr liður upp á 800 milljónir í endurgerð eldri sundlauga fyrir 800 milljónir króna. Þar með er enn minna til skiptanna fyrir framkvæmdir íþróttafélaganna. Niðurskurðurinn á framlögum til íþróttaframkvæmda á næstu þremur árum er því aldrei undir 1 milljarði króna og líklega vantar heila fjóra milljarða til að Sjálfstæðisflokkurinn standi við öll sín stóru orð. Ljóst að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á verulega vinnu fyrir höndum til að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart kjósendum í þessum efnum. En það er víst ekki eini vandi þess ágæta fólks.

Framkvæmdaáætlanir um alla borg í uppnámi
Í sem stystu máli: árin 2009-2011 er ekki ætluð króna í framtíðarsvæði Fram í Úlfarsfelli. Framkvæmdir ÍR, KR, Fylkis og fleiri eru í fullkomnu uppnámi, og þá er fátt eitt nefnt.“
 

Þriðjudagur 19. febrúar 2008:
Myndi ESB og evru fylgja minni eða meiri sveiflur í efnahagslífinu?

Það er fróðlegt að fylgjast með ýmsum þáttum umræðunnar um möguleg áhrif ESB-aðildar og evru-upptöku á íslenskt efnahagslíf. Því er stundum haldið fram að minni sveiflur myndu fylgja slíkri aðild. Í dag hlýddi ég á erindi fræðimanns á þessu sviði. Hagfræðin er ekki nákvæm vísindi og mikil óvissa oft í þeim fræðum. Umræðan snerist um það hvort sveiflur í verðbólgu yrðu minni eða meiri ef við værum með evru og værum háð peningastjórn seðlabanka Evrópu. Svarið er í raun bæði og. Sameiginlegur gjaldmiðill okkar og stórs Evrópusvæðis myndi væntanlega minnka áhættu í viðskiptum með gjaldmiðilinn og því gætu fylgt minni sveiflur í verðbólgu. Á hinn bóginn gætu meiri sveiflur í verðbólgu fylgt þar sem hagsveiflur á Íslandi og í flestum Evrópusambandsríkjum eru ósamhverfar (þenslu- og samdráttarskeið ber ekki upp á sama tíma) og því hentar mismunandi peningastefna, eða ákvarðanir um stýrivexti sem eiga að hafa áhrif á verðbólguna. Í hagfræðimódelum er hægt að gefa sér ýmsar forsendur sem ekki væru raunhæfar með tilliti til aðstæðna í hagherfinu eða stjórnkerfinu. Ein slík forsenda væri t.d. að hugsa sér að við hefðum verið með evru og háð peningastjórn Evrópubankans í þeirri uppsveiflu sem verið hefur undanfarið. Ég hef engan séð halda því fram að við slíkar aðstæður hefði verðbólga orðið minni, heldur þvert á móti miklu meiri. Þannig að þrátt fyrir allt, þegar hagsveiflur í íslensku hagkerfi eru meiri en gengur og gerist, og á meðan þær markast m.a. af ólíkindalegri hegðun þorsks og loðnu sem láta sig meðaltalsreglur Evrópubankans litlu varða, þá er eins víst að aðild að Evrópusambandinu og evru-upptaka myndi auka á sveiflur í íslensku hagkerfi, bæði í verðbólgu og atvinnu. Verið getur að eigendur stórbankanna hefðu tryggari atvinnu, en ekki er eins víst að atvinna þorra almennings yrði eins trygg í slíku ástandi.

Miðvikudagur 13. febrúar 2008:
Evruumræða á villigötum

Ýmsir ákafir áhangendur Evrópusambandsaðildar hafa að undanförnu talað eins og vandalítið væri að taka upp evru án aðildar að sambandinu. Á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í dag var eins og stungið hefði verið gat á þessa uppblásnu umræðu, einkum eftir innlegg Jürgens Stark, stjórnarmanns í Evrópska Seðlabankanum, sem taldi þessa leið í gjaldeyrismálum með öllu óásættanlega og í andstöðu við Evrópska Seðlabankann. Í lok þingsins kom sams konar afstaða fram hjá forkólfum í viðskiptalífi sem fengnir voru til að bregðast í pallborði við því sem fram hafði komið. Reyndar mátti á sumum þeirra skilja efa um að Evrópusambandsaðild væri þjóðinni til góða þótt hún gæti verið góð fyrir tiltekin fyrirtæki sem væru með talsverða starfsemi erlendis.

Það eru skiptar skoðanir meðal félagsmanna Viðskiptaráðs eins og meðal landsmanna almennt. Meirihluti þeirra vill samkvæmt könnun taka upp aðra mynt en krónuna, helst evru, og þá ýmist einhliða eða með aðild að ESB. Hins vegar er meirihluti félagsmanna andvígur aðild að Evrópusambandinu. Miðað við þær forsendur er evruumræðan í öngstræti.

Viðskiptaþing í gær vekur upp ýmsar spurningar. Vissulega hefur því reglulega verið haldið fram af ábyrgum aðilum að upptaka evru án aðildar að ESB kæmi ekki til greina. Sambandssinnar, sem margir hverjir eru stöðugt að kalla eftir upplýstri umræðu, og ættu sumir hverjir að hafa yfir nokkurri þekkingu að ráða, hafa hins vegar talað eins og ekkert mál væri að innleiða hér nýjan gjaldmiðil. Maður skilur ekki alveg hvað þeim gengur til. Tala þeir gegn betri vitund, eða vita þeir ekki betur, og halda þeir e.t.v. að hægt sé að þröngva Íslendingum bakleiðina inn í Evrópusambandið með þessum hætti?

Af vef Viðskiptaráðs:

Hvað varðar þá þróun að evran myndi taka sig upp sjálfkrafa sagði Jürgen: „evruvæðing að hluta felur í sér alvarlega áhættu fyrir þegna, viðskipti, bankanna sem og hið opinbera.”

Sjá nánar á www.vi.is

 

Sunnudagur 3. febrúar 2008:
Evrópuvakt og Evrópuumræða
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur ekki á dagskrá að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar hefur ríkisstjórnin komið sér saman um að setja á laggirnar tvíhöfða nefnd undir forsæti þingmannanna Ágústs Ólafs Ágústssonar og Illuga Gunnarssonar til að vakta það sem er að gerast í Evrópusambandinu með tilliti til hagsmuna Íslands.

Umræðan um ýmsa þætti Evrópunálgunar er eftir sem áður heit á köflum. Minnir framganga sumra, í báðum herbúðum, á ákaft trúboð, á meðan fjöldinn er hógværari og margir láta sig málið litlu skipta.

Í umræðu af þessu tagi er ein grundvallarspurningin þessi:

Hver er staða Íslands í samanburði við aðrar þjóðir – og hverju myndi aðild að Evrópusambandinu breyta varðandi mikilvæga þætti um almenna velferð hér á landi?

Ljóst er að alþjóðlegar stofnanir meta lífskjör hér á landi með þeim allra bestu í heiminum. Meðaltekjur á mann hafa síðustu áratugina verið með því sem mest gerist. Því vaknar spurningin: Hvað myndi breytast við aðild hvað þetta varðar? Myndi aðild og það sem henni fylgir gagnast öllum jafnt, eða myndu e.t.v. einhverjir tilteknir hópar fá meira í sinn hlut en aðrir.

Það eru fjölmörg atriði sem taka þarf tillit til í þessari umræðu. Þau snerta þróun efnahagsmála, atvinnumál, félagsmál, auðlindamál og fjöldamargt fleira. Því geta svör við spurningum verið mismunandi eftir því um hvaða málaflokka er fjallað hverju sinni.

Upp á síðkastið hefur umræðan snúist talsvert um það hvort fjármálastofnanir fái að gera upp í evrum. Þá þarf auðvitað að svara m.a. þeirri spurningu hvaða áhrif það hefur annars vegar á fyrirtækin sjálf og eigendur þeirra og hins vegar á þorra almennings. Fara hagsmunir þessara aðila saman?

Auðvitað finnst svo einhverjum að það eigi ekki að spyrja spurninga af þessu tagi, því um hugsjónamál sé að ræða - og að þetta sé spurning um pólitíska sýn hvort maður sé fylgjandi aðild og því sem henni kann að fylgja eða ekki. Við slíkri afstöðu er í raun ekkert að segja, annað en en það að fyrir slíkt fólk skipta staðreyndir væntanlega ekki miklu. Fyrir þorra fólks skiptir það hins vegar mestu hver kjör þeirra verða. Fólk veit hvað það hefur, og fæstir vildu kasta heimsins bestu velferð á glæ fyrir hugsjónir um óljósa Evrópuframtíð.

 

Föstudagur 25. janúar 2008:
Blikkað og tælt með gylltum stól og sjálfvali

 Sambræðingur Ólafs F. úr F-lista og sjálfstæðismanna í borgarstjórn er undarlegur gjörningur. Fyrir rúmu ári, eftir síðustu kosningar, vildu sjálfsstæðismenn ekki sjá Ólaf og vísuðu honum á dyr eftir dagslangar viðræður. Í haust var Ólafur svo helsti hvatamaður þess að fá framsóknarmenn til liðs við minnihlutann í borgarstjórn þegar ljóst var að ekki aðeins þáverandi meirihluti heldur einnig sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn var að molna í sundur vegna átakanna sem tengdust REI-málinu. Þetta ætlunarverk Ólafs tókst og hann kom aftur til starfa eftir nokkurt hlé fyrir áramót. Það var ekki á honum að heyra að hann væri óánægður með samstarfið. Á fundum borgarstjórnarflokksins voru málin rædd svo sem hefð er fyrir um slíka vinnu, og ég man í raun ekki eftir neinu verulegu ágreiningsefni. Laugarvegsmálið var í raun ekki ágreiningsefni þar sem það var komið á ákveðinn stað í stjórnsýslunni. Sú frestun á málinu sem borgarstjórn beitti sér fyrir hefði þó átt að vera Ólafi að skapi. Flugvallarmálið var vart til umræðu, þótt ýmis hugmyndavinna væri í gangi og athuganir af ýmsu tagi.

Síðastliðinn mánudag mætti ég um kl. 17 síðdegis til fundar við meirihlutann. Ég tók eftir því að Ólafur var ekki á staðnum og spurði skýringa á fjarveru hans. Á henni var engin skýring, þótt sögusagnir væru á kreiki. Ekki hafði Ólafur sjálfur skýrt frá ástæðum fjarveru sinnar. Þegar klukkan var langt gengin í 18 varð staðfest að hann stæði í meirihlutaviðræðum við sjálfstæðismenn án þess að hafa skýrt oddvitum minnihlutans eða sínum nánustu í F-listanum frá því. Framhaldið þekkja allir.

Ljóst er að einn eða að hámarki tveir borgarfulltrúar sjálfstæðismanna fengu Ólafs til liðs við sig með gylliboðum um borgarstjórastól, þótt F-listinn hefði hlutfallslega lítið atkvæðamagn á bak við sig. Þegar litið er á hinn svokallaða málefnasamning er ljóst að sjálfstæðismennirnir hafa verið á hnjánum ef ekki lagst algjörlega flatir við fótskör Ólafs á meðan hann hripaði niður óskalistann sinn. Þrátt fyrir það hafði Ólafur ekki næstu menn á F-listanum með sér, en hefur tekist að toga fólk neðar á listanum inn í þetta, auk þess sem slatta af fólki úr öðrum áttum hefur verið smalað í nefndarsæti fyrir sambræðinginn.

Nær allir borgarbúar, fyrir utan nánustu samverkamenn aðalleikaranna í þessu drama, telja þennan gjörning hinn undarlegasta. Hér leikur tækifærismennskan algjörlega lausum hala. Það er ástæðulaust að kalla þetta valdníðslu, því þetta er gert í krafti lýðræðislega kjörins meirihluta. Hið pólitíska siðferði í þessu er þó á lægra plani en flestir vilja láta kenna sig við. Ummæli krónprins sjálfstæðismanna lýsa þessu mætavel þegar hann fer skilningsríkum orðum um ólætin á áhorfendapöllum borgarstjórnar. Sjálfstæðismenn, meira að segja í innsta hring, reyna að kyngja þessum gjörningi, en eru samt með óbragð í munninum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með störfum þessa meirihluta. Hér skjótast stefnumálin út og suður eins og skopparabolti í litlu rými. Flugvöllurinn skal burt einn daginn, vera kyrr næsta dag og Laugaveg skal ýmist upp byggja með nýjum byggingum eða varðveita í 19. aldar stíl. Hið tætingslega lið sem Ólafur hefur dregið úr ýmsum áttum inn í nefndir er auk þess óskrifuð bók og fróðlegt verður að fylgjast með þeim sem vilja allt friða og ekkert skerða eiga við framkvæmdaglaða sjálfstæðismenn. Það er óhjákvæmilegt að það skerist í odda áður en langt um líður. Þá verður eina leiðin fyrir sjálfstæðismenn til að bjarga nýfengnum stólum að kyngja fleiri kröfum 19. aldar liðsins og koma í veg fyrir eðlilega framþróun í höfuðborginni.

 

Blásið til sóknar í Breiðholti    (fimmtudaginn 17. janúar 2008)

Nú verður blásið til sóknar í hverfum borgarinnar. Sérstakt átak er í undirbúningi sem felst í því að auðvelda íbúum að koma á framfæri skoðunum, ábendingum og tillögum um framkvæmdir á útisvæðum. Hin nýkjörnu hverfaráð verða virkjuð í þessum verki sem og Þjónustumiðstöðvarnar, hverfastöðvar, Umhverfissvið og Framkvæmdasvið auk íbúanna sjálfra. Sérstakar ábendingarvefsíður eru í undirbúningi, auk þess sem leitað verður samráðs með öðrum hætti, m.a. með sérstökum íbúaþingum. Í dag var haldinn sérstakur undirbúningsfundur með starfsmönnum borgarinnar og formönnum hverfisráðanna þar sem menn lærðu til verka. Ég hef trú á því að það verði nóg að gera í þessu fram á vor.

Fjör í fimmtugsafmælinu    (föstudaginn 28. desember 2007)

Fjölmargir vinir, vandamenn og samstarfsmenn úr ýmsum áttum glöddu mig með nærveru sinni í fimmtugsafmæli mínu 28. desember 2007 sem var haldið í Norræna húsinu. Þar fór fram gjörningur af ýmsu tagi þar sem afmælisbarnið var tekið út, listamenn tróðu upp með söng og hljóðfæraleik og afmælisgestir tóku undir í fjöldasöng. Meðfylgjandi eru fáeinar myndir frá kvöldinu. Veislustjóri var Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur. Rúnar Þórisson og Pamela De Senzi léku nokkur lög á gítar og flautu, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fluttu ræðu, fjölskyldan gerði afmælisbarninu skil, Kristján Viggósson, kennari, flutti ræðu, Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, lék undir fjöldasöng og hópur ísfirskra karlmanna flutti ísfirskt fótboltalag eftir og undir stjórn Rúnars Þórs Péturssonar, en Rúnar lék jafnframt eigin lög á píanó. Haraldur Leifsson, framkvæmdastjóri, gaf mynd (í töluðu máli) af afmælisbarninu á unga aldri. Þá söng Lára Rúnarsdóttir og lék jafnframt á píanó, en Rúnar Þórisson lék með á gítar.

 

Þótt líði ár og hálf öld.........    (  ... þ.e. ... föstudaginn 28. desember 2007)

Ja..hérna. Nú líður að því. Föstudaginn 28. desember 2007 verður liðin hálf öld frá því ég kom í heiminn. Það var á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Var þar fyrstu dagana. Síðan skilst mér að nágrannarnir hafi þurft að aðstoða við uppeldið næstu daga svo öruggt yrði að ég kæmist á legg. Fyrir það er ég þeim ævinlega þakklátur.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt gerst. Fyrstu skrefin á Silfurgötunni, náttúran könnuð í Skóginum, bernslubrek og strákapör á eyrinni, skólagangan í barnaskólanum, gaggó og menntó, boltaleikir í Silfurgötunni, lúðrablástur hjá Ragga H., fótbolti á vellinum við hliðina á gaggó, stríðsleikir á reitununum, sláturhúsið á haustin, smokkfiskur og hákarl í dokkunni, skíðaferðir í Stóru-Urð og á Dalnum, fjallgöngur, fjöruferðir, jakahlaup, bátsferðir, sundferðir í stíflunni, strákar, stelpur, karlar og kerlingar á Ísafirði, ökuferðir á Eyrinni og á vegum í kring, háskólanám í Reykjavík, stúdentapólitík, hitti Lindu sem varð lífsförunautur, barnastand í Reykjavík og í Lundi í Svíþjóð, nám í Lundi, vinna fyrir útvarpið hér heima og í Lundi, Danmörku og Póllandi, vinna í Seðlabankanum, búseta í Leirubakka og Fljótaseli, puð fyrir knattspyrnudeild ÍR, í stjórn, fótboltadómari, kratinn kom úr skápnum um líkt leiti og Alþýðuflokkurinn var lagður niður, stofnaði Samfylkinguna með öðrum, nefndastörf í Reykjavík, varaborgarfulltrúastúss, hverfastúss í Breiðholti, kennsla í Háskólanum og frekara nám .....

Hvenær býður maður vinum, vandamönnum og samferðamönnum í veislu ef ekki þegar hálfrar aldar áfanga er náð? Ég hef svo sem ekki verið að halda stór afmæli til þessa, en ákvað að tryggja mér Norræna húsið á föstudagskvöldið til að bjóða þeim sem vilja koma og fagna með mér þessum tímamótum. Teitið hefst klukkan 19 og því lýkur á að giska kl. 22.

Vísur Íslendinga

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?
Eins og á vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist hugarkætin þá.
Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,
því táradöggvar falla stundum skjótt,
og vinir berast burt á tímans straumi,
og blómin fölna á einni hélunótt. -
Því er oss bezt að forðast raup og reiði
og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss,
en ef við sjáum sólskinsblett í heiði
að setjast allir þar og gleðja oss.

Látum því, vinir, vínið andann hressa
og vonarstundu köllum þennan dag,
og gesti vora biðjum guð að blessa
og bezt að snúa öllum þeirra hag.
Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.



       
Erl. lag / Jónas Hallgrímsson

Nýr meirihluti í Reykjavík    (11. október 2007)

Síðustu dagar hafa verið merkilegir í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur. Í fyrsta sinn í sögunni hefur meirihluti sprungið á miðju kjörtímabili. Borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa í raun grafið sína gröf með innbyrðis ágreiningi og ótrúlegri framkomu gagnvart borgarstjóra og fulltrúa Framsóknarflokksins. Vissulega virðist borgarstjóri hafa farið sínu fram lengi vel án þess að aðrir í flokknum hefðu það á tilfinningunni að þeir væru með. Einhver óánægja fór að myndast í kringum útrásarfyrirtæki Orkuveitunnar og þá mundu sumir Sjálfstæðismenn allt í einu eftir því að það stóð einhvers staðar í stefnunni að hið opinbera ætti ekki að reka fyrirtæki. Sú stefna hafði reyndar verið dauður bókstafur í mörg ár. Með því að koma í bakið á Vilhjálmi borgarstjóra og með því að stilla fulltrúa Framsóknarflokksins upp við vegg voru það í raun sexmenningarnir í Sjálfstæðisflokknum sem gerðu út um samstarfið. Þeir voru ekki á vetur setjandi eftir þetta.

Nú tekur við nýr meirihluti. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista, sem fram að þessu hafa verið í stjórnarandstöðu, taka nú upp samvinnu við fulltrúa Framsóknarflokksins. Landslagið er breytt. Hlutverkin og samstarfsaðilarnir breytast. Þetta er bara gangur lýðræðisins.

Viðbrögð Sjálfstæðismanna gagnvart fulltrúa Framsóknar eru dálítið sérstök. Það er skiljanlegt að það séu ekki allir kátir með gang mála, en að gefa í skyn að það hljóti að vera eitthvað meira sem hangir á spýtunni hjá Framsókn er óheiðarlegur og ljótur leikur. Sumir Sjálfstæðismenn léku þennan leik gegn Alfreð Þorsteinssyni um tíma. Ef menn hafa eitthvað eiga menn að koma með það. Ef ekki þá eiga menn ekki að vera að gefa svona í skyn. Það er óheiðarlegt og eykur ekki virðinguna fyrir stjórnmálum.

Átakalínurnar breytast. Meirihlutinn stýrir eðlilega ferðinni að jafnaði og minnihlutinn veitir aðhald og reynir jafnframt að koma sínum málum að. Andstæðir pólar stilla upp liði, ákveða taktík og leika af festu. Þegar Björn Ingi gengur til liðs við okkur tek ég í höndina á honum, biðst afsökunar á þessum fáu skriðtæklingum (þó var engin tveggja-fóta-sóla-tækling!) sem maður iðkaði gegn honum. Svo byggjum við upp nýja liðsheild. Þannig er þetta og ég hlakka til að vinna að málum fyrir borgarbúa í anda félagshyggju og með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Sjá hér frétt Stöðvar2 af fundi Samfylkingar í Reykjavík 13. október 2007.

 

Meirihluti framsóknarmanna og sjálfstæðismanna tekur upp tillögur Samfylkingar í frístundamálum    (23. september 2007)

Það var svolítið undarlegt að fylgjast með vinnulagi meirihlutans í íþrótta- og tómstundaráði í síðustu viku. Þá smellti formaður ráðsins á borðið tillögu sem var efnislega samhljóða tillögum sem við í Samfylkingunni höfum flutt og talað fyrir án þess að fá hljómgrunn. Þarna voru tvær tillögur okkar í Samfylkingunni komin saman í eina hjá formanninum - án þess að höfundar væri getið. Um er að ræða annars vegar tillögu um að foreldrar sem ekki þurfa vistun fyrir börnin sín nema hluta vikunnar verði það heimilt og að öðrum verði þá boðið að nýta það sem losnar. Hins vegar var um að ræða tillögu að aðeins yrði greitt fyrir þá daga sem nýttir væru. Við í Samfylkingunni höfðum flutt tillögur og talað fyrir þessu í heilt ár. Tillögunum hefur verið frestað og vísað til skoðunar. Það hefði því verið eðlilegt að þeirra yrði getið þegar formaður ÍTR kom með tillögu sem var efnislega samhljóða okkar. Því var þó ekki að heilsa, heldur hefur formaðurinn eftir þetta jafnvel í fjölmiðlum miklað sig á þessum tillögum sem hann lætur líta út fyrir að séu meirihlutans. Þetta er öllu hjákátlegra í ljósi þess að við í Samfylkingunni áttum stóran þátt í því að gerð var tilraun með hlutavistun í litlum mæli sl. vetur - en meirihlutinn ákvað að hætta þeirri tilraun í vor.

 

Úrvalslið ungra Íslendinga keppir við jafnaldra í öðrum löndum    (6. águst 2007)

Landslið Íslands í knattspyrnu, skipað piltum undir sautján ára aldri, atti kappi við jafnaldra sína frá öðrum Norðurlöndum, Englandi og Belgíu í síðustu viku á leikvöngum í bæjum og borgum á Suðaustur-Jótlandi (Fredericia, Kolding, Hedensted, Haderslev, Vejle, Ikast) og stóð sig ágætlega miðað við að þetta voru fyrstu leikir liðsins. Piltarnir töpuðu að vísu fyrstu tveimur leikjunum, þ.e. 0:2 gegn Egnlandi og 0:1 gegn Svíþjóð, en svo áttu þeir ágætan leik gegn Finnum og voru yfir þar til í lokin að Finnum tókst að jafna 3:3. Í síðasta leiknum léku þeir gegn Færeyingum og unnu þá með þremur mörkum gegn engu. Í liðinu voru leikmenn frá ÍR og Leikni úr Breiðholti, Fram, KR, Val, Víkingi, HK, Breiðabliki, Njarðvík, ÍA, Þór, KA, Selfossi, Þrótti Neskaupstað og AGF í Árósum. Þjálfari piltanna er Luka Kostic.


Landslið Íslands skipað piltum undir 17 ára ásamt þjálfara og aðstoðarfólki.


Danskt sumar á Jótlandi! 
  (31. júlí 2007)

Við hjónin ákváðum af sérstökum ástæðum að dvelja í vikutíma hér á  Suður-Jótlandi. Þessar sérstökur ástæður eru að yngsti sonur okkar er að leika með landsliði Íslands í knattspyrnu, skipað leikmönnum sem eru yngri en 17 ára. Við ákváðum að finna okkur þægilegt hótel, að þessu sinni utan bæja og borga, þar sem kyrrð og friður ríkti. Við fundum þetta hótel rétt utan við Vejle, á því sem kallað er Munkebjerg, hæð sem er um hundrað metra frá sjávarmáli (upp í loftið) og því næstum því eins hátt og Himmelbjerget, hæsti tindur Danmerkur. Hér eru golfáhugamenn í hrönnum og svo eru hér göngu- og hlaupastígar sem hægt er að hreyfa sig á. Landsliðið er á öðru hóteli í Vejle - og láta vel af sér. Þeir eru nú búnir að leika gegn Englandi og Svíþjóð. Jafnræði - en töpuðu báðum leikjum naumt. Við höfum farið til Fredericia og Kolding á bíl sem við leigðum - hitt nokkra foreldra drengjanna og skoðað okkur um.

Vejlefjörður - séð frá Munkebjerget!

Við höfum ekið talsvert um Danmörku, bæði þegar við bjuggum í Suður-Svíþjóð og síðar - og hefur fundist mjög þægilegt að aka hér um. Nú bregður hins vegar svo við að það setur að manni skrekk þegar maður fer út á þjóðvegina. Fyrsta daginn sem við vorum hér varð alvarlegt umferðarslys hér skammt frá, á brúnni sem er yfir Vejlefjörð - vegna þess að ekki hafði verið gengið nægilega vel frá festingum á þak grísaflutningabifreiðar. Síðan höfum við ekið fram á hvert slysið á fætur öðru, bæði á hraðbrautum og minni vegum og séð bæði fólk og bifreiðar illa leikið. Vonandi er þetta tilviljun - en undarlegt að horfa upp á þetta. Þetta hvetur mann til að aka varlega.

Veðrið - já - það hefur verið ágætt - íslenskt haustveður - rigning og 12-14 stiga hiti. Ekkert til að kvarta yfir - því stutt er í forvitnilegar borgir, s.s. Árósa og svo Flensborg handan þýsku landamæranna.

Danmörk svíkur mann aldrei - því það er alltaf eitthvað sem er dejligt við Danmörku og Dani.

Jóhanna sýnir skynsemi    (27. júlí 2007)

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni um áfengisverðið í sumarblíðunni. Um tíma datt mér í hug að hér væri eitt svokallað gúrkumál á ferðinni, þar sem lítið væri að gerast. Hið háa verð í samanburði við aðra nærliggjandi markaði er þó íhugunarefni út af fyrir sig. Á þessu eru margar hliðar sem snúa að markaðsmálum, heilbrigðismálum, ríkisfjármálum og félagsmálum. Eftirspurnar-verðteygni áfengis er eflaust minni en margra vara, þ.e. fólk notar áfengi í meira mæli eftir því sem það er ódýrara, en þó ekki í eins miklum mæli og ýmsar aðrar vörur, s.s. bensín. Því er ljóst að verðið hefur einhver áhrif, þótt ekki skipti það sköpum. Þorsteinn Pálsson ritstjóri hefur bent á hversu miklar tekjur ríkissjóður hefur af áfengissölunni til nota í menntamálum eða öðrum málum. Bent hefur verið á þær líkamlegu, sálrænu og félagslegu afleiðingar sem áfengisneyslu getur fylgt - og þann kostnað sem af því hlýst fyrir samfélagið.

Upplýst hefur verið að Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra lagði fyrr allnokkru fram frumvarp um að ýmis réttindi ungs fólks yrðu samræmd og því fengi fólk að kaupa áfengi við 18 ára aldur - um leið og það fengi flest öll réttindi fullorðins fólks. Hún vildi þó að gripið yrði til öflugra ráðstafana til að bæta forvarnir. Í nýlegu viðtali upplýsti hún að ekki hefði verið hljómgrunnur fyrir slíkar forvarnir og því hefði hún ekki viljað leggja þetta frumvarp fram aftur. Þarna sýnir Jóhanna að hún sér betur en margur hinar margbreytilegu hliðar tilverunnar og þær afleiðingar sem stjórnvaldsaðgerðir geta haft.

Það er svo spurning út af fyrir sig hvað frjálsræðispostular áfengismálanna eiga við þegar þeir tala fjálglega um forvarnir án þess að útskýra nánar hvað þeir eiga við né hvað þessar forvarnir munu kosta.

Sem sagt: Eitt prik fyrir Jóhönnu!

Sumarblær á vefsíðum    (21. júlí 2007)

Svo sem sjá má hefur orðið talsvert hlé á skrifum hér eftir að þingkosningum og stjórnarmyndun lauk. Tíminn hefur farið í hefðbundin sumarverk auk vinnunnar. Ég hef farið til Brussel með innkauparáði Reykjavikur, til Parísar með fjölskyldunni, til Ísafjarðar á fótboltamót þroskaðra karla og til Eyja að fylgja yngsta syninum og hans liði til sigurs. Þá er það garðvinnan, tiltektir í geymslum og íþróttamálin í hverfinu. Sem sagt: Eins og sumarið á að vera. Þannig verður það vonandi enn um sinn áður en sumri lýkur og við taka hefðbundin fjölskylduverk, skólaganga barnanna, hefðbundinn og óhefðbundinn vinnutími og pólitísk störf í nefndum og ráðum.

Hafið það sem best!

 

 

 Það sem var mörgum leikmönnum púkamótsins efst í huga:

 Dómari – hvað er mikið eftir?

 Það vantaði ekki fjörið í stóru púkana (krakkar á Ísafirði voru og eru sjálfsagt enn stundum kallaðir púkar) sem léku sér í fótbolta á gervigrasvellinum á Ísafirði um miðjan júlí. Það bogaði af mönnum svitinn í góða veðrinu og það var mikið hlegið af áhugasömum tilburðum leikmanna. Ekki var mikið um alvarleg meiðsli fyrir utan það að tveir leikmenn slitu hásinar. Það var líklega ekki mikið miðað við svona mót. Þegar nokkuð var liðið á hvern leik var þó algengasta spurningin sem að ofan greinir. Menn þurftu nefnilega að reikna út hversu mikið menn mættu leggja á sig það sem eftir lifði leiks. Sumir höfðu þó tekið of mikið á eins og leikmaðurinn sem hljóp móður til dómarans og spurði: „Er þetta fyrri eða síðari hálfleikur?“

Mótið gekk smurt og snurðulaust fyrir sig. Reyndar má segja að velflestir leikmenn hafi komið vel smurðir til leiks. Það fór sjálfsagt kíló af hitakremi á skrokkana fyrir leikina og alls kyns olíur sem voru smurðar á vöðva og liðamót. Þó var það hlýtt í veðri að það hélt á manni hita allt mótið. Mótið hófst eins og áætlun gerði ráð fyrir með setningu klukkan 15 á föstudeginum 13. júlí, m.a. með því að nokkrir ágætir einstaklingar voru heiðraðir af KSÍ. Þar var mættur formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, og afhenti hann gullmerki KSÍ þeim Birni Helgasyni, Guðmundi Ólafssyni, Hansínu Einarsdóttur, Jens Kristmannssyni, Jóhanni Torfasyni, Magnúsi Hanssyni og Pétri Sigurðssyni. Kristján Pálsson fékk afhent silfurmerki KSÍ.  

Síðan hófust leikar og fóru menn misjafnlega hratt í gang. Hinir ungu og óþolinmóðu fóru á fulla ferð, sýndu leikni sýna og eyddu kröftunum óspart, en hinir eldri og reyndari biðu átekta, settu í varnargírinn og biðu rólegir færis. Sú taktík átti eftir að skila árangri þegar upp var staðið.

Hemlunarvegalengd eykst með aldrinum

Annars bar fátt til stórra tíðinda fyrri daginn. Menn voru svona að finna taktinn og athuga hvað þeir gætu; athuga hvernig teipið um ökklann eða hnéð virkaði og kanna hvernig liðsheildin væri. Kjúklingarnir (þeir sem voru nær þrítugu) fóru hins vegar á fullt strax og voru eins og þeytivindur út um allan völl. Svo fóru menn reyndar aðeins að gefa í, en þá upphófust árekstrar, eins og þegar félagi minn einn náði ekki beygjunni fram hjá öðrum félaga mínum og gat ekki bremsað heldur skall aftan á honum með nokkrum smelli. Þegar slíkt og þvílíkt gerðist þurftu dómarar leiksins, Jens Kristmannsson og Haraldur Leifsson, stundum að grípa til flautunnar, til að stöðva leik og gefa mönnum færi á að ná áttum, andanum og sáttum.

Flestir léku bara tvo leiki fyrri daginn, nema e.t.v. þeir sem voru keyptir á milli liða og látnir spila meira, öðrum til stuðnings. Eyrarpúkar voru með forystuna eftir fyrri daginn með tvo sigra. Það sagði þó ekki alla söguna, því í öðrum liðum, sem þeir höfðu ekki spilað við voru gamlir refir og landsliðsmenn fyrrverandi og núverandi, svo sem eins og Ómar Torfason, Jón Oddsson, Magni Blöndal, Björn Helgason, Guðmundur Ólafsson og Jóhann Torfason, sem greinilega kunnu margt fyrri sér, en eftirtekt vakti hversu ferskur og léttur á sér Jóhann, einn af aðalforsprökkum mótsins, var. Þá voru þarna margir með ótal meistaraflokksleiki að baki sem bjuggu því að mikilli reynslu.

Saltfiskur í sumarbústaðnum

Að leikjum loknum fyrri daginn var síðan haldið í sumarbústað inni í Skógi til Jóa Torfa og hans ektakvinnu, en þar var boðið upp á saltfisk og fleira góðgæti. Þar var líka tekið lagið, bæði undir stjórn Rúnars Þórs Péturssonar, sem hafði samið sérstakt lag fyrir keppnina sem nokkrir fótboltakappar sungu með honum, og Björns Helgasonar, sem stjórnaði norrænum fótboltasöngvum með alhliða hreyfingum, svo allir urðu hressir, kátir og liðugir. Þá fluttu ávörp m.a. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Halldór Einarsson, Henson, framleiðandi íþróttabúninga, en hann hafði framleitt bæði Harðar- og Vestrabúninga fyrir þetta mót (Hörður og Vestri eru íþróttafélög sem voru í miklum blóma á síðustu öld - og eru enn í vissum greinum - og var keppnin oft hörð á milli þessara félaga.)

Laugardagur í lágum gír

Eftir að hafa verði smurðir, vafðir, teygðir og hitaðir um hádegið á laugardegi hófust leikar púkanna að nýju. Þá kom í ljós að Dokkuliðið (appelsínugulir) sóttu allhressilega í sig veðrið og vann sína leiki stórt, enda höfðu þeir krækt sér í atvinnumann á besta aldri frá Danmörku. Í þessu liði voru Jón Oddsson, Páll Ólafsson úr Hnífsdal og sonur hans sem spilar með liði í Danmörku, Sigurður Sigurðsson blómasali, Haraldur Leifsson, Kristján Guðmundsson, Guðjón Sturluson, Jónas Karl Þórhallsson og fleiri. En svo þurftu Páll og sonur hans að bregða sér í afmæli eða brúðkaup – og þá vænkaðist staða annarra.

 Rauðliðarnir unnu.....

Svo fór að Eyrarliðið, lið undirritaðs, bar sigur úr býtum. Það lék í rauðum búningi sem var á vissan hátt táknrænt, því í vörninni lék sjálfur bæjarstjórinn í Bolungarvík, Grímur Atlason, ásamt Sigurði Péturssyni, Samfylkingarforingja og bæjarfulltrúa á Ísafirði. Á miðjunni var svo undirritaður, Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingar í Reykjavík. Í markinu var Gunnar Bjarni Ólafsson, sem var svo óheppinn að slíta hásin, í annað sinn, en hann sleit hina hásinina á fyrsta mótinu árið 2005. Læknir á að hafa sagt við hann að sinarnar yrðu miklu sterkari á eftir þegar þær yrðu orðnar grónar, þannig að við væntum endurkomu Gunnars sem fyrst, en hann skildi eftir góða kópíu af sjálfum sér í markinu, þ.e. son sinn. (Guðmundur - Muggur, frændi minn -  Kristjánsson sleit einnig hásin.) Guðjón Andersen var með okkur bæði í vörn og sókn og tókst að skora þegar öðrum tókst það ekki. Þá var Gísli Jón Hjaltason á miðjunni og Halldór Antonson frammi. Allt góðir félagar. Fleiri bættust við þegar á leið.

Skipulagið – og „sprengipillurnar“ gerðu útslagið

Þótt þessir menn séu ágætir held ég að flestir séu nú sammála um að þetta hafi ekki verið bestu knattspyrnumennirnir ef samanlögð einstaklingsgeta er höfð til viðmiðunar. Áður hefur verið minnst á landsliðsmenn og mikla kappa í öðrum liðum. Það sem gerði útslagið var hins vegar gott, samfylkt og miðstýrt skipulag í vörninni í bland við dálítið sjálfstæði og frjálsræði í sókninni, sem liðsstjórinn, Rúnar Guðmundsson, lagði upp með og hvatti okkur til að fylgja. Við fylgdum því mottói að byrja á vörninni og pökkuðum í vörn til að byrja með og þreyttum hina með því að leyfa þeim að sækja. Þegar vörnin er þétt, og sóknarmenn andstæðinganna eiga margir erfitt með að beygja og bremsa, skilar þessi taktík ágætum árangri. Reyndar fengum við dálítið samviskubit í einum leiknum gegn liði sem Björn Helgason var liðsstjóri í, því við heyrðum hann kalla inn á völlinn að hann hefði aldrei á sinni ævi séð þvílíkan varnarleik. Þá færðum við okkur aðeins framar – eða svona um tvo metra! Við vorum nú líka að leika sömu taktík og hinir ítölsku heimsmeistarar. Þessi blanda af miðstýrðri vörn og frjálsri sókn skilaði líka árangri – og í úrslitaleik á milli Eyrarpúka og Dokkupúka skoraði Gísli Jón eina markið og það sem réði úrslitum. Eitthvað vildu nú andstæðingarnir meina að haft hefði verið rangt við því Gísli hefði tekið einhverja pillu fyrir leikinn. Sjálfsagt hefur þessi „sprengipilla“ gefið Gísla þann kraft sem dugði í lokin, en pillan var þó sárasaklaus og ólyfseðilsskyldur þrúgusykur sem einn Eyrarpúkanna hafði með sér ásamt hitakremum, teipi og olíu af ýmsu tagi.  

Að leik loknum

Okkur var ókunnugt um þann harmleik sem hafði átt sér stað á Kaldbak milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar skömmu áður en mótið hófst að nýju eftir hádegi á laugardegi, þegar Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður Vestfirðinga varð bráðkvaddur á fjallgöngu. Síðdegis og um kvöldið barst þessi harmafregn þó hratt út.

Við komum saman til hátíðarkvöldverðar í Stjórnsýsluhúsinu á laugardagskvöldinu. Þar var borið fram hlaðborð af bestu gerð undir stjórn Margrétar Ólafsdóttur og systra hennar. Rúnar Þór Pétursson lék dinnermúsík af sinni alkunnu snilld. Veislustjóri var Sigurður Pétursson. Verðlaun voru veitt sigurliðinu og Eiríkur Böðvarsson fékk sérstök verðlaun sem leikmaður mótsins. Sérsaumaðar, sameiginlegar treyjur Harðar og Vestra voru boðnar upp, söngvar sungnir og svo voru flutt ávörp og sagðar sögur. Björn Helgason stjórnaði fjöldasöngnum. Halldór Einarsson tók til máls, sem og Jens Kristmannsson og Pétur Sigurðsson, sem sagði sögu af skilningsríkum lögregluþjóni þegar fimmti flokkur Vestra var á keppnisferðalagi í Reykjavík, en sagan er látin flakka með hér í lokin.

 Flytja þurfti fimmta flokk með hraði...

Til að gera langa sögu stutta þá þurfti að koma 10 strákum úr fimmta flokki með hraði vestan af KR-velli upp í Ármannsheimili, því síðan þurftu piltarnir að ná flugi til Ísafjarðar. Til staðar var Pétur Sigurðsson, þáverandi formaður Vestra, á Volkswagen bifreið, ósköp venjulegri. Þetta hefur sjálfsagt verið í kringum 1968, eða rétt eftir að hægri umferð var tekin upp. Ekki var um annað að gera en að pakka vel í bílinn. Einhverjir litlir fóru í farangursboxið sem var aftur í þessari gerð af Volkswagen. Þá var þétt raðað í sætin og svo lágu tveir á gólfinu að aftan. Ferðin gekk vel sem leið lá upp Hringbraut og Miklubraut, en þegar beygja átti inn í Lönguhlíð fataðist bílstjóranum eitthvað, því aðvífandi kom lögreglubíll og stöðvaði för Vestraforingjans og upprennandi fótboltastjarna sem voru í bílnum með honum. Lögreglumaður vindur sér upp að bílnum farþegamegin og segir við bílstjórann að hann hafi ekki farið alveg rétt inn í Lönguhlíðina. „Nei,“ sagði bílstjórinn, „ég er nú fremur ókunnugur hér í borginni. Ég er utan af landi.“

Þá lítur lögregluþjónninn á farþegana í aftursætinu og segir: „Eru þeir ekki nokkuð margir?“

„Jú,“ segir Pétur, „en þeir eru frekar smáir.“

Þá gengur lögregluþjónninn fram fyrir bílinn, kemur að bílstjórahurðinni, bendir bílstjóranum að skrúfa niður rúðuna og síðan segir lögregluþjónninn lágum rómi:

„Heldur þú að þú verðir nokkuð lengi í bænum?“

  

Eftir veisluna í Stjórnsýsluhúsinu var komið stuttlega við í Edinborgarhúsinu þar sem búið er að innrétta flottan veitingastað. Síðan var haldið í Krúsina þar sem Rúnar Þór Pétursson og félagarnir Örn Guðmundsson og Rúnar Vilbergsson léku fyrir dansi.

 Undirritaður getur mælt með þátttöku í þessu skemmtilega móti. Þetta eru nú engin átök – og aðalundirbúningur fólst í því að koma vel hvíldur og heill á fótum til að geta verið með! Svo var farið hægt af stað og hver leikur tekinn í rólegheitum. Þannig ætti að vera óhætt fyrir flesta menn á mínum aldri að fara í þetta.

Áfram Hörður – Áfram Vestri – Áfram Ísafjörður...

 

Hamingjustund Samfylkingar í kvöld    (22. maí 2007)

Það var eftirvænting, tilhlökkun og ef til vill dálítill kvíði sem lá í loftinu á Hótel Sögu áður en flokksstjórn Samfylkingar tók til afgreiðslu stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og afgreiddi ráðherralistann. Það var vel fylgst með yfirferðinni yfir stjórnarsáttmálann og ég verð að segja að hann féll mjög vel í kramið hjá fundarmönnum. Eins voru fundarmenn mjög ánægðir með ráðherralistann og ekki hvað síst að jafnræði væri þar með kynjunum. Þetta var sem sagt stór stund í sögu Samfylkingarinnar. Þetta verður stjórn sátta og samlyndis, jafnaðar, framfara, umhverfisverndar, stöðugleika og tiltektar að ýmsu leyti.

 

Hvernig stjórn fáum við svo úr þessu?    (16. maí 2007)

Það eru eflaust spennandi viðræður í gangi um stjórnarmyndun út um allan bæ. Ætli það séu ekki nokkrir tugir smánefnda sjálfsskipaðra spekinga samankomnar hér og þar til að ræða um hina ýmsu möguleika. Ég hef frétt af nokkrum forvitnilegum. Aðalmálið nú er að sjá hvort Framsóknarflokkurinn treysti sér í áframhaldandi stjórnarsamstarf og síðan hvort Sjálfstæðisflokkurinn vilji hafa Framsókn með. Ég hitti klókan karl úti á götu áðan sem sagði að það yrði ómögulegt að búa við svo lítinn meirihluta, því þá gæti hver einasti þingmaður verið með belging við afgreiðslu mála. Svo naumur meirihluti væri vart starfhæfur. Reynist hann sannspár verður ekkert úr áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Þá er það spurningin: Leggja Sjálfstæðismenn og Vinstri græn út í samstarf í ljósi þess að mjög langt er á milli þeirra í mörgum málum, eða verður lendingin sú að tveir stærstu flokkarnir fara saman í velferðarstjórn? Ja - svo er spurning hvort einhver vilji munstra Frjálslynda inn í þetta fyrst vinstri stjórn virðist úr sögunni í augnablikinu. En eftir því sem stjórnarmyndun dregst á langinn - því fleiri möguleikum verður sjálfsagt velt upp - og það oftar en einu sinni.

Borgarstjórnarfundur um reikninga, lóðir og vinnubrögð borgarstjóra -   (15. maí 2007)

Á borgarstjórnarfundi í dag var farið yfir ársreikninga borgarinnar fyrir árið 2006. Þar kom m.a. fram að vegna endurreiknings á áætluðum lífeyrisskuldbindingum, gengisbreytinga og verðbólgu hafði rekstrarniðurstaða verið nokkru verri en áætlað hafði verið í síðustu fjárhagsáætlun Reykjavíkurlistans. Fjallað verður frekar um ársreikninginn á næsta fundi borgarstjórnar. Þá var talsvert fjallað um lóðamál og þá stöðu að Sjálfstæðisflokkurinn er nú að bjóða lóðir á verði sem hann kallaði rán áður en hann komst til valda.

Þá var á fundinum fjallað um svokallað Eirarmál og þær vendingar sem meirihlutinn hefur tekið í því máli. Það er auðvitað þjóðþrifamál að byggja upp fyrir aldraða, en það þarf að fara að settum leikreglum. Fram hefur komið að meirihlutinn hefur loksins sannfærst um að það var rétt sem minnihlutinn, og þá einkum fulltrúar Samfylkingar, hafa haldið fram um nauðsyn á því að bjóða út byggingu svokallaðrar menningarmiðstöðvar. Fyrst, þ.e. sl. haust, setti meirihlutinn í viljayfirlýsingu að hjúkrunarheimilið Eir ætti bara að fá að byggja menningarmiðstöð - og lét á sér skilja að ekkert útboð þyrfti að koma til. Eftir nokkrar umræður viðurkenndu fulltrúar meirihlutans að þetta hefðu verið mistök og breyttu svo á dögunum samkomulagi við Eir í samræmi við það.

Ég skrifaði grein um fáein atriði þessu tengd í Morgunblaðið fyrir um mánuði. Þar benti ég m.a. á að borgarstjóri hefði farið fram úr sínum valdheimildum með því að lýsa því yfir á fulltrúaráðsfundi hjá Eir að Eir þyrfti ekki að greiða teiknivinnu sem búið var að setja í gang, heldur myndi borgin greiða reikninginn. Borgarstjóri hefur ekki hirt um að svara þessari grein og ekki heldur um að svara ítrekaðri beiðni minni um aðgang að fundargerðum stjórnar Eirar, en ég er fulltrúi borgarinnar í fulltrúaráði Eirar. Ég hef ekki einu sinni fengið að sjá þann hluta fundargerða sem fjalla um framkvæmdir á vegum félagsins.

Á borgarstjórnarfundinum í dag fór ég yfir málið og ítrekaði spurningar mínar. Í fyrstu hunsaði borgarstjóri fyrirspurnir mínar og það var ekki fyrr en ég endurtók þær í síðari ræðu að hann sá að ekki varð undan vikist. Og hvernig skyldi hann hafa brugðist við. Jú - loksins þegar hann fékkst til að svara mér, eftir greinaskrif, bréfaskrif og ítrekaðar fyrirspurnir í fundarsal borgarstjórnar - þá hélt hann fram algjörri firru um það sem hann og formaður velferðarráðs héldu fram á fundi fulltrúaráðs Eirar fyrir nokkur. Hann sagðist aldrei hafa sagst ætla að vísa reikningum Eirar á borgarsjóð. Þetta fannst mér ótrúlegt. Ég skrifaði ummælin sem hann og formaður velferðarráðs viðhöfðu á fulltrúaráðsfundi Eirar á blað á fundinum, en sá fundur var nokkuð fjölmennur. Þar sögðu borgarstjóri og formaður velferðarráðs að reikningum fyrir teiknivinnu yrði vísað á borgarsjóð - fulltrúaráðið hjá Eir þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að það yrði látið borga þetta. Hafa verður hugfast að á þessum tíma var engin samþykkt fyrir því í borgarkerfinu að fara í þessa vinnu. Ég man að eftir umræddan fund fulltrúaráðs sagði einn af fulltrúum á fundinum við mig að þetta gæti nú orðið stór reikningur sem vísað yrði á borgarsjóð.

Ég hafði getað búist við ýmsu eftir vinnubrögð borgarstjórans í þessu máli þar sem hann hefur reynt að þurrka orðið útboð út úr þessari umræðu og síðan þegja um vissa þætti þess sem mest hann mátti. En að hann skyldi síðan, loksins þegar hann lét svo lítið að tjá sig um málið, koma í pontu með ósannindi af þessu tagi hafði ég ekki búist við. En ég sagði á fundinum að ég skyldi reyna að virða það honum til betri vegar að hann myndi þetta ekki alveg. Í það minnsta reyndi Jórunn Frímannsdóttir, formaður borgarráðs, ekki að kasta álíka skítabombum og borgarstjórinn - og vildi meina að um einhvern misskilning væri að ræða. En hún staðfesti í leiðinni það sem ég var að segja - vinna var sett í gang sem borgarsjóði var ætlað að borga án þess að heimild hefði verið gefin fyrir því.


Kosningavinnan í fullum gangi -
  (6. maí 2007)

Kosningavinnan er nú í fullum gangi hjá Samfylkingunni. Við hér í Breiðholtinu höfum verið að dreifa kynningarefni í hús og í verslunarmiðstöðvum og höfum jafnframt gengið í hús með rósir handa kjósendum. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi. Fólk hefur tekið okkur vel. Í gær gengum við m.a. niður Laugaveginn - og þar tók ég þessa skemmtilegu mynd af Össuri Skarphéðinssyni. Svo skemmtilega vill til að hann stendur undir nafni Steinunnar og minnir þannig á að hún er í baráttusæti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samfylkingin á gönguferð  (21. apríl 2007)

Samfylkingarfólk gekk um Breiðholtið í dag, nánar tiltekið hringinn í kringum Hólana, á göngustígum sem liggja utan í hæðinni. Þetta var frábær ganga með upphaf og endi við Breiðholtslaugina. Sjá hér myndir úr göngunni.


Hluti hópsins í einum af trjálundunum við göngustíginn.

Sumir kunna þá list að teygja almennilega að göngu lokinni.
Aðrir fylgjast með og velta því fyrir sér hvernig fara á að!

Borgarstjórinn og valdið  (3. apríl 2007)

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, beitir valdi sínu og áhrifum með eftirtektarverðum hætti. Nokkur dæmi mætti nefna en hér verður fjallað um svokallað Eirarmál. Þar verður ekki annað séð en að borgarstjórinn hafi farið fram úr þeim heimildum sem borgarráð hefur veitt, auk þess sem hann hefur farið mjög frjálslega með samþykktir fyrir hjúkrunarheimilið Eir þar sem hann er stjórnarformaður. Í hnotskurn eru nokkur atriði sem gagnrýna má borgarstjórann fyrir:

  • Borgarstjóri ákveður að vísa reikningum vegna starfsemi hjúkrunarheimilisins Eirar á borgarsjóð án þess að heimild hafi verið fyrir því.
  • Borgarstjóri hefur aflað sér lögfræðiálits til þess að halda fundargerðum stjórnar Eirar frá fulltrúa í fulltrúaráði Eirar (sem vildi bara sjá það sem varðaði byggingaframkvæmdir)
  • Eftir langa mæðu virðist borgarstjóri sjá að viljayfirlýsing borgar og Eirar voru mistök
  • Eftir margar ábendingar minnihlutans og mörg lögfræðiálit opnar borgarstjóri á möguleikann á að bjóða byggingu svokallaðrar menningarmiðstöðvar út.

Eirarmálið snýst m.a. um leikreglur

Borgarstjóri hafði, eftir því sem best verður séð, frumkvæði að því að láta hjúkrunarheimilið Eir sjá um byggingu og rekstur svokallaðrar menningarmiðstöðvar án þess að borgarráð eða borgarstjórn hefði samþykkt slíkt. Ákvæði um menningarmiðstöðina var bætt inn í svokallaða viljayfirlýsingu milli borgar og Eirar eftir að málið hafði verið kynnt borgarráði. Borgarstjóri ætlaði að ganga frá öllum þáttum málsins sjálfur, þótt hann væri einnig stjórnarformaður Eirar, en eftir að minnihlutinn í borgarstjórn benti honum á að hann væri vanhæfur ritaði formaður borgarráðs undir viljayfirlýsinguna. Stuttu síðar lýsti formaður borgarráðs því yfir að viljayfirlýsingin væri mistök vegna ákvæðisins um menningarmiðstöðina. Á nýlegum fulltrúaráðsfundi Eirar tók borgarstjóri einnig undir þau sjónarmið að sá gjörningur hafi getað verið mistök. Hann getur nú þakkað m.a. Samfylkingunni fyrir að hann skyldi ekki hafa ritað undir viljayfirlýsinguna sjálfur. Þá hefði staða hans verið heldur sérkennilegri.

Eir vísar reikningum á borgarsjóð?

Í öðru lagi hefur verið lagt út í kostnað við gerð viðamikilla teikninga vegna menningarmiðstöðvarinnar svokölluðu án þess að kunnugt sé um nokkra samþykkt um að hefja undirbúning á þessum framkvæmdum. Á fundi fulltrúaráðs Eirar um miðjan mars, þar sem undirritaður á sæti, sögðu borgarstjóri og Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, að Eir þyrfti ekki að bera neinn kostnað af teiknivinnunni. Það myndi borgin gera. Hvaðan kom þeim heimild til slíkra yfirlýsinga? Það höfðu engar ákvarðanir verið teknar og engir samningar gerðir. Fram kom í máli forstjóra Eirar á fulltrúaráðsfundinum um daginn að beinast hefði legið við að fela arkitekt Eirar að hefja teiknivinnuna. Það hefur hins vegar ekki fengist upp gefið hver fól arkitektinum að hefja vinnuna. Borgarstjóri hefur meira að segja gengið svo langt að afla sér lögfræðiálits um það að undirritaður megi ekki sjá hvort og þá hvað stjórn Eirar kann að hafa fjallað um eða samþykkt um þennan gjörning.

Hjúkrunarheimili í fasteignaviðskiptum?

Í þriðja lagi virðist stjórn Eirar, eða forysta Eirar, vera að fara langt út fyrir verksvið sitt eins og því er lýst í stofnsamþykkt. Þar segir að hlutverk Eirar sé að reisa og reka hjúkrunarheimili er veitir öldruðum umönnun og hjúkrun. Hlutverkið er ekki annað. Vilhjálmur er hins vegar að draga Eir út í ýmsa óskylda starfsemi, svo sem byggingaframkvæmdir og rekstur á svokallaðri menningarmiðstöð, svokallaðri segi ég, því þetta á samkvæmt lýsingum og teikningum frekar að vera almennt skrifstofuhúsnæði en menningarmiðstöð.

Vilhjálmur neyddur til að bjóða verkið út?

Framan af vildi Vilhjálmur borgarstjóri ekki heyra á það minnst að bjóða ætti þessa byggingu svokallaðrar menningarmiðstöðvar út. Eir átti bara að sjá um þetta! Markvisst var reynt að þurrka orðið útboð út úr þessari umræðu. Allt þar til á fulltrúaráðsfundinum hjá Eir í marsmánuði. Þar loksins virtist borgarstjóri sjá ljósið og viðurkenndi að það þyrfti e.t.v. að bjóða þetta verk út. Það hefur þurft mörg lögfræðiálit til þess að hann breytti áherslum sínum í því atriði. En batnandi mönnum er best að lifa.

Það þarf að efla þjónustu fyrir aldraða og það þarf að efla aðstöðu fyrir menningarstarfsemi í Grafarvogi. Um það eru allir sammála. Meirihlutinn í borgarstjórn virðist þó ætla að keyra þetta mál áfram án tillit til þeirra leikreglna sem gilda, auk þess sem þessi starfsemi þjónar ekki nema að litlu leyti markmiðum um hjúkrun eða menningu. Vald er vandmeðfarið, einkum og sérstaklega þegar menn tylla sér sama daginn niður á nokkra valdastóla, eins og sést í þessu dæmi.

 

Hressandi Samfylkingarganga í dag (31. mars 2007)

Góður hópur Samfylkingarfólks fór í göngu um Elliðaárdalinn í dag undir forystu Marðar Árnasonar og Dags B. Eggertssonar. Þetta var hressandi, klukkustundarlöng ganga um hólmana og meðfram ánum. Í leiðinni fræddumst við um sögu, jarðfræði og skipulagsáform, fyrr og nú. Mörður fræddi okkur m.a. um drekkingarhyl sem þarna er og um hugvitslegar veiðar á laxi til forna. Með í för voru tveir hundar, að sjálfsögðu í bandi. Allir höfðu hina bestu skemmtan af þessari ferð.


 

 

Þjónustumiðstöðvarnar vinna gott verk(28. mars 2007)

Þjónustumiðstöðvarnar í borginni vinna gott verk. Í dag funduðum við í velferðarráði í Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða við Skúlagötu. Fyrir utan þjónustu á velferðarsviði, menntasviði og íþróttasviði hefur þessi þjónustumiðstöð sérhæft sig í fjölmenningu. Innflytjendur í borginni eru hvað flestir í miðborg og í Fellum. Þar auðga þeir umhverfið og þeim þarf að sinna sem vera ber, hvort sem er í skólakerfinu, íþróttum eða  í atvinnulífinu. Þannig er það bara. Og þjónustumiðstöðin við Skúlagötu hefur augað sérstaklega á þessum þáttum með aðstoð sérhæfðra starfsmanna. Í öðrum hverfum beina menn sjónum að öðrum þáttum. Þannig verður starfsemin á þjónustumiðstöðvunum mjög fjölbreytt. Á sama tíma ætlar meirihlutinn í borginni hins vegar að færa þetta allt undir Velferðarsvið aftur. Það gæti orðið nokkur afturför. Um það verður tekist á fundi borgarstjórnar á morgun.

 

 

Ætlar Gísli Marteinn að dreifa eitri í Vatnsendahæðina og drepa kannski lóuungana í vor?(28. mars 2007)

Mig rak í rogastans er ég fletti Blaðinu áðan. Þar segir að Gísli Marteinn, formaður umhverfisráðs borgarinnar, vilji dreifa eitri í Vatnsendahæðinni í þeim tilgangi að fækka sílamávi. Náttúrufræðistofnun og einn helsti fuglafræðingur landsins, Guðmundur A. Guðmundsson, eru ekki sátt við þetta. Skiljanlega. Ég hef gengið um Vatnsendahæðina talsvert síðustu þrjú árin. Þarna er lóa og ýmsir aðrir fuglar. Vissulega hef ég séð nokkra máva, en aðeins einn mávsunga, sem var bara skemmtileg sjón.  En þessir menn hljóta að vera létt geggjaðir að ætla sér að dreifa eitri í brauðmolum á þessu svæði. Fjölskylduhundar gætu hæglega étið yfir sig af þessu brauði, fyrir nú utan ýmsa aðra fugla sem sjálfsagt fúlsa ekki við brauðinu. Ég þori ekki að hugsa til barnanna sem oft eru þarna að leik.

 

Mér sýnist nú að framkvæmdir og ný byggð í kringum Vatnsendahæðina sé nóg aðför að fuglalífinu á þessu svæði. Það þarf meira en lítið villtan „athafnastjórnmálamann“ til þess að láta sér detta í hug að dreifa eitri á þessu svæði. Eru menn ekki með öllum mjalla?

 

Ályktun um styttu af Guðmundi Jaka vekur viðbrögð (20. mars 2007)

Ályktun Hverfafélags Samfylkingarinnar um að gerð verði stytta af Breiðholtsfrömuðinum, verkalýðsforingjanum, þingmanninum og borgarfulltrúanum Guðmundi J. Guðmundssyni hefur varkið nokkur viðbrögð í netheimum og fjölmiðlum. Margir taka þessari hugmynd vel, enda ávann Jakinn sér virðingu þjóðar þótt vitaskuld hafi sumt verið umdeilt eins og oft er um menn sem gustar að. Á það hefur verið bent Guðmundur var fyrirmynd að listaverki í Hallgrímskirkju og að við höfnina standi mikill krani sem beri hans nafn; Jakinn. Þá vilja sumir að styttu af kempunni verði komið fyrir við höfnina. Hverfafélagið í Breiðholti heldur hins vegar fast við það að styttu verði komið fyrir á góðum stað í Breiðholtinu, enda þurfi að koma þar fyrir listaverkum og ekki úr vegi að þau hafi svo skýra sögulega tilvísun. Einhverjum finnst að kominn sé tími á fleiri styttur fyrir konur, og víst er það rétt að slíkar mættu vera fleiri. En þessi hugmynd má ekki líða fyrir það og er vert að nefna að helsti hvatamaður þessarar hugmyndar er kona.

 

Gerð verði stytta af Guðmundi Jaka í Breiðholti (20. mars 2007)

Á fundi Samfylkingarfélagsins í Breiðholti í Reykjavík í gær kynnti Ágúst ÓlafurFréttamynd 423956 Ágústsson, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar, stöðu mála að afloknum fundum löggjafarþings að þessu sinni, auk þess sem málefni hverfisins og borgarinnar voru rædd, og þá einkum velferðarmál og samgöngumál. Á fundinum var borin upp ályktunartillaga um að hvatt yrði til þess að gerð yrði stytta af Guðmundi J. Guðmundssyni, verkalýðsforingja, og henni komið fyrir á góðum stað í Breiðholti. Guðmundur Jaki, eins og hann var oftast kallaður, var einn þeirra

Ætli Össur sé að gefa Gvendi í nefið - mynd sem er á mbl.is - sjá umfjöllun þar.

 manna sem hafði mest áhrif á þær miklu umbætur í húsnæðismálum borgarbúa sem fólust i uppbyggingu Breiðholtsins á sínum tíma, hann var einn af fyrstu íbúum í hinu nýja hverfi og bjó þar lengi. Guðmundur var bæði þingmaður og borgarfulltrúi um tíma.

 

            Ályktunin sem samþykkt var er svohljóðandi:

 

„Fundur Samfylkingarinnar í Breiðholti hvetur borgaryfirvöld og verkalýðshreyfingu til þess að koma fyrir styttu af verkalýðsleiðtoganum Guðmundi J. Guðmundssyni á góðum og áberandi stað í Breiðholtinu. Guðmundur átti stóran þátt í uppbyggingu Breiðholtsins og bættri húsnæðisaðstöðu fyrir fjölmarga borgarbúa, og væri því réttmætur sómi sýndur með framtaki af þessu tagi.“

 

 

Forysta Eirar tekur ákvarðanir um útgjöld borgarinnar (15. mars 2007)
Eirarmálið snýst ekki um hvað á að gera heldur hvernig, þ.e. um það að farið sé að leikreglum. Það snýst um það að á fundum félaga úti í bæ eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að taka ákvarðanir um verk fyrir tiltekin félög og jafnframt að reikningum fyrir verkin verði vísað á borgarsjóð. Það snýst það að stjórn hjúkrunarheimilis fer langt út fyrir þær valdheimildir sem stofnskrá heimilisins leyfir og það snýst um tilraunir til að komast hjá útboðum með stórar framkvæmdir. Þetta snýst líka um það að borgaryfirvöld, með borgarstjóra í broddi fylkingar hafa reynt að koma sér hjá því að svara ýmsum spurningum, þrátt fyrir kjörorð Vilhjálms Þ. þegar hann var í prófkjöri: „Spurðu Vilhjálm!“

Enginn hefur samþykkt að fara í verkið - samt verður reikningurinn sendur á borgarsjóð
Á fundi fulltrúaráðs hjúkrunarheimilisins Eirar í morgun kom fram að forysta Eirar hafði ákveðið (ekki fékkst svar við því hvort það hefði verið stjórnin, framkvæmdastjórinn eða formaður stjórnar) að fá arkitekt heimilisins til að hefja viðamikla undirbúningsvinnu vegna væntanlegrar byggingar íbúða og menningarmiðstöðvar í Spöng. Jafnframt ákvað forysta Eirar, svo einkennilega sem það hljómar, að Reykjavíkurborg skyldi borga kostnaðinn sem af þessu hlýst. Hvernig má þetta vera? Það hafa engir samningar verið gerðir á milli borgarinnar og Eirar um þessar framkvæmdir. Það eina sem fyrir liggur er meingölluð viljayfirlýsing, sem formaður borgarráðs kallaði mistök fyrir áramót, og borgarstjóri ásamt formanni velferðarráðs viðurkenndu á fundi fulltrúaráðs í morgun að væru mistök. Það verður ekki séð að það liggi fyrir nein heimild til útgjalda af þessu tagi. Hin meingallaða viljayfirlýsing getur ekki heimilað það. Eftir sem áður tilkynnti formaður stjórnar Eirar, sem í þessu tilviki er reyndar borgarstjóri líka, að borgin myndi borga reikninginn. Sjálfsagt hefur honum þótt annað erfitt á fulltrúaráðsfundinum í morgun, þar sem voru fulltrúar ýmissa samtaka og sveitarfélaga, sem hefðu sjálfsagt verið ósáttir við að Eir yrði látin borga reikninginn,  - hugsanlega þar sem stjórnin hefur ekki samþykkt þennan gjörning. Það vakti svo eftirtekt að í ársreikningum fyrir Eir fyrir árið 2006 sem voru lagðir fram í morgun var sagt að gerðir hefðu verið samningar við Reykjavíkurborg um málið. Þar hefði hins vegar átt að standa viljayfirlýsing í stað samninga – og jafnvel meingölluð viljayfirlýsing.

Má Eir byggja og reka menningarmiðstöð?
Annar angi þessa máls er sá að forysta Eirar með Vilhjálm borgarstjóra í fararbroddi virðist ætla sér ansi víðtækt hlutverk. Ekki verður annað séð en að hún hafi farið talsvert út fyrir þær heimildir sem styðjast má við í stofnsamþykkt Eirar. Þar segir að markmið og hlutverk stofnunarinnar sé einungis að reisa og reka hjúkrunarheimili, er veitir öldruðum umönnun og hjúkrun. Í teikningum arkitektsins, samkvæmt kynningu á fundi fulltrúaráðsins í morgun, kemur hins vegar fram að gert er ráð fyrir aðstöðu lögreglu, bókasafns, íþrótta- og tómstundaráðs, kirkju, Miðgarðs og fleiri aðila sem ekki er hægt nema með miklu hugarflugi að tengja við umönnun og hjúkrun aldraðra eins og hún er skilgreind í lögum. Athyglisvert er að Eir hefur nýverið verið gerð afturreka með framkvæmdir á Álftanesi og spurning hvar þetta mál endar.

Útboð eða ekki útboð
Í allt haust hefur borgarstjórinn farið undan í flæmingi þegar bent hefur verið á að verk af því tagi sem bygging menningarmiðstöðvar er þyrfti að fara í útboð. Sérfræðingar borgarinnar hafa þó margoft bent á þetta. Ennþá virðist forysta Sjálfstæðisflokksins halda í þá von að hægt verði að semja beint við Eir um þessi mál ef marka má orð formanns velferðarráðs á fundinum í morgun. Það vakti hins vegar athygli mína að Vilhjálmur borgarstjóri viðurkenndi loksins í morgun að þetta þyrfti að bjóða út.

Borgarstjóri víkur sér undan spurningum
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, leikur ansi skondið hlutverk í Eirarmálinu. Hann skiptir ótt og títt um ham og ákveður hlutina ýmist sem borgarstjóri þegar hann er í Ráðhúsinu eða sem formaður stjórnar Eirar þegar hann er á vettvangi hjúkrunarheimilisins. Þegar hann er spurður spurninga á vettvangi borgarstjórnar um málið segir hann ósjaldan að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, geti ekki svarað, heldur verði að spyrja stjórn Eirar, þar sem Vilhjálmur Þ. er formaður. Og þegar hann er spurður á vettvangi Eirar, eins og til dæmis á fundi fulltrúaráðsins í dag, þá neitar hann að svara nema spurningum verði beint skriflega til stjórnarinnar. Hann er meira að segja búinn að ráða sér lögfræðing til þess að geta rökstutt að hann þurfi ekki að afhenda fundargerðir þar sem væntanlega hefur verið rætt um Eirarmálið. Hefur borgarstjóri eitthvað að fela? Af hverju eru ekki öll spil lögð á borðið og farið að leikreglum og yfirlýstri stefnumótun um gegnsæja stjórnsýslu, útboð og hagkvæmni. Það er greinilegt að persónur sem sitja á stólum beggja megin borðs vegna ýmissa hlutverka sem þeir gegna eiga stundum erfitt að greina á milli þannig að á endanum verði það hugarástand persónunnar hverju sinni sem ræður för - ekki þær samþykktu leikreglur sem eiga að marka hlutverk hvers og eins.


Matur, matur og aftur matur! (14. mars 2007)
Á fundi velferðarráðs í morgun var rætt talsvert um það sem skiptir máli: Mat, þ.e. kjöt, fisk, grænmeti, ávexti og annað gott. Það voru kynntar kannanir á viðhorfum notenda til helstu eldhúsa og mötuneyta á vegum velferðarsviðs, sem flest eru staðsett í eða nálægt húsnæði aldraðra eða hjúkrunarheimila. Niðurstaðan virtist bara nokkuð góð. Fólk var almennt ánægt með matinn, þótt sumir vildu kannski meira grænmeti. Fram kemur að það eru (af skiljanlegri ástæðu) helst eldri borgarar sem nýta sér þessa þjónustu og þar eru konur í vissum tilvikum í talsverðum meirihluta. Ánægjan er meiri með matinn í mötuneytum en heimsendan mat, þótt hann sé líka vinsæll.

Þótt rekstur á mötuneytum á vegum velferðarsviðs hafi batnað á undanförnum árum er ýmislegt sem má bæta. Það má skoða betur samsetningu fæðisins með tilliti til helstu flokka, s.s. fitu, próteina og kolvetna (sjálfum var mér umhugsað um þetta hvað sjálfan mig varðar!). Það eru um þúsund máltíðir framleiddar á dag á fáeinum stöðum og ýmsar vangaveltur um nýjar matreiðsluaðferðir, svo sem hraðkæliframleiðslu (maturinn hafður til, hraðkældur og geymdur í einhvern tíma - og svo hitaður aftur fyrir notkun). Í umræðu um nýjar leiðir þarf þó alltaf að huga að hinum mannlega þætti, auk hagkvæmni og öryggis. Þótt stór eldhús geti verið hagkvæmari og með öruggari verkferla af ýmsu tagi getur í stærðinni falist meiri áhætta ef eitthvert smit eða álíka kemur upp. Þetta þarf að skoða.

Það má svo nefna hér í lokin að við í minnihlutanum, Samfylking, Vinstri græn og F-listi, lögðum til að í ljósi umkvartana íbúa í stoðbýlinu á Miklubraut 18 þá yrði þeim boðið að fá heimsendan mat líkt og íbúar í nærliggjandi þjónustueiningu. Meirihlutinn felldi þó tillöguna og sagði að íbúarnir gætu bara soðið sinn mat sjálfir! Nokkurn veginn þannig hljóðaði sú afstaða. Það væri svo sem fínt að sjóða sinn mat ef hráefnið væri í lagi, sem það hefur oft ekki verið - því miður.

Er malbikið bara lélegt? (13. mars 2007)
Á fundi framkvæmdaráðs Reykjavíkur í gær var fjallað um ýmis mál, m.a. hreinsun gatna, stétta og stíga. Fram kom að hreinsun kostar árlega hátt í tvö hundruð milljónir króna. Því vekja athygli ummæli í fjölmiðlum um að ástæða svo mikils svifryks sé sú að malbikið sé ekki nógu gott! Það væri kannski ráð að huga að því að steypa fleiri götur - jafnvel þótt það sé mikið dýrara. Í öllu falli þarf að draga úr svifryksmenguninni með ráðum sem duga.

Á fundinum var einnig fjallað um gátlista vegna aðgengis fatlaðra að nýbyggingum, en sá listi er settur saman á grunni þeirrar stefnu sem R-listinn markaði um aðgengi fyrir alla. Listinn er m.a. að danskri fyrirmynd.

Framkvæmdir til að auka umferðaröryggi voru til umræðu, en í ár er síðasta ár sérstakrar áætlunar í umferðaröryggismálum og minntum við í minnihlutanum á að taka þurfi á þeim málum skipulega hér eftir sem hingað til.

Í lokin var afgreidd þriggja ára áætlun fyrir framkvæmdaráð. Samfylkingin og Vinstri græn bókuðu þá afstöðu að málið væri illa undirbúið, enda fylgdu nánast engin gögn með, auk þess sem lítill tími gafst til að fara yfir málið. Því sátum við hjá, en málið kemur til kasta borgarstjórnar síðar í mánuðinum og verða þá ýmsir hlutir væntanlega orðnir skýrari.
 

Aldarafmæli Íþróttafélags Reykjavíkur (5. mars 2007)
Nú á sunnudaginn, 11. mars 2007, verður Íþróttafélag Reykjavíkur eitt hundrað ára. Það var stofnað af ungum Reykvíkingum sem settu markið hátt og sendu liðsmenn á ólympíuleikana strax árið 1908 til að sýna glímu. Félagið átti fyrsta frjálsíþróttamanninn sem keppti fyrir Íslands hönd á ólympíuleikunum árið 1912 og hefur æ síðan átt á að skipa frábærum íþróttamönnum. Einna hæst ber frammistaða Vilhjálms Einarssonar, sem vann fyrstu ólympíuverðlaun Íslendinga er hann hlaut silfurverðlaun á leikunum í Melbourne árið 1956. Þá má nefna frækilegt afrek Völu Flosadóttur er hún hreppti bronsverðlaun fyrir stangarstökk á leikunum í Sidney árið 2000. Frjálsíþróttasveit félagsins var á heimsmælikvarða á fimmta og sjötta áratugnum. Einn fremsti íþróttamaður Íslendinga í dag, Eiður Smári Guðjohnsen, er ÍR-ingur. Ýmsar deildir félagsins hafa verið í fremstu röð hér á landi síðustu áratugina. Nú á dögunum urðu ÍR-ingar t.d. bikarmeistarar í körfubolta í meistaraflokki karla.

Eitt stærsta íþróttafélagið
Þótt félagið eigi rætur sínar vestur í bæ er Íþróttafélag Reykjavíkur nú skilgreint sem hverfafélag í Breiðholtshverfi (einkum á svæði 109 en einnig fyrir flestar greinar á svæði 111) og er fjölgreinafélag með níu starfandi deildir (dans, frjálsíþróttir, handknattleik, júdó, keilu, knattspyrnu, körfuknattleik, skíði og tækvondó). Félagið er því í hópi stærstu íþróttafélaga á landinu bæði hvað varðar iðkendafjölda og fjölda greina sem stundaðar eru. Félagið hefur mikla þýðingu fyrir Breiðholtshverfið ásamt öðrum íþróttafélögum sem þar eru, þ.e. Leikni og Ægi.

Aðstaðan fer batnandi
Aðstaða fyrir félagið hefur smám saman verið að byggjast upp í Breiðholtinu síðustu áratugina. Á síðasta ári var tekinn í notkun nýr og glæsilegur gervigrasvöllur á svæði félagsins í Suður-Mjódd, en þar byggðu ÍR-ingar félagsheimili fyrir um 15 árum sem er fyrir löngu orðið allt of lítið fyrir hina þróttmiklu starfsemi. Umræður hafa staðið yfir um byggingu nýs íþróttahúss á Mjóddarsvæðinu og voru samþykktar um 800 milljónir króna til þeirra hluta í þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir rúmu ári. Nú er verið að útfæra þau áform m.a. með því að skoða skipulagsmál svæðisins í nýju ljósi.

Félagið á bjarta framtíð fyrir sér. Í deildum félagsins starfa fjölmargir af fórnfýsi til þess að gera börnum og ungmennum í hverfinu og fleirum kleift að stunda íþróttir sér til ánægju og heilsueflingar. Deildir félagsins gera sér ýmislegt til hátíðarbrigða í tilefni af aldarafmælinu og um helgina verður félagsmönnum, stuðningsmönnum og velunnurum boðið til afmælishátíðar sem hefst í Seljaskóla á laugardaginn en afmælishátíðinni verður haldið áfram á sunnudeginum í ÍR-heimilinu.

Það er fyllsta ástæða til að óska öllum ÍR-ingum til hamingju með þennan merka áfanga um leið og þeir eru hvattir áfram til góðra verka í íþróttum. Áfram ÍR.

Bæjarins verstu.... (3. mars 2007)
Ég rakst á bók með þessu nafni í bókabúð um daginn og keypti mér hana, enda hafði ég grun um að þar væri að finna lýsingu á lífi þeirra manna sem lenda í þeirri ógæfu að láta áfengi og eiturlyf stjórna lífi sínu. Þessir menn halda lögreglu og dómstólum oft uppteknum við að taka á afbrotum og þeir eiga þátt í því að bæta talsverðu við útgjöld félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þótt viðfangsefnið sé heldur dapurlegt er bókin þó á löngum köflum hin skemmtilegasta lesning. Uppátæki verðandi eða lífsreyndra róna í bókinni eru hin kostulegustu og sjálfsagt ekki fjarri þeim veruleika sem þessir einstaklingar í raun búa við. Það er e.t.v. erfitt að viðurkenna það, en ég hef ekki skemmt mér jafnmikið við lestur bókar í langan tíma, en bókin kom út árið 2005 og er frumraun Hreins Vilhjálmssonar á ritvellinum.

Ég ætla mér ekki að fara út í neina bókmenntarýni hér, en ég get þó hiklaust mælt með þessari bók því ég held að hún sé nokkuð sannferðug lýsing á hlutskipti þess fólks sem lendir í þessari aðstöðu, fyrir utan skemmtanagildið. Vitaskuld eru fórnarlömb ógæfufólksins mörg vegna smáþjófnaða, ofbeldis og annarra glæpa, en mestu fórnarlömbin eru þó þeir einstaklingar sem sjálfir falla fyrir Bakkusi. Þannig að sagan er í senn bæði sprenghlægileg og ákaflega sorgleg.

 

Öflugt lið í velferðarráði borgarinnar (1. mars 2007)
Mér líkar vel að vera kominn aftur í velferðarráð borgarinnar. Málaflokkurinn er mikilvægur. Fjölmargir þurfa á þjónustu velferðarsviðs að halda, enda fara nokkrir milljarðar króna til fjölmargra verkefna. Mörg mál eru leyst í góðri sátt og samlyndi, en í nokkrum málum skerst í odda. Meirihlutinn er ekki alveg farinn að fóta sig með Jórunni Frímannsdóttur í oddvitasæti. Við í minnihlutanum njótum góðs af því að Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi formaður, er með okkur, en hún er öllum hnútum kunnug, auk þess að vera faglega menntuð á þessu sviði. Auk þess eru í minnihlutanum Þorleifur Gunnlaugsson frá Vinstri grænum, mikill málafylgjumaður hlaðinn ríkri réttlætiskennd, og svo kjarnorkukonan Margrét Sverrisdóttir frá F-listanum. Með þessum þremur einstaklingum myndi ég treysta mér til þess að stýra hvaða sveitarfélagi sem er.

Á síðasta fundi, sl. miðvikudag, voru ýmis mál til umræðu, meðal annars mál er varða rekstur Samhjálpar á stoðbýlinu á Miklubraut 18. Mér finnst merkilegt hvernig meirihlutinn lítur framhjá efnisatriðum málsins, en nokkrir hnökrar virðast hafa verið á rekstri stoðbýlisins. Í þessu sem öðru er mikilvægt að hagsmunir notenda þjónustunnar séu í fyrirrúmi og að þeir sem koma að rekstri þjónustueininga, stjórn velferðarmála og stefnumótun þekki hver um sig starfssvið sitt. Það er eins og  nýr meirihluti og fylgifiskar hans hafi ekki alveg áttað sig á hlutverki sínu og þurfi ennþá dálitla leiðsögn.

Næstu jafnréttisskref gegn klámi (25. febrúar 2007)
Hin víðtæka samstaða gegn umtalaðri klámráðstefnu sem halda átti vekur sérstaka athygli. Margir fordæmdu þessa ráðstefnu og ýmislegt sem klámiðnaðinum fylgir. En nú er að sjá hverju þetta skilar. Komið hefur í ljós að Hótel Saga, sem lét undan þeim þrýstingi sem umræðan skapaði og meinaði klámráðstefnugestum um gistingu, sýnir klám í sjónvarpsrásum hótelsins. Það var nú dálítið vandræðaleg uppljóstrun þótt hún eigi í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Nú er að sjá hvað ýmsir meina með yfirlýsingum sínum síðustu daga. Ætla þessir aðilar að meina útlendum klámhundum að ferðast til landsins í nokkra daga á sama tíma og þeir amast lítið við kláminu og klámlíkinu sem viðgengst í landinu á hótelum og nektarbúllum allan ársins hring. Af þessum tilefni skal enn minnst á hina norsku leið sem farin var fyrir nokkru. Þess vegna hlýtur það að vera næsta skref í þessari umræðu að setja reglur um eftirfarandi:
     1. Dagpeninga (skattfé) má ekki nota til kaupa klámefni o.þ.h.
      2. Ekki verður skipt við hótel sem bjóða slíka þjónustu.
Nú segir án efa einhver: Þetta er nú meiri dellan! Hvernig á að fylgja svona banni eftir? Svarið er að það skiptir máli hver hin yfirlýsta stefna er. Hún hefur áhrif á hegðun fólks. Það verður fróðlegt hvaða stjórnmálaafl verður fyrst til þess að taka upp keflið frá Jafnréttisstofu í þessu efni.

Aldraðir í borginni sýna gott fordæmi (25. febrúar 2007)
Það er ánægjulegt að sjá kraftinn, lífsgleðina og elskulegheitin í mörgum eldri borgurum þessa dagana. Ekki það að þeir séu eitthvað öðruvísi í dag en aðra daga, heldur hefur athygli mín beinst að ýmsum verkefnum eldri borgara í tengslum við Vetrarhátíð og menningarhátíð eldri borgara í Breiðholti sem staðir hefur yfir síðustu daga. Ég átti þess kost sem varaborgarfulltrúi að hitta marga eldri borgara að máli í síðdegiskaffi í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag. Ég verð að segja að ég get ekki annað en borið mikla virðingu fyrir mörgum þeirra vegna lífsgleðinnar, athafnaseminnar og jákvæðninnar. Þótt venjulegu vinnuamstri sé lokið hafa margir ekki minna fyrir stafni en áður á ýmsum námskeiðum, í ferðum, dansi og söng. Ég þóttist því dálítið ánægður af því að geta upplýst suma viðmælendur mína af því að ég hefði nú loksins ákveðið að fara á dansnámskeið. Ég sá svo í Ráðhúsinu í gær, laugardag, þegar haldin var heilmikil hátíð sem endaði á dansleik, að ég þarf að fara á nokkuð margar dansæfingar áður en ég næ færni þeirra sem þar svifu um gólfið. Fyrr um daginn höfðu kórar eldri borgara sungið af mikilli list, dansar verið sýndir, leikþættir fluttir, öldungurinn Raggi Bjarna sýndi af sér alkunna takta og reitti af sér brandara (og leyfði Villa að syngja með sér einu sinni enn „Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig“) og svo kom fram snillingurinn Gunnar Eyjólfsson, leikari og Breiðholtsbúi og sagði nokkur vel valin orð um söguna, leiklistina, mannlífið og kenndi mannskapnum einhverjar kínverskar æfingar í leiðinni. Ég áttaði mig á því á því að miðað við margt sem hann sagði hefði Gunnar án efa getað orðið ágætur pólitíkus ef hann hefði lagt það fyrir sig. Auðvitað eru það margir aldraðir sem hafa það ekki jafn gott og margir þeir sem mætt hafa í Ráðhúsið síðustu daga. Það á að vera eitt af meginverkefnum stjórnmálanna að bæta kjör og aðstöðu aldraðra sem hafa verst kjörin.

 

Jafnréttisstofa vill banna opinberum starfsmönnum að nota dagpeninga til að greiða fyrir klám og kynlífsþjónustu - hliðstætt mál var rætt í jafnréttisnefnd Reykjavíkur fyrir 4 árum (20. febrúar 2007)

Það er ánægjulegt að sjá Jafnréttisstofu taka nú upp mál sem ég viðraði fyrir tæpum fjórum árum þegar ég sat í jafnréttisnefnd Reykjavíkur. Það er líka ánægjulegt að heyra þáverandi formann jafnréttisnefndar Reykjavíkur, Marsibil Sæmundardóttir, sem tók heldur neikvætt í málið fyrir fjórum árum, lýsa því yfir á borgarstjórnarfundi í dag, að hún væri miklu upplýstari um jafnréttismálin í dag en hún var fyrir fjórum árum. Hún sagðist jafnvel vera feministi í dag - ef ég tók rétt eftir. Kannski hún sé tilbúin að taka undir óskir Jafnréttisstofu í dag.

Frétt Blaðsins í dag um þá ósk Jafnréttisstofu að ráðuneytin setji reglur um notkun dagpeninga, nánar tiltekið á þá lund að það megi ekki kaupa klám eða kynlífsþjónustu fyrir peningana, vakti sem sagt athygli mína. Það vakti ekki síður athygli mína að Blaðið hefur eftir skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu að hann telji sjálfsagt að setja svona reglur. Þarna er um tvennt að ræða, eftir því sem fram kemur í fréttinni, þ.e. annars vegar reglur um kaup á vændi og hins vegar reglur um viðskiptabann gegn hótelum sem bjóða upp á klámmyndir í bíórásum á hótelherbergjum.

Hér hefur Jafnréttisstofa, og reyndar embættismenn utanríkisráðuneytisins, lýst vilja sínum til þess að fylgja því fordæmi sem önnur Norðurönd hafa sett. Í þessu tilviki voru það Norðmenn sem riðu á vaðið með því að setja reglur fyrir opinbera starfsmenn um notkun á dagpeningum. Þannig var það stefna norskra yfirvalda að ekki mætti nota dagpeningana til að kaupa kynlífsþjónustu – og jafnvel klámmyndir líka. Eftir því sem best er vitað gildir þessi stefna enn í Noregi – og fleiri lönd hafa verið að feta svipaðar leiðir.

Á fundi í jafnréttisnefnd Reykjavíkur fyrir tæpum fjórum árum viðraði ég þessa norsku leið og spurðist fyrir um það hvort hún væri eitthvað sem við ættum að skoða. Viðbrögð sumra embættismanna og sérfræðinga við fyrirspurn minni voru mjög jákvæð. Hins vegar komu mér á óvart viðbrögð þáverandi formanns jafnréttisnefndar, Marsibilar Sæmundsdóttur, í DV eftir fund jafnréttisnefndar. Nú er hún formaður mannréttindanefndar – og það verður fróðlegt að sjá hvort hún tjái sig um þessa ósk Jafnréttisstofu núna. Reyndar sagðist hún á borgarstjórnarfundinum í dag vera mun upplýstari um neikvæðar afleiðingar klámvæðingarinnar en hún var fyrir 3-4 árum. Við höfum þá þokast eitthvað fram á við - og ég held að samhljóða ályktun borgarstjórnar frá í dag sýni það.

Það fannst ýmsum skrýtið að þessi norska leið skyldi vera orðuð í jafnréttisnefnd fyrir fjórum árum. Þar á meðal var teiknarinn Sigmund sem teiknaði af því tilefni meðfylgjandi mynd. En það er reyndar vitlaus Stefán á myndinni - því Stefán Jón hefur aldrei verið í jafnréttisnefndinni - en það var handhægara fyrir Sigmund að teikna þann víðfræga Stefán en hinn hægláta Stefán Jóhann Stefánsson sem var í nefndinni.


Fundur Hverfisráðs í Breiðholti: Bílastæðamál í ólestri
(19. febrúar 2007)

Á fundi Hverfisráðs Breiðholts í morgun voru ýmis mál til umræðu. Talsverður tími fór í að ræða um opin svæði og gróður í hverfinu. Unnið hefur verið að lagfæringum hér og þar með gróðursetningu, endurbótum á leiksvæðum og fleiru af því tagi - og verður svo áfram. Þá bókaði Hverfisráðið sérstaklega um vanda er varðar bílastæðamál við Sundlaug Breiðholts og Fjölbrautaskóla Breiðholts, en þar hafa gestir átt erfitt með að komast að á háannatíma. Þessi bókun var í sama anda og fyrirspurnir, tillögur og bókanir sem komið hafa frá fulltrúa Samfylkingarinnar í Hverfisráði Breiðholts og framkvæmdaráði í vetur. Það er greinilegt að sjónarmið okkar hafa nú náð eyrum fleiri, enda brennur bílastæðahallærið á íbúum dag hvern. Það er hins vegar umhugsunarefni, að á meðan bílastæðaskortur er nálægt sumum þjónustukjörnum, þá eru næg bílastæði í 50 til 70 metra fjarlægð, t.d. hjá bíóinu og kirkjunni í Mjódd. Að hluta til snýst þetta vandamál því um hugarfar, en þó ekki eingöngu, því við sumar íbúagötur hafa bílastæðavandamál verið viðvarandi í áraraðir. Í þessu efni þarf að finna nýjar og ferskar lausnir!

 

Rölt var á Skálafellið í dag (18. febrúar 2007)

Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt. Umhverfis höfuðborgarsvæðið eru óþrjótandi leiðir sem hægt er að ganga í góðra vina hópi. Það viðraði reyndar ekki vel í dag fyrir hópinn minn sem var búinn að ákveða að leggja á Skálafellið, við hlið Móskarðshnúka, en skítt með það. Þótt útsýni væri ekkert, úrkoman gerði okkur gegndrepa áður en yfir lauk og talsverður vindur væri efst í fellinu, þá létum við okkur hafa það, enda sæmilega klædd miðað við aðstæður.

Færðin var ágæt að bílastæðinu við skíðasvæðið í Skálafelli. Þar sem skýjafar náði niður í miðjar hlíðar fellsins ákváðum við að ganga slóða eða veg sem liggur í sveig austan og norðan í fellinu og upp að möstrunum efst í fellinu. Þetta var aðeins ríflega klukkustundarlöng ganga eða þar um bil (maður var nú ekkert að hafa áhyggjur af tímanum) og fín útivist þótt það væri dálítil úrkoma sem bleytti í öllu sem fyrir varð.

Þegar upp var komið var tekið upp nesti, kakó og tilheyrandi, í skjóli mannvirkjanna þarna efst. Þá var nú eiginlega tilgangi fararinnar náð.

Ferðin var  hin besta fyrir mannfólkið, en þó hygg ég að ferfætlingarnir sem fengu að fara með hafi notið hennar best. Það voru þrír hundar, þ.e. ein tík (enskur springer spaníel - ættbókarfærður), íslenskur hundur (rakki - ættbókarfærður) og svo blendingur (rakki) úr ýmsum áttum (ekki ættbókarfærður!). Að vanda lét tíkin hundana ekkert komast upp með neitt múður, svo rakkarnir urðu að takast á sín á milli. Átökin fólust meðal annars í sprænukeppni, þ.e. þeir sprændu yfir hjá hvor öðrum þar til hinn gafst upp - svona svipað og í pólitíkinni á Alþingi eða borgarstjórn, þar sem minnihluti og meirihluti takast á í hefðbundnu orðaskaki, þar sem þeirri reglu er fylgt að leyfa engum að eiga neitt inni hjá sér í andsvörum eða bókunum!

Það þarf kannski kvenfólk til að hætta svona sprænukeppnum, samanber það þegar Steinunn Valdís, þáverandi borgarstjóri, sagðist ekkert ætla í neina „pissukeppni“ við Gunnar Birgisson, bæjarstjóra í Kópavogi, þegar hann smellti niður ótal skiltum við bæjarmörk Kópavogs og Reykjavíkur.

Náttúra hundanna verður samt óbreytt, bæði innbyrðis og gagnvart mannfólkinu. Það er ágætt, svona út af fyrir sig.


„Því betur sem ég kynnist mannfólkinu, því vænna þykir mér um hundinn minn.“
(15. febrúar 2007) (föstudagspistillinn!)

Ofangreind staðhæfing, höfð eftir löngu dauðum keisara, ber mannfólkinu náttúrulega ekki gott vitni. Sjálfum þykir mér vænt um hundinn minn, en hann kemur nú aldrei í staðinn fyrir mannfólkið í lífi mínu. Þegar fylgst er með fréttum gæti maður reyndar stundum efast um að maðurinn sé mennskur, þvílík er eigingirnin og grimmdin á köflum. Hundar eru hins vegar þeirrar náttúru að þeir elska, virða og hlýða sínum húsbónda þegar hann er nærri, en geta sumir verið andskotanum undirförlari þegar þeir halda að ekki sjáist til þeirra. Minn hundur situr, liggur og veltir sér samkvæmt skipun, borðar ekki pulsuna sína fyrr en ég segi „gerðu svo vel“ og er hættur að elta ketti ef ég skipa honum að nema staðar! En ef hann veit af bita í eldhúsinu og heldur að ég sé ekki nálægur, þá læðist hann inn í eldhús ef þangað er opið, hoppar upp á borð og stelur jafnvel heilu brauði, fer með það í bælið sitt og hámar það í sig. Einu sinni varð honum heldur hált á svellinu þegar ég kom frá útlöndum og keypti nokkur kíló af nammi fyrir börnin! Þegar hann var búinn að gleypa það í sig hafði það ekki litla magakveisu í för með sér!

En það ríkir sérstakt samband á milli mín og hundsins. Ákveðin gagnkvæm virðing á meðan við erum báðir innan hæfilegrar fjarlægðar. Ég hef sótt námskeið í hundauppeldi, greiði mín gjöld og sé til þess að hann fari til dýralæknis - reyndar oftar en ég fer til læknis! Ég tel mig vera fyrirmyndar hundaeiganda, hirði upp eftir hann skítinn og jafnvel skítinn eftir aðra hundaeigendur sem gleyma sér. Hleyp jafnvel með hundaskítspoka til þeirra ef svo ber undir!

Ég tek nú yfirleitt upp hanskann fyrir hundinn - líkt og sumir taka alltaf upp hanskann fyrir börnin sín. Það var því einkar sárt að heyra það í fréttum nýlega að hundar hefðu étið húsbónda sinn, sem reyndar var látinn!

Þess vegna treysti ég hvutta aldrei fullkomlega - jafnvel þótt hann sé ágætur, greyið. Og mér mun nú aldrei þykja vænna um hann en mannfólkið í kringum mig. Prússakeisari hlýtur því að hafa verið ákaflega einmana og hann hlýtur að hafa átt mjög bágt fyrst hann tók hundinn fram yfir mannfólkið.

 

Velferðarráð rýnir í þjónustusamninga við Samhjálp (14. febrúar 2007)

Á fundi velferðarráðs Reykjavíkur í dag bar margt á góma á þessum fyrsta fundi mínum sem fulltrúi í ráðinu að nýju eftir nokkurt hlé. Félagar mínir, Samfylkingarkonan Björk Vilhelmsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson frá Vinstri grænum og Margrét Sverris af F-lista hafa verið dugleg við að fara í saumana á ýmsum málum. Eitt þeirra kom til umræðu í dag, þ.e. þjónustusamningur Samhjálpar um rekstur á stuðningsheimilinu á Miklubraut 18, en það er heimili fyrir ýmsa sem þurfa aðstoð eftir að hafa lent utanveltu í lífinu. Á fundinum var kynnt skýrsla sem hafin var vinna á snemma síðastliðið sumar, en skýrslugerðinni var lokið í september síðastliðnum. Það er náttúrulega mjög alvarlegt að svo mikill dráttur sé á birtingu skýrslu af þessu tagi, einkum í ljósi þess að hún dregur að hluta til upp ýmsa neikvæða þætti í rekstrinum sem hefðu átt að vera uppi á borðinu áður en nýir samningar við Samhjálp voru gerðir. Þessi stjórnsýsla er náttúrulega mjög bagaleg, hverju sem er um að kenna. Meðal atriða sem athugasemdir komu fram við voru þau að matur væri gamall, viðhald húsnæðis ekki nógu gott, auk þess sem það viðmælendur virtust hafa þörf til að nefna að starfsemin markaðist af því að kristin samtök sæju um reksturinn.

Þetta vekur náttúrulega upp ýmsar spurningar. Það er náttúrulega þekkt að trúarsamtök hafa getað haldið ýmsum á þokkalega réttu róli í lífinu eftir að þeir hafa misstigið sig, en það er ekki þar með sagt að sveitarfélög eigi að fela trúarsamtökum víðtæka þjónustu með sérstökum samningum. Á það hefur verið bent að áhugasamtök á borð við ýmis trúarsamtök hafa ekki forsendur til þess að taka með nútímalegum og faglegum hætti á ýmsum málum. Það verður náttúrulega kafað dýpra í rekstur Samhjálpar á Miklubraut 18, en ef það reynist rétt sem haldið er fram að samtökin þiggi gjafir frá verslunum á mat sem er kominn fram yfir síðustu dagsetningu, á sama tíma og samtökin fá fjárveitingar til kaupa á mat fyrir íbúana, þá er ljóst að ekki er verið að verja fjármunum með réttum hætti - fyrir utan það að verslanirnar eru að spara sér förgunarkostnað á umdeilanlegan hátt. Við eigum ekki að líða það að okkar veikustu meðbræður búi ekki við sams konar matarborð og fólk almennt gerir.

 

Tröllasögur í pólitík - og aðrar betri (9. febrúar 2007)

Sumir stjórnmálamenn hafa tamið sér að segja tröllasögur í því skyni að reyna að fá fólk til að trúa því að skoðanir þeirra séu réttar. Tröllasögur eru ýkjusögur og lygasögur sem voru í eina tíð sagðar börnum til að hræða þau til hlýðni. Þetta háttalag hendir fólk í öllum stjórnmálaflokkum. Nýlegt dæmi um svona tröllasögur eru fullyrðingar sumra um kjör fyrir almenning á lánamarkaði. Heittrúaðir evrópusambandsaðildarsinnar hafa gefið sér vel valdar forsendur um vexti, þróun verðlags og gengis og skellt fram tölum um það hversu miklu hagkvæmara það væri fyrir fólk að taka lán í erlendri mynt. Ég ákvað að kanna málið lauslega, fór á vefi viðskiptabankanna og kannaði kjör á húsnæðislánum í íslenskum krónum og í svokölluðu myntkörfuláni. Það fyrsta sem ég rak mig á var að vextirnir á erlenda myntkörfuláninu voru tvöfaldir á við tröllasögur evrópusambandsaðildarsinna. Þá tók ég eftir því að munurinn á greiðslubyrði lánanna var ekki svo mikill. Jafnvel þótt ég gerði ráð fyrir dálítilli verðbólgu og óbreyttu gengi varð munurinn ekki mikill erlenda láninu í hag. Ef ég gerði ráð fyrir hliðstæðri gengisþróun og verið hafði síðustu áratugi hvarf þessi munur nánast aftur. Með því að leika sér með forsendur um verðlag og gengi er hægt að fá niðurstöður á hvorn veginn sem er. Þess vegna datt mér í hug hvort hægt yrði að fá lán í jenum sem er á lægstu vöxtunum (ég myndi reyndar aldrei taka stórt lán af því tagi) - og hafði samband við starfsmann bankans. Hann fór undan í flæmingi og var greinilega þeirrar skoðunar að þessi fjölmiðlaumræða um krónulán og evrulán væri dálítið hæpin. Hann gat sem sagt ekki lofað mér jenaláni - og ráðlagði mér náttúrulega frá því að taka slíka áhættu með því að taka lán í einum gjaldmiðli, sem hefði auk þess búið við sérstakar aðstæður að undanförnu. Tröllasögur eru náttúrulega lygasögur. Það er ljótt að halda þeim að auðtrúa fólki sem gæti fyrir vikið tekið mikla áhættu sem gæti komið því illilega í koll.

Það var því viss frelsun að heyra í Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar á einhverri útvarpsstöðinni í gær. Þar spurði fréttakonan hana út í lánskjör hér á landi og eitthvað um það hvort fólk ætti ekki bara að taka erlend lán. Jóhanna hafði allan vara á sér með það. Hún taldi það geta orðið mikla áhættu fyrir lántakendur og betra væri að skoða með faglegum hætti ýmsar leiðir sem bjóðast hér innanlands í þróun lánakerfisins. Sagan hennar Jóhönnu hljómaði því mun betur í mínum eyrum en tröllasögurnar sem ég hafði áður heyrt.
 

Breiðavík: Paradís og helvíti (7. febrúar 2007)

Umræðan um Breiðuvík lætur engan ósnortinn. Ég gisti þarna fyrir fáeinum árum að sumarlagi ásamt fjölskyldu og hópi vina. Mér fannst víkin vera algjör paradís og stutt var í náttúruundrið Látrabjarg. Við fórum einn morguninn tveir karlar ásamt sonum okkar og veiddum í volgrunni sem áin myndar rétt ofan við fjöruna. Ég held við höfum samtals veitt um þrjátíu silunga á flugu. Okkur fannst þetta ótrúlegt! Þetta var algjör paradís fyrir litla stráka sem nutu sín í náttúrunni. Við sváfum í svefnálmunum og nýttum okkur eldhúsið. Þetta var sama eldhús, sama svefnálma og sami árfarvegur sem hefur vitnað um margt misjafnt síðustu áratugina miðað við frásagnir. Það þarf að skoða þessi mál ofan í kjölinn, ekki í þeim tilgangi að hengja einhvern sem kannski var líka fangi sinna aðstæðna, heldur til þess að leita réttlætis fyrir þá sem þjáðust með því að veita þeim þá hjálparhönd sem hægt er. En það er með Breiðuvík eins og aðra staði. Mannfólkið ræður því hvort staðurinn líkist hinu efra eða neðra.


Er hið opinbera allt á Saga-klass?
(7. febrúar 2007)

Undanfarin ár hefur verið gerð tilraun til þess að fá opinbera starfsmenn til þess að gera hagkvæm innkaup, einnig þegar um kaup á flugfarmiðum er að ræða. Það hefur sjálfsagt orðið vakning í þessu eins og öðru, en hefur ný hugsun skilað sér til fulls? Í borginni eiga starfsmenn að leita hagstæðustu samninga  hverju sinni. En er það gert? Kaupa menn hagstæðasta flugmiðann hverju sinni? Eru það sumir sem gera það á meðan aðrir láta innkaupaviðmiðanir lönd og leið? Og hvað með ríkið? Geta sveitarfélögin skyldað sína starfsmenn til þess að nýta lággjaldaferðir ef starfsmenn ríkisins eru fyrst og fremst á Saga-klass? Þetta mál er ekki einfalt og stundum er ekki annað að gera en að kaupa tiltölulega dýran miða. En það má án efa spara talsverða fjármuni ef hagkvæmum innkaupum er beitt - í þessu sem öðru.


Ingibjörg Sólrún gefur tóninn: Menntun, samgöngur og kjaramál eru málið - ekki álið
(3. febrúar 2007)

Athyglisvert viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar er birt í Fréttablaðinu í dag. Þar gefur hún tóninn um þau mál sem koma til með að skipta sköpum í kosningunum í vor og reyndar fyrir framtíð stórs hluta þjóðarinnar. Það eru menntamálin sem eru aflvaki athafna og velferðar til framtíðar sem skipta meginmáli, ásamt samgöngumálum. Kjaramálin, hin aukna misskipting velferðar, verða einnig nálægt þungamiðju umræðunnar. Í viðtalinu má einnig greina að náttúruvernd muni hafa mikið vægi, en um það mál skrifaði Ingibjörg góða grein sem Morgunblað birti síðastliðinn föstudag. Hins vegar segir Ingibjörg Evrópumálin ekki verða á dagskrá næstu kosninga. Það er eðlilegt, enda lítill áhugi á þeim nema hjá mjög litlum hópi kjósenda.

Ellert Schram góður
Ellert Schram birtir einnig góða grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann hvetur jafnaðarmenn til að verða ekki sundurlyndisfjandanum að bráð því það verði aðeins lóð á vogarskálar sjálfstæðismanna. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með ýmsum skrifum Ellerts að undanförnu og fá þannig örlitla hlutdeild í mikilli reynslu hans og góðri yfirsýn.

Ekki er sopið álið .....
Dofri Hermannsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfisráði Reykjavíkur, skrifar þarfa áminningu í Moggann í dag um loftmengun í borginni, þ.e. svifrykið, sem fólk er nú fyrst að átta sig á, held ég, að sé talsverður skaðvaldur. Svifrykið veldur mikilli mengun – og yrði ekki bætandi á þá mengun ef álverið í Straumsvík yrði stækkað. Þetta álver skiptir Hafnfirðinga vitaskuld miklu máli og skiptast þar á plúsar og mínusar. Tekjur bæjarsjóðs og ríkissjóðs eru sagðar aukast um hundruð milljóna en mengunin vex að sama skapi. Sú mengun skiptir ekki aðeins máli fyrir Hafnfirðinga heldur fyrir höfuðborgarbúa alla. Auk þess yrði nýtt álver núna ekki það besta sem hentaði hagstjórninni og hefði ekki góð áhrif á verðþensluna og viðskiptahallann. Nú er ekkert atvinnuleysi og spurning hvaðan vinnuaflið kæmi til að stækka álverið. Kannski kæmi það frá Kárahnjúkum?

Hvað sem öðru líður þá er Straumsvíkurmálið farið að lykta illa. Ekki það að einhvern beinan óþef leggi frá álverinu þótt útblástur mengandi efna sé talsverður. Hins vegar finnst mér eitthvað skemmt við þann málflutning sem veifar silfri og gulli framan í kjósendur og beitir hótunum og yfirburða fjárhagsstöðu sinni til að fjármagna áróður sem ætlað er að tryggja ákveðna niðurstöðu kosninga. Fólki getur orðið óglatt af því að gleypa við öllu þessu glingri.


Er Hannes Hólmsteinn Gissurarson orðinn jafnaðarmaður?
(31. janúar 2007) Um framkvæmd Íslendinga á „jafnaðarstefnu“ Rawls

Ég sótti í dag fyrirlestur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, um fátækt og ójöfnuð af sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar. Það sem vakti fyrirfram áhuga minn á fyrirlestrinum var að Hannes ætlaði að gera grein fyrir kenningu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls „um, að í réttlátu skipulagi beri að tryggja, að kjör hinna verst settu séu sem best.“ Hann kynnti mælingu á atvinnufrelsi í ólíkum löndum og tengsl atvinnufrelsis, hagsældar og fátæktar. Það var margt áhugavert í fyrirlestri Hannesar, en samt olli það mér vonbrigðum hversu lítill hluti hans fór í að útskýra kenningar Rawls. Í staðinn fór tíminn að mestu í að tína til tölur sem áttu að sýna yfirburði Íslands, og jafnvel Bandaríkjanna, í því að uppfylla skilyrði Rawls um æskilega skiptingu tekna, jafnframt því sem Hannes gerði sér far um að benda á að Svíþjóð (norræna velferðarkerfið) stæði sig ekki vel í þessum samanburði. Þetta varð til þess að Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, sem var mættur á fyrirlesturinn, dreifði blöðum með tölum sem drógu ekki upp alveg sömu mynd og tölur Hannesar. Reyndar vakti það eftirtekt mína að Hannes sagði að Ísland tæki það besta frá Bandaríkjunum og Svíþjóð. Ég hefði ekki ætlað miðað við framsetningu hans að hann sæi eitthvað jákvætt frá Svíþjóð svo ég spurði hann að því – án þess að fá svör á aðra lund en þá að það gæti svo sem verið ágætt að búa á Norðurlöndum.

Hæfileikar einstaklinga sem sameign þjóðfélagsins?

En af þessu tilefni, og af því að þessi helsti postuli frjálshyggjunnar á Íslandi virtist kunna að meta framlag Rawls (sem hann sagði einn helsta heimspeking jafnaðarmanna) og gerði sér far um að meta lönd út frá sínum skilningi á kenningum hans, þá langar mig að benda á grein sem birt var á Vefritinu í síðasta mánuði, einmitt um kenningar Rawls. Greinin heitir Réttindi og velferðarkerfi, er eftir Hlyn Orra Stefánsson, heimspekinema, og fjallar einmitt um kenningar Rawls. Þar er fjallað talsvert um eignarréttinn og má skilja á greininni að Rawls hafi talið að hæfileikar einstaklinganna væru ekkert endilega einkamál þeirra, heldur gæti samfélagið á vissan hátt gert tilkall til þeirra. Eða með orðum höfundar:

„Því lagði Rawls til að við lítum frekar á hæfileika sem samfélagslega eign heldur en einstaklingsbundna .... Það er í allra hag að við hvetjum til þess að einstaklingar rækti hæfileika sína, og leggi stund á störf þar sem hæfileikar þeirra fá sem best notið sín. Við ættum því ekki að líta á það sem óásættanlega samfélagsskipan að hinir hæfileikaríkari noti hæfileika sína til að afla sér meira en það sem hinir hæfileikalausu hafa, þar sem ójöfnuðurinn sem stafar af því er líka hinum verst settu í hag (þ.e. einnig hinir verst settu hafa það betur heldur en í samfélagsskipan þar sem reynt er að stuðla að því að allir hafi nákvæmlega jafn mikið á milli handanna). En þar sem það er ekkert við hvorki ræktaða hæfileika né meðfædda sem gerir það að verkum að hinir hæfileikaríkari hafi af siðferðisástæðum meira tilkall til gæða heimsins en þeir sem minni hæfileika hafa, þá er ekki hægt að halda því fram að það sé rangt frá siðferðilegu sjónarmiði að leyfa þeim ekki að njóta alls sem hæfileikar þeirra afla þeim umfram þá sem minni hæfileika hafa ....“

Ég hafði hér í lokin ætlað að benda á framlag Hannesar um þetta á heimasíðu hans en hún virðist ekki vera aðgengileg sem stendur. En ég held að fyrirlesturinn hafi í öllu falli verið jákvætt innlegg í umræðuna um ójöfnuð og jafnaðarstefnu og fyllsta ástæða til að kynna sér hugmyndir Rawls.

Sjá grein Hlyns Orra í Vefritinu.

Sjá kynningu á fyrirlestri Hannesar.

 

Er Evrópusambandið ólýðræðislegt skrifræðisbákn sem þjónar fremur stórfyrirtækjum en almenningi? (28. janúar 2007)

Ég tók upp á því fyrir skömmu, eins og margir aðrir á mínum aldri, að fara á námskeið í háskóla í þeim tilgangi að bæta við þekkingu mína, og auka færni og víðsýni. Til þess er jú flest nám. Í þessu námskeiði fræddist ég um ýmislegt gagnlegt og las faglegan texta um áhugavert efni. Meðal þess sem mér bar að lesa voru ritgerðir þar sem komið var inn á stjórnmál og stjórnsýslu í Evrópusambandinu. Við þann lestur vöknuðu margar spurningar, m.a. um það hvers eðlis pólitísk ábyrgð er í sambandinu.

Því hefur oft verið haldið fram að reglugerðargleði Evrópusambandsins sé stundum meiri en góðu hófi gegnir. Einn fræðimanna sem mér bar að lesa taldi það skipta nokkru um þróun gróskumikillar reglugerðarsetningar sambandsins að það sé tiltölulega ódýrt fyrir það að setja reglur því framfylgd þeirra verði á kostnað aðildarríkja sambandsins og fyrirtækja í sambandslöndunum. Auk þess séu ríki tilbúin til að samþykkja reglurnar þar sem þau þurfi svo sem ekkert að framfylgja þeim strax út í ystu æsar. Stundum séu reglur jafnvel settar án þess að fyrir þeim sé lagaheimild. Kyndugast fannst mér að lesa um það að sérfræðingar og embættismenn sem ekki koma sínu í gegn fyrir andstöðu stjórnmálamanna í eigin heimalandi hafa verið keyptir af bákninu í Brussel til reglusmíðar þar, því þar er áhuginn á slíku mun meiri en í aðildarlöndunum.

Hvað segir þetta okkur um lýðræði og pólitíska ábyrgð? Ef reglum verður ekki komið í gegn á lýðræðislegan hátt í gegnum stjórnmálaþátttöku, þá er það hægt með því að ganga í bandalag við nýjungagjarna embættismenn og sérfræðinga í Brussel? Því er að minnsta kosti haldið fram að þangað safnist áhugasamir einstaklingar um slíka hluti, sérfræðingar, embættismenn og skólafólk, til þess að fá fullnægt metnaði sínum hver á sínu sviði.

Samantekið segir einn fræðimaðurinn á þessu sviði að það sé það þrennt sem útskýri vöxt regluverksins í Evrópusambandinu: Þröngur fjárhagur Evrópusambandsins (til annars en landbúnaðarstyrkja og dreifbýlisstyrkja), langanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til aukinna áhrifa og óskir stórfyrirtækja, en stór hluti reglna sem varða efnahagsstarfsemina er tilkominn vegna hagsmuna þeirra.

Fræðimenn halda því fram að það sé óljóst hver beri pólitíska ábyrgð þegar reglur Evrópusambandsins eru annars vegar. Hvaðan fá embættismenn og sérfræðingar sambandsins t.d. umboð til reglusetningar? Svokölluð umboðskeðja getur verið löng og margslitin. Reglugerðarvald Evrópusambandsins virðist oft ótakmarkað, ábyrgð þinga eða kjörinna fulltrúa óljós, réttarfarsleg endurskoðun veik og þátttaka almennings ónóg.

Hér má spyrja áfram um hagsmuni almennings. Hversu stór hluti reglnanna er til kominn vegna hagsmuna stórfyrirtækja? Þjóna þær reglur almenningi?

Hér er einungis fjallað um afmarkaðan þátt svokallaðrar Evrópuumræðu. Ef við hins vegar lítum á líklegar afleiðingar þess á atvinnustig hér á landi að ganga í myntsamstarf við Evrópusambandið þá verður vart séð að slíkt yrði ávinningur fyrir nema takmarkaðan hluta landsmanna. Í Evrópusambandinu er mikið og stöðugt atvinnuleysi víða, miklu meira en hér á landi. Er það framtíðin sem myndi blasa við íslenskum fjölskyldum?

 

Álver eða ekki álver í Hafnarfirði (22. janúar 2007)
        Því fá ekki fleiri en Hafnfirðingar að kjósa??

Það verður spennandi að sjá hvort álverið í Straumsvík verður stækkað eða ekki. Staðreynd er að Orkuveitan hefur gert samkomulag um afhendingu á orku fyrir stækkun á Alcan-verinu. Ég veit ekki betur en að það hafi verið 100% pólitískt samkomulag allra aðila í stjórn Orkuveitunnar um það, að minnsta kosti meðal Samfylkingar, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þá er næsta víst að mikill meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði hefur ekkert á móti auknum tekjum af stærðargráðunni hundruð milljóna króna vegna stækkunarinnar. Það er hægt að gera ýmislegt fyrir þær tekjur. Bægslagangurinn í fulltrúa Vinstri grænna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar er athyglisverður miðað við samþykkt félaga hans í Reykjavík á málinu.

Viðkvæmt svæði og viðkvæmt mál
Til þess að afla nægjanlegrar orku fyrir verkefnið þarf þrjár virkjanir á Hellisheiði og þær eru komnar vel á veg. Virkjunin við Ölkelduháls er sjálfsagt viðkvæmust, umhverfislega séð. En eftir að Kárahnjúkavirkjun er að baki beinast sjónir manna í auknum mæli að öðrum virkjunum og það heyrist æ oftar að fólk sé ekkert allt of hrifið að ýmsum þáttum sem tengjast þessum „hreinu“, „endurnýtanlegu“ og „afturkræfu“ virkjunum sem nýta jarðhita. Öll sjáum við ummerkin í og við Hellisheiðina í formi gríðarmikilla röra sem liggja þar víða, við sjáum mannvirkin og gufustrókana sem drynur í svo heyrist hátt í þingmannaleið og lyktin berst álíka vegalengd eftir því sem haldið er fram (það er kannski þess vegna sem við finnum brennisteinslykt svo oft hérna í Breiðholtinu).

En auðvitað verður farið með þetta allt saman í samræmi við lög til verndar umhverfinu. Vatnið frá virkjununum er leitt aftur ofan í jörðina og það á ekki að menga grunnvatn sem berst í drykkjarvatn. Eftir sem áður rennur heitt vatn út í Þingvallavatn eftir því sem upplýst hefur verið og ofan í jarðveg í átt til Ölfuss. Það ætti þó allt að vera í samræmið við viðmið um verndun umhverfis. Svo er rætt um djúpboranir sem gefa eiga ómælda orku innan ófyrirséðs tíma - þótt sumir sérfræðingar haldi því á móti fram að á slíkum pælingum sé lítið að byggja.

Það eru sem sagt ýmis álitamál við virkjanir af þessu tagi og víst að skoðanir eru og verða skiptar. Vonandi gengur það eftir sem sagt er að mannvirkin sem fylgja virkjununum verða niðurgrafin í meira mæli í framtíðinni en nú er, jafnvel þótt það kunni að kosta talsvert.

Álverið snertir ekki bara Hafnfirðinga
Hvað álverið í Straumsvík og stækkun þess varðar má nú spyrja, líkt og gert var í flugvallarkosningunni í Reykjavík forðum daga: Hvers vegna fá ekki allir höfuðborgarbúar að kjósa um þetta mál? Skipulagslega og í beinhörðum peningum skiptir þetta vitaskuld mestu máli fyrir Hafnfirðinga, en umhverfis- og atvinnulega og efnahagslega í víðum skilningi snertir þetta ekki síður íbúa í nærliggjandi byggðum. Mér skilst að það séu varla meira en hundrað Hafnfirðingar sem vinna í álverinu en margfalt fleiri úr Reykjavík. Stækkun álversins kemur þannig til með að hafa áhrif á ýmsa þætti í Reykjavík. En þótt farið sé að líta á skipulagsmálin í víðara samhengi hér á höfuðborgarsvæðinu er líklega óraunhæft að gera ráð fyrir því að höfuðborgarbúar fái að taka þátt í kosningu um þetta og því er þessi hugmynd meira nefnd í gamni en alvöru.

Málið snertir hins vegar íbúa á öllu höfuðborgarsvæðinu og því eðlilegt að fleiri en Hafnfirðingar hafi á því skoðun. Þeir fá hins vegar að ráða ferðinni. Líklega vill meirihluti stjórnmálamanna þar og víðar heimila stækkun versins. Rök þeirra eru auknar tekjur fyrir sveitarfélagið, framkvæmdin kemur væntanlega til með að standast umhverfiskröfur sem settar eru fram og búið er að gera samkomulag um afhendingu orkunnar og sjálfsagt einhver vilyrði um lóð.

Jón og Gunna eru orðin þreytt á álverum og orkuvinnslu
En það er ekki víst að íbúarnir kaupi þessi rök. Æ fleiri tjá sig með þeim hætti að það sé komið nóg af þessum álverum. Það sé komið nóg af virkjunum. Þetta fólk, hinn venjulegi Jón Jónsson og Guðrún Sigurðardóttir í Hafnarfirði eru orðin langþreytt á umræðunni um þessa hluti, umræðu sem þó hefur haft þessi áhrif á þau því þau vilja eitthvað annað en meira og stærra álver. Jón og Gunna eru engir umhverfisenglar, en þeim finnst Alcan hafa gengið of langt í kringum hátíðirnar. Það er ekki hægt að kaupa allt, með hótunum að auki ef ekki vill betur. Svo eru reyndar umhverfisverndarsinnar Í Firðinum og víðar byrjaðir að beita sér gegn þessu.

Og svo er efnahagsástandið þannig að það þolir varla framkvæmdir af þessu tagi sem hafa í för með sér aukna þenslu, verðbólgu og aukinn viðskiptahalla. Það er ekkert atvinnuleysi að ráði sem stendur - og því óvíst að fólk sjái sér hag í þessu. Því ættu Hafnfirðingar að heimila mengandi álver við heimilisdyrnar hjá sér sem skapar fyrst og fremst atvinnu fyrir Reykvíkinga eða jafnvel innflutt vinnuafl?

Þannig að þótt nokkur efnisleg rök geti verið til þess að halda áfram uppbyggingu af þessu tagi, strax eða með tíð og tíma, þá geta þau rök strandað á þeirri tilfinningu fólks að aukin starfsemi af þessu tagi sé ekki eftirsóknarverð í borgarsamfélaginu hér á suðvesturhorni landsins. Auk þess eru náttúrulega ýmis rök, umhverfislegs og efnahagslegs eðlis, sem mæla gegn þessum framkvæmdum.

Kátir hverafuglar við ölkeldur! (21. janúar 2007)
Ég skrapp ásamt hópi félaga upp að Ölkelduhálsi á Hellisheiði í dag. Veðrið var eins og best verður á kosið, þ.e. bjart og nánast logn. Þarna eru margir hverir og Orkuveitan hefur verið með rannsóknir þarna, lagt veg og borað holur sem heyrist í. Ennfremur liggur þarna háspennulína sem lögð var fyrir um 15 árum. Frekari framkvæmdir eru sem sagt fyrirhugaðar þarna á svæðinu, en menn eru sér vel meðvitaðir um umhverfisþáttinn.

Þarna á svæðinu er einn mjög stór hver, einn sá vatnsmesti sem ég hef séð um æfina og hann bullar og sýður ógurlega. Við hverinn er upplýsingaskilti, þar sem segir meðal annars frá hverafuglum. Þeir hafa að sögn sést við og við, líkjast öndum, en með litla vængi - og þeir eiga það til að stinga sér ofan í hverina til sunds ef menn nálgast, eftir því sem sagnir segja. Ekki hafa fengist óyggjandi sannanir fyrir þessu í formi eintaka sem fundist hafa, en margir telja sig þó hafa séð þessa fugla - og ég er ekki frá því að hundurinn minn hafi orðið þeirra var, enda virtist eitthvað grunsamlegt vera þarna á ferðinni. Á upplýsingaskiltinu mátti einnig sjá að ferðamenn fyrr á tíð fengu sér gjarnan að drekka af þessu ölkelduvatni og urðu þá kátir við! Við þurftum hins vegar að vera í ökufæri ástandi í bæinn þannig að við tókum engan séns!

Rasistaáróður fær að vera óáreittur (17. janúar 2007)
Mig rak í rogastans í kvöld þegar ég gekk hér hring í hverfinu mínu sem ég geri stundum oft í viku, stundum sjaldnar. Ég er reyndar hættur að kippa mér upp við það þótt ruslastamparnir séu ennþá sundursprengdir sumir hverjir eftir áramótabombur þannig að hundaskítspokarnir liggja enn á víð og dreif. Það flögraði reyndar að mér að seinagangurinn við að kippa þessu í liðinn gæti ýtt undir enn frekari sóðaskap. Ég er viss um að Vilhjálmur borgarstjóri væri ekki hrifinn af þessu – og ekki heldur Gísli Marteinn formaður umhverfisráðs miðað við málflutning þeirra fyrir kosningar. Ég er reyndar hissa á að þeir skuli láta þetta líðast. En ég ætlaði ekkert að kippa mér frekar upp við það, enda búinn að benda ýmsum réttum ráðamönnum á þetta – og svo mildaðist ég kannski eftir að Villi borgarstjóri tók fast á spilavítismálinu í Mjódd. Hann má eiga það, karlinn, að hann gerði vel í því að styðja okkur Breiðhyltinga í því máli. Og ég treysti því að ruslastamparnir verði lagaðir fyrr en síðar.
      Hins vegar sætti ég mig alls ekki við að það sem ég sá krotað á vegg á áberandi stað skuli fá að standa án þess að borgaryfirvöld grípi strax í taumana. Á leikvelli barnanna hér í hverfinu, við stóran skóla stóð skrifað skýrum, stórum stöfum meining sem verður ekki skilin öðru vísi en sem ólíðandi rasismi. Og það sem verra er. Mér er kunnugt um að þetta hefur staðið þarna við skólann í nokkra daga þótt ég viti að fólk hefur óskað eftir því að þeim boðum yrði komið til réttra aðila að þetta yrði þvegið burt. Ég hélt að það væri mörkuð stefna til margra ára að þrífa svona ósóma sem fyrst, helst samdægurs. Ég krefst þess sem foreldri, vinur innfluttra barna, aktívisti í íþróttafélagi í hverfinu, hverfisráðsmaður, fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði, varaborgarfulltrúi – ja – bara sem manneskja, að þessi ósómi verði hreinsaður án frekari tafar. Ætli ég verði að fá gamla góða Villa eða Björn Inga í lið með mér? Það væri svo sem varla mjög langt fyrir þá að fá sér kvöldgöngu og skoða þennan ósóma – og lítið mál fyrir athafnastjórnmálamenn að láta mála yfir nokkur ósæmandi orð.

Kosningaketillinn hitaður (10. janúar 2007)
Það er greinilegt að landsmálaflokkarnir eru að ná úr sér miðsvetrarhrollinum og eru að hita sig upp fyrir átökin í vor. Ef ég man rétt verður kosið í byrjun maí, en þingið fer víst í frí í mars. Því verður þingsetan fremur stutt í vetur sem skiljiljanlegt er. Hvert tækifæri er notað þessa dagana til þess að brýna kutana, hvort sem það tengist verðlagsþróun, gengi gjaldmiðla eða álmálum. Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með þróuninni í Framsóknarflokknum. Þessa dagana er mest rætt um samanburð á verðlagi hér og annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu, um gengisþróun og gildi krónunnar, um orkumálin og álmálin. Hin almennu utanríkismál eru að sigla hjá í bili. Allt verður þetta líklega að mestu gleymt þegar kemur að kosningum - nema kannski orku- og álmálin - sem verða líklega helstu kosningamálin auk almennra kjaramála og velferðarmála. En það er um að gera fyrir flokkana að hita sig upp í tíma, hnykla vöðvana og sýna hvað í þeim býr. Ég ætla að sækja fund míns formanns í fundaherferðinni hér á suðvesturhorninu. Það verður spennandi að fylgjast með henni í sinni fyrstu kosningabaráttu sem formaður Samfylkingarinnar. Henni á eftir að takast vel til í fylkingarbrjósti jafnaðarmanna.

Flugeldafarganið - áheit! (2. janúar 2007)
Síðustu tvo áratugina eða svo hef ég skotið upp fjölda flugelda við hver áramót. Lengi vel var þetta gert fyrir börnin og fjölskylduna sem höfðu gaman að þessum látum. Ennfremur hefur þetta á síðari árum verið gert til að styrkja íþróttafélagið í hverfinu. Nú verður breyting á. Ég uppgötvaði það um nýliðin áramót að krakkarnir höfðu eiginlega ekkert gaman að þessu flugeldafári lengur - og þau virtust ekkert skilja í því að ég væri að eyða þessum peningum í flugelda og hljómmiklar tertur! Mér væri nær að gefa þeim nýjan gemsa eða annað þarflegt! Ég fékk eiginlega eilítið samviskubit - og ekki minnkaði það þegar ég heyrði fréttirnar um mengunina frá flugeldunum og erfiðleikum sjúklinga og eldra fólks. Því er nóg komið hjá mér af þessu flugeldafári. Að minnsta kosti um sinn. Því mun ég um næstu áramót stuðla að minni mengun í höfuðborginni eða annars staðar þar sem ég verð - hugsanlega með fjölskylduna og hundinn í bústað við litla vík eins og á myndinni. Ég stefni hins vegar að því að styrkja íþróttafélagið mitt áfram, en bara með öðrum hætti.

Við áramót (1. janúar 2007)
Við áramót er gengið ár gert upp og spáð fyrir um hvað nýtt ár muni færa. Stórviðburðir fréttaannála setja málin í sérstakt ljós og oftar en ekki birtast okkur dökkar hliðar heimsmálanna. Þó er víða ljósglætu að finna, líkt og í myndinni hér til hliðar. Svo er hægt að brosa að þessu öllu líkt og fréttastöð Stöðvar 2 gerir um áramótin.

Átökin í Írak valda ómældum þjáningum og þau hvíla sem skuggi á heimsbyggðinni. Það eru þó átök víðar. Umfjöllun um hlýnun jarðar vekur ugg og gæti valdið erfiðleikum í afkomu manna og dýra. Umhverfismálin eru einnig í deiglunni hér á landi, eins og val á manni ársins, Ómari Ragnarssyni, sýnir. Kosningarnar meðal íbúa í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík munu setja mark sitt á umræðuna um allt hið íslenska samfélag, ekki hvað síst ef kosið verður samhliða alþingiskosningum í vor.

Þetta verður spennandi ár. Uppgjörsár að mörgu leyti. Mun stjórnin halda velli? Hefðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þá áhuga á því að starfa saman? Tekst stjórnarandstöðunni að stilla saman strengi sína í ríkisstjórn ef hún fær afl til þess? Tekst henni að ná saman um helstu útgjaldaflokka ríkisins, um umhverfismálin og utanríkismálin. Ég held að innflytjendamálin verði þessum flokkum ekki fjötur um fót. Það er í raun aðeins blæbrigðamunur í sjónarmiðum hjá helstu flokkum þótt reynt sé að gera talsvert mál úr þessum blæbrigðum. Hins vegar geta virkjana- og álversmál sett strik í reikninginn. Sérstaklega hjá Vinstri Grænum - þótt þeir hafi í raun samþykkt virkjun Orkuveitunnar á Hellisheiði sem skapar orku fyrir nýtt álver í Straumsvík eða annars staðar á suðvesturhorni landsins.

Og hvernig fara utanríkismálin? Stærsta frétt ársins að mati fréttastofu Stöðvar 2 og fleiri var brottför hersins. Fæstir landsmenn hafa fundið mikið fyrir þeirri brottför utan þeirra sem hafa haft af hernum atvinnu og beinar tekjur. Einhvers konar viðræður eru hafnar við nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum um öryggismál. Hverju munu þær skila? Hvaða áhrif hefur þessi þróun á aðra þátttöku okkar í alþjóðamálum? Mun það verða næsta Kárahnjúkavirkjun sem kljúfa mun þjóðina í andstæðar fylkingar?

Þegar til kastanna kemur eru það þó kjaramálin sem skipta hér á landi mestu. Þótt munur á kjörum hafi aukist er staðan þó sú að nær allir hafa atvinnu sem stendur. Það mun koma þjóðinni til góða. Aldraðir, einstæðir og sjúkir munu þó heimta sinn réttmæta skerf.

Verði niðurstaðan að kosningum loknum eins konar helmingaskiptastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eins og margir spá eða óttast mætti ætla að stjórnarmeirihlutinn yrði öruggur. Hins vegar er spurning hvernig tekið yrði á ýmsum málum. Hvernig yrði samið um orku- og virkjanamál? Hvernig yrði farið með kjaramálin? Heilbrigðismálin? Yrði áframhald á einkavæðingarbrautinni, t.d. í heilbrigðismálum og menntamálum?

Það er sem sagt mikið spáð og spekulerað við áramót. Í borginni búum við nú við það að fylgisminnsti flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur verið færður til æðstu metorða og mikilla valda í borginni - jafnvel meiri valda en þegar flokkurinn var hluti Reykjavíkurlistans. Flokkurinn hefur þótt vera einna lagnastur við það að tryggja sér og sínum stóla og ýmsa bita - eins og endurspeglast að mínu mati í umræðunni um ráðningar nokkurra flokksgæðinga til ýmissa verka. Það kemur mér reyndar talsvert á óvart að Óskar Bergsson skuli ekki hafa séð hversu illa samningurinn sem hann gerði við Faxaflóahafnir samræmist nútíma viðmiðum um stjórnarhætti og hegðun stjórnmálamanna. Það gengur bara ekki upp að vera í forsvari fyrir tvær helstu nefndir borgarinnar, þ.e. skipulagsráð og framkvæmdaráð, og eiga þar að gæta hagsmuna borgarinnar í hvívetna og um leið að gera starfssamning við einn af samningsaðilum borgarinnar um að gæta sérstaklega hagsmuna hans gagnvart borginni.

Mál af svipuðum toga tengist áformaðri uppbyggingu í málefnum aldraðra, en þar ætluðu Vilhjálmur og Björn Ingi að tengja byggingu menningarmiðstöðvar við byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða. Það að hengja menningarmiðstöðina við yfirlýsingu borgar og Eirar er á skjön við bæði innkaupareglur borgarinnar og samþykktir Eirar. Því máli er ekki lokið, en Björn Ingi hefur opinberlega látið hafa eftir sér að þetta hafi verið mistök. Það virðist ekki hindra Sjálfstæðisflokkinn í að keyra málið áfram.

Flest mál í borginni eru afgreidd í góðri sátt. En það verður vafalítið af ýmsum ágreiningsmálum að taka á næsta ári - m.a. um það hvert beri að stefna í menntamálum og skipulagsmálum í borginni. Þar verður af nægu að taka.

 

Jólakveðja frá borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar

 

 

Villi borgarstjóri maður ársins?! (29. desember 2006)
Mér sýndist á einhverjum netmiðlinum að hlustendur útvarpsstöðvarinnar Sögu hefðu valið Vilhjálm borgarstjóra mann ársins 2006. Mér finnst nú fullfljótt að dæma um það og margir aðrir þess verðugri að bera þann titil. Til dæmis stelpan að vestan sem bjargaði erninum  - eða þess vegna liðssveit Hjálpræðishersins sem gefur þurfandi gott að borða um jólin, að ekki sé minnst á Mæðrastyrksnefndina. Hins vegar má hann eiga það, kallinn hann Villi, að hann hitti á réttan streng þegar hann fylgdi eftir mótmælum borgarráðs og fleiri gegn spilavíti því sem Háskóli Íslands áformar að setja upp í Mjódd. Við sem erum í Samfylkingarfélaginu í Breiðholti höfum mótmælt þessu. Það hefur Hverfaráð Breiðholts einnig gert og sömuleiðis nýstofnuð íbúasamtök Breiðholts, auk hundruða íbúa sem skrifað hafa undir mótmæli gegn staðsetningu spilasalarins í verslunarkjarnanum í Mjódd.

Villi karlinn er sniðugur. Hann tekur alla fjármuni af hverfaráðunum og setur undir sig. Síðan sendir hann frá sér svona ályktun sem fjölmiðlarnir gleypa náttúrulega við. Þessi skoðun vekur eðlilega meiri athygli þegar orðin berast úr munni borgarstjórans. Og allir gleyma því að hann var núbúinn að vængstífa hverfaráðin - í óþökk allra, m.a. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem voru settir í þau, í þeirri trú að þeir fengju einhverju ráðið.

Það er sama hvaðan gott kemur. Við Breiðholtsbúar fögnum náttúrulega þessari einörðu skoðun borgarstjórans og vonum að orð hans ýti aðeins við stjórn Háskóla Íslands. Vonandi bara að orð hans hafi meira vægi en okkar hinna í eyrum rekstors Háskóla Íslands, sem virðist hingað til ekki hafa sýnt þessu sjónarmiði hverfisbúa minnsta skilning. En við hér í hverfinu hörmum hins vegar þá ákvörðun borgarstjórans og meirihlutans að gelda hverfaráðin fjárhagslega og færa mikla fjármuni frá þjónustumiðstöðvunum. Þessi miðstýringarárátta rýmar illa við frjálsræðis- og lýðræðishugsjónir margra sjálfstæðismanna, eins og þeir tala á tyllidögum,  - hvað þá annarra íbúa Breiðholts og annarra hverfa sem voru farin að líta jákvæðum augum aukið áhrifavald hverfaráða og aukið vægi þjónustumiðstöðva hverfanna. 

En það er ekki öll von úti .... við skuldum ekki gefa upp alla von strax....

 

Traust lið, samhent og samhljóma! (8. desember 2006)
Hér er helgarmyndin! Tekin í gær eftir fótboltaæfingu. Þetta er traust lið sem á rætur á Ísafirði en allir búsettir hér syðra. Í hópnum eru fyrrum fræknir knattspyrnumenn og margir sem enn eru efnilegir! Þessir piltar eru samtaka á velli, fylgja fyrirliðanum eins og vestfirskir sjómenn sínum skipstjóra og þegar lagið er tekið eftir æfingu er hvergi falskan tón að finna. Fremri röð frá vinstri: Magni Blöndal Pétursson, Þórður Ólafsson, Rúnar Þór Pétursson og Magnús Ólafsson. Aftari röð frá vinstri: Stefán Jóhann Stefánsson, Sigurður Arngrímsson (Sigurðsson), Guðmundur Sævar Ólafsson og Ágúst Leifsson.

 

Borgarstjóri veit ekki hvað hann er að samþykkja! (5. desember 2006)
Það kom greinilega fram á fundi borgarstjórnar síðdegis að borgarstjóri og meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna geta ekki fært rök fyrir þeim skattpíningarprósentuhækkunum sem þeir eru að samþykkja. Ég hef ítrekað spurt um það á fundum ÍTR og víðar, og endurtók spurninguna á borgarstjórnarfundinum síðdegis hvernig meirihlutinn færi að því að finna það út að hækka þyrfti gjöld fyrir flesta þjónustu borgarinnar um að meðaltali 8,8%. Sú hækkun er langt umfram eðlilega verðlagshækkun þótt meirihlutinn reyni að láta í veðri vaka að hér sé einungis um verðbólguleiðréttingu að ræða. Meirihlutinn hefur reynt ýmsar leiðir til að skýra þessa hækkun. Nefnd hefur verið verðhækkun á milli einhverra tímapunkta - sem gengur ekki. Þá hefur verið nefnd einhver meðaltalsverðhækkun - sem gengur ekki heldur. Einhvers staðar nefndi meirihlutinn einhverja blöndu af vísitölu verðlags og launa - en hefur fallið frá því. Þá var reynt að tala um einhverja áætlaða hækkun í eitt og hálft ár - sem er utan við venju - einkum ef haft er í huga að síðasta hækkun sumar liða var fyrir tæpu ári. Borgarstjóri vísaði í kvöld á fjármálasvið borgarinnar - sem hefur heldur ekki getað útskýrt forsendur þessarar hækkunar. Hann lofaði mér þó ítarlegri skriflegri skýringu um málið þegar búið væri að taka þá skýringu saman. Ég verð nú bara að segja að ég var öldungis hlessa. Villi var gjörsamlega viðutan. Þetta lið hefur ekki hugmynd um á hvaða forsendum fjárhagsáætlun borgarinnar byggir. Svo reynir það að vísa ábyrgðinni frá sér með því að segja að þetta sé tillaga fjármálasviðs borgarinnar. Það hafa verið fulltrúar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem hafa lagt þessar tillögur fram í nefndum og ráðum - greinilega án þess að hafa haft hugmynd um forsendur þeirra. Þegar í ofanálag þessi vanhugsaða ákvörðun felur í sér auknar álögur á borgarbúa, auk þess sem skatttekjur standa ekki undir rekstrarkostnaði við borgarsjóð fer nú að fjúka í flest skjól. Ég hélt ekki það væri hægt að láta borgarsjóð blæða svo mikið á svo skömmum tíma án þess að borgarbúar hafi fengið að njóta þess.

 

Gönguferð við Kleifarvatn að flokksstjórnarfundi loknum (3. desember 2006)
Það fór vel á því í dag að ganga meðfram Kleifarvatni daginn eftir athyglisverðan flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í Keflavík. Flokksstjórnarfundarins hefur verið vel getið í fjölmiðlum og er því óþarfi að fjölyrða um hann hér. Hins vegar get ég mælt með gönguferð meðfram Kleifarvatni eða í nágrenni þess, s.s. um hverasvæðið í Krýsuvík. Mér og ferðafélögum mínum, sem flestir voru samtíða mér í Lundi í Svíþjóð, sýndust enn vera ummerki eftir þær hræringar sem áttu sér stað þarna fyrir nokkrum árum þegar minnkaði í vatninu. Það virðist ekki hafa náð fyriri stærð að nýju, en hverasvæði, sem líklega komu fram við jarðhræringarnar, voru sýnileg við bakka vatnsins. Tilvalin dagsferð frá Reykjavík - en betra er að vera vel skóaður og dekkjaður því mikil hálka var á leiðinni. Hundarnir sem voru með í för léku við hvurn sinn fingur og meðal þeirra var gangur náttúrunnar eins og víðar sá að tíkin Milla sagði rakkanum Bjarti til syndanna þegar þess þurfti með, auk þess sem Bjartur þurfti að gefa tíkinni eftir kjötbollubitann sinn. En allir voru sáttir að lokum.

 

Samfylkingin ætlar sér í ríkisstjórn eftir næstu kosningar (29. nóvember 2006)

Á aðalfundi Hverfafélags Samfylkingarinnar í Breiðholti sem haldinn var 28. nóvember sl. sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar, að það væri meginmarkmið flokksins að komast í ríkisstjórn eftir næstu þingkosningar. Flokkurinn þyrfti að koma stefnumálum sínum í málefnum eldri borgara í höfn og tryggja stöðugleika í efnahagsmálum um leið og spornað yrði við vaxandi ójöfnuði. Ágúst kom víða við í erindi sínu á aðalfundinum sem var haldinn í Gerðubergi.

Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi fór yfir stöðuna í borgarmálum og sagði merkilegt að sjá að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fylgdi stefnu Reykjavíkurlistans í flestum málum. Eina stóra undantekningin væri sú að nýi meirihlutinn hefði ákveðið að kljúfa upp menntaráð og stofna leikskólaráð sem kostaði talsvert fé. Á fundinum var talsvert rætt um orku- og stóriðjumál, einkum hér við Faxaflóa.

Á fundinum var kjörin ný stjórn fyrir Hverfafélag Samfylkingarinnar í Breiðholti. Í stjórninni eiga sæti Stefán Jóhann Stefánsson, Áslaug Þórisdóttir, Gunnar Þórðarson, Aðalheiður Franzdóttir og Gunnar H. Gunnarsson. Stjórnin áformar að efna til aukinnar samræðu við íbúa í Breiðholti, bæði um þau mál sem snúa að borginni og eins um landsmálin. Meðal mála sem félagið hefur látið til sín taka í hverfinu eru samgöngmál, skólamál, íþrótta- og tómstundamál og félagsmál.

Fleiri myndir frá fundinum! (Ekki mjög léttar!)

 

Aumur blettur í frístundamálum?    (29. nóvember 2006)
Þau eru merkileg viðbrögð sumra framsóknarmanna við litlu viðtali sem Fréttablaðið birti í gær við Dofra Hermannsson varaborgarfulltrúa og föður
barns á biðlista eftir plássi á frístundaheimili í Grafarvoginum.

Netmiðlaskríbentar flokksins hófu strax stórsókn eftir því sem mér er tjáð og foringinn í borgarstjórn svarar fyrir sig á tveimur stöðum í Fréttablaðinu í dag. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að sumir framsóknarmenn séu aumir fyrir ábendingum af því tagi að hundruð barna hafi verið á biðlista í haust. Það vill svo til að ástandið hefur verið verst í Grafarvoginum, en þar hefur Dofri og fleiri foreldrar verið ötulir í því að reyna að finna leiðir til að leysa úr og meðal annars tekið upp hugmynd sem áður hafði verið rætt um sem bráðabirgðalausn fyrir þá sem ekki þurfa fulla vistun. Dofri á skilið lof fyrir innlegg sitt í þeirri baráttu sem fulltrúar Samfylkingar áréttuðu í íþrótta- og tómstundaráði og skilaði sér m.a. í því að starfsmenn ÍTR fóru þessa leið. Fyrir vikið hefur m.a. tekist að vinna á biðlistanum.

Ég get alveg tekið undir það að það er ánægjulegt að nú í nóvember fór tala  þeirra barna sem eru á biðlista undir þá tölu sem var um svipað leiti í fyrra.
Fram að því var fjöldi barna á biðlista mun meiri. Vandi foreldra og barna sem
ekki fá umbeðin pláss getur verið talsverður. Fram hefur komið að þriðjungur
barna sem ekki hefur fengið vistun er einn heima sem ekki er gott. Það vita
allir í hverju vandinn liggur. Það vantar starfsfólk. Steinunn Valdís
Óskarsdóttir fyrrverandi borgarstjóri beitti sér fyrir launahækkun þessa
starfsfólks. Sú aðgerð hefur án efa haft talsvert að segja.

Það er hins vegar eftirtektarvert að sjálfstæðismenn hafast lítið að í ljósi
þess að fulltrúar þeirra í borgarstjórn fyrir ári fóru nánast hamförum yfir
stöðunni sem þá var í biðlistamálum og gáfu í skyn að það væri lítið mál að
eyða biðlistum, bara ef þeir fengju að stjórna. Reynslan sýnir nú annað ef
litið er á biðlista eftir plássum á dagheimili og frístundaheimili. Það er svo
athyglisvert út af fyrir sig að nýverið samþykktu framsóknarmenn og
sjálfstæðismenn hækkun á ýmsum gjöldum upp á 8,8%,  meðal annars fyrir
frístundaheimili. Þetta er meiri hækkun en mér sýnist hægt að réttlæta út frá
almennum verðlagsbreytingum. Það var reyndar athyglisvert að á síðasta fundi vissu fulltrúar meirihlutans í ÍTR ekki hvernig þessi tala væri til fundin.
Þetta væru einungis boð úr Ráðhúsinu. Og þau boð rýra kjör þeirra foreldra sem þurfa að borga. (Birt í Fréttablaðinu 29. nóvember 2006)

Aðalfundur Hverfafélags Samfylkingarinnar í Breiðholti þriðjudaginn 28. nóvember kl. 20.00 í Gerðubergi (27. nóvember 2006)
Aðalfundur Hverfafélags Samfylkingarinnar í Breiðholti verður haldinn þriðjudaginn 28. nóvember kl. 20.00 í menningarmiðstöðinni í Gerðubergi. Á fundinum fara fram venjuleg aðalfundarstörf. Þar verður fjallað um nýtt skipulag á starfsemi Samfylkingarinnar í borginni, borgarfulltrúar og þingmenn ræða um stjórnmálaviðhorfið og ný stjórn verður kjörin. Í núverandi stjórn eru Stefán Jóhann Stefánsson, formaður, Kristín Guðbjörnsdóttir, ritari, Áslaug Þórisdóttir, Gunnar Þórðarson og Gunnar H. Gunnarsson.

Þriðji flokkur karla hjá ÍR Haustmótsmeistarar (27. nóvember 2006)
Þriðji flokkur karla í knattspyrnu hjá ÍR stóð uppi sem sigurvegari á dögunum á Haustmóti Knattspyrnuráðs Reykjavíkur. ÍR-ingarnir lentu á móti Fram í úrslitaleiknum í Egilshöll 18. nóvember sl. og gerðu sér lítið fyrir og unnu þá með 7 mörkum gegn engu. Fram hóf þó leikinn af kappi fyrstu fimmtán mínúturnar, en eftir það réðu ÍR-ingar algjörlega ferðinni. Í fyrri leikhluta skoruðu ÍR-ingar tvö mörk og í þeim síðari fimm. Daníel Sæberg Hrólfsson skoraði þrjú markanna, en þeir Jóhann Ingi Hjaltason, Davíð Már Stefánsson, Sindri Snær Magnússon og Almar Þorleifsson eitt hver.

            Á myndinni af sigurliðinu eru í efstu röð frá vinstri: Arnar Þór Valsson, þjálfari, Daníel Sæberg Hrólfsson, Árni Indriðason, Elvar Snær Guðmundsson, Sindri Snær Magnússon, Gísli Karl Ingvarsson og Sævar Ingi Sigurðsson. Í miðröð eru Gent Hoda, Hlynur Þór Sigurðsson, Sigurður Þór Arnarson, Sigurður Rúnar Rúnarsson, Davíð Már Stefánsson, Robin Gurung, Jóhann Ingi Hjaltason og Almar Þorleifsson. Í fremstu röð eru markmennirnir Ásgeir Kári Ásgeirsson og Magnús Orri Erlingsson.

 

 

ÍTR samþykkti tillögu okkar um málefni innflytjenda (24. nóvember 2006)

Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs í morgun var tillaga okkar í Samfylkingunni og Vinstri grænna um málefni innflytjenda samþykkt samhljóða. Tillagan gengur út á það að tryggja að börn af erlendum uppruna geti til jafns á við önnur börn nýtt sér þá þjónustu sem ÍTR fjármagnar eða styrkir. Tillagan er flutt sem liður í því átaki sem Samfylkingin og Vinstri grænir vilja gera í málefnum innflytjenda og hefur sem grunn bæði mannréttindastefnu borgarinnar og starfsáætlun ÍTR í málefnum innflytjenda sem samþykkt var fyrir nokkru. Því ber að fagna að gott samkomulag er um þessi mál og er því treyst að fyrstu skrefin á grunni tillögunnar verði stigin ekki síðar en í upphafi næsta árs.


Gjaldskrárhækkanir á frístundaheimilum ekki vel rökstuddar (24. nóvember 2006)

Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs í morgun var til meðferðar tillaga um 8,8% meðalhækkun á gjaldi fyrir frístundaheimili og sundstaði. Ég spurðist fyrir um forsendur þessarar hækkunar og lítið varð um svör. Málinu var frestað á fundinum meðan leitað var svara og komu þá í ljós blöð sem ættuð voru úr Ráðhúsinu. Á þeim mátti sjá að gert var fyrir mun minni almennum verðhækkunum en þessum 8,8% Það er því annað sem liggur tillögunni um 8,8% hækkun til grundvallar en venjuleg hækkun á verðlagi. Við fulltrúar Samfylkingarinnar bentum á þetta og lýstum því jafnframt yfir að við gætum ekki fellt okkur við að kjör foreldra sem nýta sér þjónustu frístundaheimila væru skert með þessum hætti.
 

Eirarmálið óskiljanlegt (22. nóvember 2006)

Á fundi innkauparáðs Reykjavíkur í dag lagði ég fram nokkrar fyrirspurnir sem tengjast svokölluðu Eirarmáli. Eftir því sem ég skoða fleiri gögn tengd því máli finnst mér erfiðara að skilja þann flumbrugang sem borgarstjóri og hans fólk hafa sýnt í málinu. Borgarstjóri er formaður stjórnar Eirar, setur þetta í gang og fær framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins í starfshóp til að vinna að undirbúningi. Auk þess er arkitekt Eirar kallaður til. Þetta er fólk með reynslu af samstarfi í Eir og ber hag þess fyrir brjósti. Þegar málið er langt komið skýtur allt í einu menningarmiðstöð upp kollinum. Það er reyndar í sameiginlegri viljayfirlýsingu sem Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs skrifar undir af því að borgarstjóra var gert ljóst að óeðlilegt væri að hann væri sjálfur innsti koppur í vinnslu þessa máls. Jafnframt skrifaði framkvæmdastjóri Eirar líka undir ef ég get lesið skriftina rétt. Borgarstjóri og Eirarliðið leggur höfuðáherslu á að halda menningarmiðstöðinni inni í pakkanum. Hins vegar segir Björn Ingi það vera mistök - þótt hann og þrír aðrir hafi skrifað undir plaggið. Kannski Björn Ingi hafi áttað sig á þessu eftir að hafa lesið stofnsamþykkt Eirar þar sem segir að hjúkrunarheimilið eigi einungis að sinna hjúkrun aldraðra - en ekki reka bókasafn fyrir íbúa í Grafarvogi eða sinna eignaumsýslu sem óskyld er hjúkrunarmálum, auk þess sem þetta getur varla verið í samræmi við innkaupareglur.

Ég læt svo fylgja með hér bókun sem ég setti fram á fundinum í dag:

„Samkvæmt innkaupastefnu Reykjavíkurborgar segir að við innkaup skuli fylgja ákvæðum laga og reglna í hvívetna. Jafnræðis skuli gætt gagnvart þeim sem eiga viðskipti við borgina, stuðlað skuli að samkeppni varðandi kaup á vörum, verkum og þjónustu og að við innkaup Reykjavíkurborgar sé beitt útboðum að eins miklu leyti og unnt er og hagkvæmt þykir. Með þeim málatilbúnaði sem lesa má út úr sameiginlegri viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Eirar, hjúkrunarheimilis, um byggingu og rekstur þjónustu- og menningarmiðstöðvar og þjónustu- og öryggisíbúða, verður ekki annað séð en farið hafi verið á svig við öll meginstefnumál og viðmið í innkaupamálum borgarinnar með því að ætla að fela hjúkrunarheimilinu byggingu og rekstur menningarmiðstöðvar. Ef fela á hjúkrunarheimilinu að byggja menningarmiðstöð er ekki með nokkru móti hægt að tryggja að innkaupareglum borgarinnar verði fylgt. Það verður heldur ekki séð að samþykktir fyrir sjálfseignarstofnunina Eir, sem Reykjavíkurborg er aðili að,  heimili Eir að byggja og reka menningarmiðstöð , því í 2. grein skipulagsskrár fyrir stofnunina segir að markmið og hlutverk Eirar sé einungis að reisa og reka hjúkrunarheimili er veitir öldruðum umönnun og hjúkrun.“

 

Spilafíkn og spilasalur í óleyfi? (22. nóvember 2006)

Íbúar í Breiðholti eru ekki sáttir við spilasalinn sem áformað er að opna í Mjódd. Þeir hafa kannað hvort rétt sé að málum staðið og hvernig heimila megi starfsemina. Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekki tekist að ganga úr skugga um að starfsemin hafi leyfi frá byggingafulltrúa eða heilbrigðiseftirliti, sem þó er af yfirvöldum dómsmála sögð þurfa að gefa leyfi. Því er spurning hvort starfsemin verði í óleyfi?

Hér má í leiðinni benda á atriði úr skýrslu starfshóps um mat á þróun spilafíknar meðal ungs fólks í Reykajvík sem var kynnt í sumar. Þar kemur fram að hlutfall stráka í Reykjavík 16 ára og yngri sem spila oft í spilakössum í viku hverri er 4,9%, hlutfall 17 ára 5,7%, hlutfall 18 ára 3,3% og 19 ára 2,5%. Talið er að 1,5% 18 ára og eldri eigi í nokkrum erfiðleikum vegna spilafíknar. En þetta fólk lætur fé renna til Háskóla Íslands í gegnum spilakassana. Væri nú ekki ráð að Háskólinn og yfirvöld menntamála hættu þessari vitleysu?

Hverfisráð í Breiðholti gegn spilavíti en með skíðabrekku! (20. nóvember 2006)

Á fundi hverfisráðs Breiðholts í dag var fjallað um ýmis mál. Ráðið bókaði að mínu frumkvæði eftirfarandi:

a) Hverfisráð Breiðholts tekur undir áhyggjur fjölmargra íbúa í Breiðholti sem hafa mótmælt rekstri svokallaðs spilasalar á vegum Háskóla Íslands í Mjódd.  Ráðið telur slíka starfsemi ekki heppilega á þessum stað, hvorki fyrir verslunarmiðstöðina né hverfið í heild.  Þvert á móti er brýnt að haga málum þannig að verslunarrekstur verði tryggður í Mjóddinni og er í því sambandi afar brýnt að huga að framtíðarlausn í bílastæðamálum svæðisins.

b) Hverfisráð Breiðholts hvetur til þess að allt kapp verði lagt á að halda skíðabrekkunni við Jafnasel opinni meðan færi gefst því það er mikill áhugi meðal hverfisbúa og annarra fyrir því að nýta sér hana og mikil ánægja þegar hún er opin.

Á fundinum vöru einnig lögð fram svör við fyrirspurnum mínum um stöðu barna af erlendum uppruna í hverfinu. Í svörunum kom m.a. fram að fjöldi barnanna er talsverður og að aukinna aðgerða er þörf. Málið verður kynnt frekar í vikunni af starfshópi skólastjóra í hverfinu. Af þessu tilefni lýsti þó hverfisráðið þeirri skoðun sinni að upplýsingar frá Menntasviði og frá leikskólum og grunnskólum í Breiðholti sýni að börnum af erlendum uppruna sem þurfa sérstaka aðstoð hafi fjölgað talsvert hverfinu að undanförnu.  Skólar hafi brugðist við með sérstökum úrrræðum og væri ljóst að þar þyrfti að fylgja málum vel eftir.

Jafnframt voru á fundinum kynnt drög að tillögum um tilraunaverkefni til aukinnar þátttöku barna, m.a. af erlendum uppruna. Ákveðið var að vinna það verkefni áfram og leita liðsinnis íþróttafélaga í hverfinu.
 

Við Ölkelduháls (20. nóvember 2006)

Morgunblaðið birti þessa mynd af nokkrum varaborgarfulltrúum, þingmanni, varaþingmanni og fleirum sem fóru í kynnisferð með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í gær. Ég er þarna lengst til hægri, en við fórum þarna til að kynna okkur áform um virkjanir á svæðinu. Það sem sést í svona ferð eru talsverðar framkvæmdir Orkuveitunnar, rannsóknarboranir og áform um frekari virkjanir. Á svæðinu er fjöldi hvera af flestum gerðum og óttast fjallaleiðsögumenn að framkvæmdir á svæðinu geti skaðað svæðið og fyrirtæki í ferðaiðnaði sem fara þangað með túrista í dagsferðum. Skoðun mín eftir svona ferð er sú að það þurfi að fara varlega í frekari framkvæmdum og að á undanförnum árum hafi menn líklega farið fullgeyst. Þótt orkan sé sæmilega hrein þá veldur þetta rask sjónmengun, hávaðamengun og jafnvel brennisteinsmengun hér á höfuðborgarsvæðinu eftir því sem haldið er fram. Þess vegna er ástæða til að gæta vel að umhverfisþáttum í þessum framkvæmdum sem öðrum. Það væri einnig sorglegt ef hverasvæðinu þarna yrði spillt.

Íslenska er aðalmálið (17. nóvember 2006)

Við erum þessa dagana að feta nýja braut í þjóðfélagsumræðu. Viðfangsefnið er búseta útlendinga og afkomenda þeirra hér á landi. Umræðuefnið er þarft, enda hafa nokkrar breytingar átt sér stað og eðlilegt að ýmsir vilji tjá sig. Atvinnulífið hefur kallað á erlent vinnuafl á undanförnum misserum í stórum stíl og nú þarf að huga að nauðsynlegum aðbúnaði og aðlögun.


Aðlögun er lykilatriðið
Samfylkingin og Vinstri grænir í borgarstjórn hafa lagt fram framkvæmdaáætlun í innflytjendamálum. Þar kemur m.a. fram að aðlögun og barátta gegn fordómum og aðgreiningu sé mikilvægt samfélagslegt verkefni sem við verðum að takast á við. Reykjavíkurborg hefur sinnt þessum málum, m.a. með stuðningi við Alþjóðahús, aðgerðum í skólamálum og samþykkt mannréttindastefnu. Þar má þó ekki láta staðar numið.


Jöfn tækifæri fyrir öll börn
Það sem við viljum m.a. gera er að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra. Þetta er eitt mikilvægasta verkefnið. Nú hefur talsverður fjöldi barna í leikskólum og skólum annað móðurmál en íslensku. Á fáeinum misserum hefur fjölgun í þessum hópi verið talsverð. Þetta kallar á viðbrögð og hefur víða verið brugðist við með sérstökum aðgerðum, en þörf er á meiru. Það þarf ennfremur að styrkja þjónustumiðstöðvar í hverfum borgarinnar til þess að sinna innflytjendum, m.a. með námskeiðum og það þarf jafnframt að leita leiða áfram til að börn af erlendum uppruna njóti tómstunda- og íþróttastarfs til jafns við önnur börn. Þetta þarf að gera til að koma í veg fyrir aðgreiningu sem gæti orðið skaðleg samfélaginu síðar meir. Nú þegar hafa íþróttafélög og skólafólk undirbúið aðgerðir eða tillögur í þessum efnum.


Erlent vinnuafl bjargar málum
Það er vert að hafa í huga að atvinnulífið hér á landi hefur kallað erlenda starfsmenn hingað til starfa. Ólíkt því sem er víða í nágrannalöndunum eru innflytjendur hér flestir fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu og taka þannig þátt í verðmætasköpun og leggja sitt til opinberra sjóða. Flestir eiga sitt húsnæði eða leigja á frjálsum markaði. En þegar fjölgun innflytjenda er jafn mikil og raun ber vitni segir það sig sjálft að álagið eykst í leikskólum, skólum og á ýmsum vinnustöðum vegna tungumálaörðugleika. Þess vegna er íslenskan hér lykilatriði því hún er besta tækið til tjáskipta. Við verðum að bæta þar úr. Ella er hætt við að við tökum afleiðingunum eftir einhver ár eða áratugi með aukinni aðgreiningu á milli hópa og vanda sem því getur fylgt.
(Innskot: Þessi umræða á ekkert skylt við það sem sumir kalla hreintungustefnu, heldur er augunum hér fyrst og fremst beint að íslenskunni sem samskiptatæki.)

Sameiginlegt átak
Hér verða margir að leggja hönd á plóg. Við í Samfylkingu og VG munum á vettvangi borgarstjórnar leggja fram nýjar tillögur á næstunni á grunni áðurnefndrar framkvæmdaáætlunar. Ríkisstjórnin virðist vera að rumska, verkefnið er brýnt og við hvetjum fleiri til að leggja okkur lið.
 

Innkauparáð sniðgengið við umfjöllun um Eirarmálið (14. nóvember 2006)

Mér hefur verið neitað um að boðaður yrði fundur í innkauparáði til þess að ræða innkaupareglur í tengslum við svokallað Eirarmál. Slík neitun er ekki aðeins brot á reglum um nefndir og ráð borgarinnar heldur verður það að teljast mjög undarlegt að innkauparáð, sem er fagráð í þessu máli, skuli vera sniðgengið í þeirri umfjöllun sem nú á sér stað um viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og hjúkrunarheimilisins Eirar um byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða og menningarmiðstöðvar í Grafarvogi.

Samfylkingin hefur lagt fram fyrirspurnir um þetta mál í borgarráði. (Sjá hér - pdf-skjal með fundargerð) Fyrirspurnirnar eru m.a. um innkaupareglur borgarinnar og því ætti það að vera sjálfgefið að um fyrirspurnirnar verði fjallað í því fagráði sem tekur á þeim, nefnilega innkauparáði. Ég hafði gert ráð fyrir fundi í ráðinu á morgun, en þegar ég fékk þær upplýsingar í gær að ekki yrði fundur óskaði ég samdægurs eftir því að fundur yrði haldinn til að fara yfir Eirarmálið. Samkvæmt samþykkt fyrir innkauparáð ber að verða við óskum fulltrúa í ráðinu um fund og fundir skulu boðaðir með sólarhrings fyrirvara. (Sjá hér samþykkt fyrir innkauparáð - pdf-skjal)

Ástæða þess að rétt er að kalla saman innkauparáð er meðal annars sú að hér er um það stórar framkvæmdir að ræða, ekki bara bygging þjónustuíbúða fyrir aldraða, heldur einnig bygging menningarmiðstöðvar sem undirbúin hafði verið eftir öðrum leiðum. Það verður ekki annað séð en að sú bygging sé klárlega útboðsskyld.

Ástæður sem mér voru gefnar sem rök fyrir neitun um fund var fyrst sú að málið væri til umræðu í borgarráði og síðan var nefnd fjarvera aðalfulltrúa í ráðinu. Hvorug rökin halda að mínu mati. Innkauparáði ber sem fagráði að fjalla um málið og ef aðalfulltrúi er forfallaður er hægt að kalla til varafulltrúa. Slíkt er alsiða.

 

Sterkur listi fyrir kosningarnar í vor (12. nóvember 2006)

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í gær færir okkur sterkan lista fyrir kosningarnar í vor. Leiðtogar flokksins og þungaviktarfólk í pólitík er í efstu sætunum.

Það er jafnræði með kynjum og ungu þingmennirnir, Ágúst Ólafur og Helgi Hjörvar fá mjög góða kosningu. Fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík kemur inn á meðal þeirra átta efstu. Það að einungis einn nýr frambjóðandi nær sæti meðal átta efstu sýnir styrk sitjandi þingmanna. Þeir hafa staðið sig vel í störfum sínum á Alþingi og njóta trausts meðal kjósenda flokksins. Það verður eftirsjá að Guðrúnu Ögmundsdóttur. Hennar rödd þarf að heyrast, ef ekki á þingi, þá annars staðar svo eftir verði tekið. Aðrir frambjóðendur geta í raun vel við unað miðað við aðstæður.

Nú fer kosningaundirbúningurinn í fullan gang. Við söfnum liði og styrkjum okkur á alla lund, yddum málefnaáherslur og málflutning, stillum endanlegu framboðsliði upp á kosningavellinum og sækjum fram til sigurs í kosningunum í vor. Þar ætlum við okkur stóra hluti og sæti í ríkisstjórn að kosningum loknum.

 

Hvað er að gerast á þessum fundum? (12. nóvember 2006)

Fundargerðir í ráðum og nefndum borgarinnar eru stundum þannig að maður veit varla hvað hefur verið að gerast á fundunum. Þar kemur e.t.v. aðeins fram að eitthvert bréf frá tilteknum aðila hafi verið lagt fram, en lítið sagt um viðtökur bréfsins. Minnihlutinn hverju sinni hefur þau ráð að leggja fram tillögur eða bókanir til að lýsa vilja sýnum. Oft skilar það árangri, því mörg mál eru þannig að sæmileg sátt getur náðst um. Úr fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. nóvember 2006 má lesa eftirfarandi, en á þessum fundargerðum sést að Samfylkingin og Vinstri grænir eru mjög samstíga:

1.         Lagt fram bréf borgarráðs dags. 9. nóvember sl. þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið tillaga um frístundakort.
.....            Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

                        Það er mikilvægt að bæta aðgengi barna að íþrótta- og tómstundastarfi, auka fjölbreytni og jafna aðstöðu kynja og hópa.  Reykjavíkurborg hefur staðið myndarlega að uppbyggingu á ýmissi íþrótta- og tómstundaaðstöðu og stutt dyggilega við bakið á starfsemi fyrir börn og unglinga.  Lagður hefur verið grunnur að aukinni niðurgreiðslu á frístundaiðkun svo sem fram kemur í þriggja ára áætlun um fjármál borgarinnar.  Framkomin hugmynd um frístundakort er liður á þeim meiði sem bera að fagna sérstaklega þótt framkvæmd sé boðuð síðar en rætt hefur verið um opinberlega, enda þarf að vanda vel til verksins og hafa gott samráð við þá sem veita börnum og unglingum þjónustu af því tagi sem hér um ræðir.  Í þeirri útfærslu sem er eftir er mjög mikilvægt að hafa þau markmið í huga sem nefnd eru hér í upphafi.
 ........

2.         Lagt fram bréf skrifstofustjóra tómstundamála dags. 8. nóv. sl. vegna stöðu mála á frístundaheimilum, niðurstöðu könnunar meðal foreldra og breytingar á fyrirkomulagi vegna biðlista.

            Samþykkt að senda bréf til foreldra og kanna hvort þeir gætu komist af með hlutavistun. 

            Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

                        Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja þakka fyrir bréf skrifstofustjóra tómstundamála og þá sérstaklega hve fljótt brugðist var við tillögu okkar um könnun á gæslu barna sem eru á biðlista.  Niðurstaða könnunarinnar er að þriðjungur barnanna eru ein heima að skóla loknum, sem verður að teljast nokkurt áhyggjuefni.  Jafnframt kemur fram að hluti foreldra með börn á biðlista gæti nýtt sér hlutavistun.  Við hvetjum starfsfólk ÍTR áfram til að leita leiða í þessum anda til að leysa mál þeirra barna sem eru á biðlista, og lenda í vanda þegar frístundaheimila nýtur ekki við, og við hrósum um leið starfsfólkinu fyrir þrautseigju í vandasamri aðstöðu. 
......

10.       Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 8. nóv. sl. vegna framkvæmda á íþróttasvæði við Austurberg á næsta ári þar sem hafin verður bygging félagshúss og búningsaðstöðu ásamt öðrum framkvæmdum.

             Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

                        Það er mjög mikilvægt að aðstaðan fyrir Leikni verði bætt svo að hún verði sambærileg við aðstöðu annarra íþróttafélaga í borginni.  Núverandi félags- og búningsaðstaða er óviðunandi og mjög brýnt að sem fyrst verði úr því bætt svo að félagið geti betur sinnt því mikilvæga hlutverki að bjóða upp á íþróttaiðkun fyrir börn og ungmenni á félagssvæðinu.  Því hvetjum við til þess að sem fyrst verði hafist handa við að bæta aðstöðu fyrir félagið.

.......

13.       Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir því að þeir samstarfs- og þjónustusamningar sem ÍTR hefur gert og unnið er eftir verði kynntir í ráðinu nú í upphafi kjörtímabils.

......

14.       Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:

Samþykktir borgarstjórnar fela það í sér að framlögum til íþróttamála skuli

varið þannig að þau mismuni ekki kynjunum. Komið hefur fram að greiðslur KSÍ til afrekskvenna í knattspyrnu annars vegar og afrekskarla hins vegar eru með svo ólíkum hætti að ekki verður við unað. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hvetja KSÍ til þess að gera hér bragarbót á hið snarasta og hvetja jafnframt til þess að jafnréttismál verði ofarlega á blaði í samræðu ÍTR og KSÍ og á þingum íþróttahreyfingarinnar.

.....
 

Nú skiptir máli að fá sem flesta til að kjósa (10. nóvember 2006)

Það er dálítið skrýtin tilfinning að fylgjast með prófkjörinu á hliðarlínunni eftir að hafa verið sjálfur í atinu fyrir tæpu ári. Á morgun rennur stóri dagurinn upp en þá ætla ég að aðstoða flokkinn eftir mætti. Það þarf talsverðan mannskap til að vinna á kjörstað og í talningu og sjálfsagt verða frambjóðendur í því að fá fólk til að kjósa fram á síðustu stundu. Það skiptir miklu að þátttakan verði góð. Úrslitin í fyrstu sætin ætti að vera nokkuð ljós, en svo veit enginn hvað gerist, þótt nokkrum hafi verið spáð góðri útkomu. Það á enginn skilið laka útkomu, en við verðum að velja átta af fimmtán. Ég er nokkurn veginn búinn að gera upp hug minn. Við verðum að setja saman öflugan lista sem bæði höfðar til kjósenda og er ríkisstjórnarvænn því við ætlum í stjórn í vor. Þar skiptir samsetningin talsverðu máli.

Frambjóðendur hafa margir verið duglegir að bjóða fólki til sín sem hefur verið ágætt, því þá hittist fólk og hópurinn þéttist. Þá blómstrar sköpunargleðin í  heimasíðugerð. Það er því talsvert sem fólk leggur á sig í þessari baráttu. Ég hef reynt að mæta eftir föngum til frambjóðenda og fór til Össurar í hádeginu á Sólon og til Steinunnar á Iðu síðdegis. Allir frambjóðendur draga fólk til sín og flokksins og það er gott. Svo þurfa allir að skila sér og sínum á morgun.

 

Spilavíti í Mjódd og bókanapuð í íþrótta- og tómstundaráði (10. nóvember 2006)

Góður félagi minn og fyrrum nágranni, Helgi Kristófersson, formaður íbúasamtakanna í Breiðholti, skrifaði hressilega grein í Morgunblaðið í dag eins og hans var von og vísa. Þar skammaðist hann út í Háskóla Íslands fyrir að ætla að reka tækjasal (spilavíti) í Mjódd, en slíkir salir hafa fé af mörgum sem eru veikir fyrir spilum og spila frá sér ráð, fé og rænu. Nú ætlar Háskólinn, eða aðilar honum tengdir, sem sagt að koma upp spilasal í Mjódd í Breiðholti, en við því hafa íbúar brugðist með mótmælum. Helgi fer þar fremstur í flokki, og kemur ekki á óvart, því honum er annt um hverfið sitt og hann hefur verið í forsvari fyrir foreldrasamtök hér síðasta áratuginn eða svo. Það lá því beinast við að gera hann að formanni í nýstofnuðum íbúasamtökum sem heita því fína nafni Betra Breiðholt. Stöð 2 gerði svo spilavítismálinu ágæt skil í kvöld.

Íbúarnir hér skilja ekki margir hverjir að þessi starfsemi skuli leyfð. Það kom flestum ef ekki öllum á óvart þegar fréttist af áformum um að koma spilasalnum fyrir og eðlilegt að fólk spyrji hver hafi gefið leyfi fyrir slíku. Sjálfur hef ég grennslast fyrir um þetta, enda kom mér það á óvart þegar ég frétti af þessu. Óvandaðir sjálfstæðismenn hafa reynt að halda því að fólki að R-listinn hafi leyft þetta, en eftirgrennslan mín og fleir hefur leitt í ljóst að það virðist ekki þurfa neitt sérstakt leyfi frá borgaryfirvöldum fyrir þessari starfsemi. Hún virðist einfaldlega leyfð samkvæmt reglugerð dómsmálaráðuneytis sem byggir á lögum um happdrætti.

Íbúarnir hafa þó ekki sagt sitt síðasta. Ekki heldur pólitískt kjörnir fulltrúar í Breiðholti, að minnsta kosti í hverfisráðinu, en þar virðist vera góð sátt um að þessi starfsemi sé ekki æskileg. Nú er það bara spurningin hvort hinir Breiðholtsbúarnir í meirihlutanum, Óskar Bergsson, Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. styðji nágranna sína í þessum slag!

 

Hér í lokin get ég svo nefnt að í dag var haldinn fundur í íþrótta- og tómstundaráði, en þar sitjum við Sigrún Elsa Smáradóttir fyrir Samfylkinguna og eigum ágæta samvinnu við Þorleif Gunnlaugsson úr Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Í dag var meðal annars fjallað um stöðuna á frístundaheimilinum, en um 100 börn eru enn á biðlista og flest í Grafarvogi. Starfsmenn ÍTR sýna ótrúlega þrautseigju í að leysa úr málum og ýmsir félagar okkar hafa verið duglegir við að koma með ábendir og tillögur. Hins vegar er hegðun sjálfstæðismanna í hrópandi mótsögn við hávært vandlætingartal þeirra fyrir ári síðan þegar þeir létu eins og það ætti ekki að vera neitt mál að leysa úr biðlistavandanum. Sjálfstæðismenn hafa ekkert frumkvæði sýnt í málnu það sem af er þessu ári. Það eina raunhæfa sem gerst hefur er launahækkun sú sem Steinunn Valdís beitti sér fyrir, ótal ábendingar forsvarsmanna Félags einstæðra foreldra og ábendingar félaga úr Samfylkingunni, auk þess  sem starfsmenn ÍTR eru sífellt að reyna að leita lausna. Ein er sú, sem komið hefur upp úr samræðu Samfylkingar og ÍTR, að kanna hvort hluti barna þurfi einungis hlutavistun. Það væri aðeins bráðabirgðaúrræði - en gæti skapað pláss fyrir nokkurn fjölda. Hér gildir að vera opinn fyrir lausnum, lausnum sem stuðla að bættri aðstöðu fyrir börnin.

 

Borgin lætur sig varða hag allra borgarbúa (6. nóvember 2006)

Hún er undarleg og um leið dálítið uggvænleg umræðan sem upp á síðkastið hefur átt sér stað um stöðu innflytjenda hér á landi. Það er sjálfsagt að ræða þjóðfélagsþróun af þessu tagi eins og aðra þætti í þróun þjóðfélagsins, en það verður að gera með hliðsjón af haldgóðum gögnum og af yfirvegun.

Jafnræði og jöfnuður skiptir máli
Þegar ég varð þess áskynja í vor hversu mikil breyting hefði átt sér stað í einum af skólum borgarinnar hvað fjölda innflytjendabarna varðaði sá ég í hendi mér að við því yrði að bregðast. Það þyrfti ekki aðeins að styrkja skólann til að sinna hlutverki sínu fyrir bæði nýja og „gamla“ nemendur, heldur þyrfti að grípa til ráðstafana til þess að styrkja færni foreldranna í íslensku og auðvelda þessum fjölskyldum jafnframt að gerast virkir þátttakendur í félagslífi, menningarlífi og íþrótta- og tómstundastarfi.

Til einhverra viðbragða var gripið strax sl. vetur af þáverandi menntaráði. Skólinn hefur fengið aukin framlög og lagður var grunnur að því að styrkja Þjónustumiðstöð í viðkomandi hverfi til þess að sinna þessum málaflokki. Nú þarf að fylgja því eftir að efla Þjónustumiðstöðvarnar að þessu leyti, en það hefur vakið eftirtekt mína hversu mikil ánægja ríkir um starfsemi þjónustumiðstöðvanna meðal skólafólks og fleiri.  

Upplýsingum safnað
Samfélagið tekur þróun og við þurfum að hafa sem bestar upplýsingar um það sem er að gerast. Þess vegna hef ég á fundum hverfisráðs Breiðholts óskað eftir því að ýmsum spurningum verði svarað af stofnunum borgarinnar. Á fundi ráðsins 8. október sl. óskaði ég m.a. eftir því að aflað yrði gagna um fjölda barna innflytjenda í skólum, leikskólum, á frístundaheimilum, um þátttöku þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi og um þátttöku þessa hóps í foreldrastarfi. Markmiðið er að fá fram hvort rétt sé sem kunnugir hafa haldið fram að tilteknir hópar séu að einangrast í samfélaginu. Það væri slæmt ef það gerðist og það er í þágu allra að vinna gegn því. Sjónarmið Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félagsfræði, í Kastljósinu í kvöld voru athyglisverð að þessu leyti.  

Vinnum saman í þessum málum
Það verður að ræða þessi mál af stillingu, en það verður að skoða þau og ræða. Við verðum að vera minnug þess að atvinnurekendur hafa kallað eftir starfsfólki erlendis frá. Þetta fólk greiðir sína skatta, kaupir sér eða leigir húsnæði og kemur sér fyrir (ég vona að það séu ekki margir sem búa í bílum eins og iðnaðarverkamenn nokkrir virtust gera sem ég varð var við í sumar). Erlent vinnuafl hefur í mörgum tilfellum bjargað atvinnulífi í heilum byggðarlögum. Atvinnurekendur líta kannski fyrst og fremst á innflytjendur sem vinnuafl, en sveitarfélög og opinberir aðilar verða að skoða málin í víðara samhengi því þetta vinnuafl er fólk af holdi og blóði, með sömu þarfir og tilfinningar og aðrir. Það má heldur ekki gleyma því að það fylgir því talsvert átak og erfiði að flytjast á milli landa og taka upp búsetu á framandi stað. Ég þekki það sjálfur eftir að hafa búið erlendis.

Í nefndum og ráðum borgarinnar höfum við leitað eftir upplýsingum um þróun þessa málaflokks og það virðist vera þverpólitískur vilji til að bæta úr eftir föngum. Ég vona að allir íbúar séu því sammála, því að aðeins þannig getum við gert borgina okkar betri fyrir alla. Lykilatriðið í þessu að mínu mati og fleiri er að gera skólunum kleift að taka á móti innflytjendabörnum, að efla íslenskukennslu og að auka getu Þjónustumiðstöðvanna í hverfum borgarinnar til að sinna þessum málaflokki. Látum það gerast!
(Grein á sama grunni birt í Breiðholtsblaðinu 15. nóvember 2007)

 

Prófkjörsvinnan komin í fullan gang (28. október 2006)

Nú má segja að prófkjörsbaráttan og prófkjörsvinnan hjá Samfylkingunni sé komin í fullan gang. Fimmtán einstaklingar hafa stigið það virðingarverða skref að gefa kost á sér fyrir Samfylkinguna. Við eigum að velja í átta sæti svo valið getur orðið erfitt. Þingmennirnir hafa staðið sig vel og dugmikið hæfileikafólk gefur einnig kost á sér. Helst vildi ég sjá alla þessa einstaklinga á þingi fyrir Samfylkinguna. Þá yrði nú fjör og gaman að vera í Samfylkingunni í Reykjavík! Aðatriðið nú er að við virkjum fólk til þátttöku og gerum þetta að glæsilegu prófkjöri.

Frambjóðendur og þeirra stuðningsfólk er nú á fullu að vinna í sínum málum, s.s. með því að bjóða í kaffi, kynningu og opnun skrifstofu. Guðrún Ögmundsdóttir bauð fólki til sín í Alþjóðahúsið í dag og Helgi Hjörvar býður fólki til sín í gamla Landssímahúsið á morgun.

En ekkert af þessi gengi almennilega upp ef ekki kæmu til vinnufúsar hendur almennra flokksmanna, - sumir myndu vilja kalla þá flokkshesta eða jafnvel flokksgæðinga, - en þetta er fólkið „á bak við tjöldin“ sem vinnur verkin á óeigingjarnan hátt í kyrrþey. Hluti þessa úrvalsfólks vann við það í morgun á skrifstofum flokksins á Hallveigarstíg að koma kosningaefni í póst til flokksmanna. Án þessa hóps væri ekkert prófkjör. Svo mikið er víst.
 


Lengri laugardaga fyrir prófkjörsplott og ópólitískt príl!
(21. og 22. október 2006)

Laugardagar mættu stundum vera lengri. Eins og í gær. Frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar voru að hefja baráttuna með því að opna kosningaskrifstofur eða bjóða til veislu, strákarnir mínir voru að keppa í fótbolta í skólamóti knattspyrnuráðs Reykjavíkur og við vinnufélagarnir vorum búnir að ákveða að fara í labbitúr upp á eitt minnsta fjallið í nágrenni borgarinnar, Búrfell, sem er sunnan Heiðmerkur og ofan Hafnarfjarðar.

Í sönnum bloggstílsanda segi ég frá því að dagurinn hófst á því að ég skutlaði yngsta stráknum upp í Egilshöll fyrir klukkan 9 og horfði á fyrsta leik Breiðholtsskólapiltanna (ÍR) þegar þeir unnu Hagaskólapilta (KR) með þremur mörkum gegn tveimur og skoraði guttinn minn tvö mörk og Robin félagi hans frá Nepal eitt. Sætur sigur þar. Þeir unnu alla leikina í gær og úrslitin verða í dag. (Þeir unnu síðan alla leikina á sunnudeginum og eru því grunnskólameistarar Reykjavíkur í ár - sjá myndir hér).Það fór á svipaðan veg hjá miðstráknum mínum og félögum hans í MS. Ekki veit ég hvort það sé þess vegna sem úrvalsdeildarlið er á höttunum eftir honum!

Veðrið var kjörið til útivistar - og því ekki hægt að svíkja vinnufélagana, konuna og hundinn um góðan göngutúr! Við ókum fram hjá Vífilsstöðum og suður fyrir Vífilsstaðavatn að Hallsenda þar sem gangan hófst fram hjá gömlum seljarústum og eftir Búrfellsgjánni sem er sögð vera ein fallegasta hrauntröðin á landinu með háum hamraveggjum á köflum. Merkilegt að ég skuli ekki hafa komið þarna fyrr, því þetta er mjög sérstök en um leið þægileg gönguleið. Sjálft Búrfellið er nokkuð stór gígur og er hægt að ganga ofan í hann eða á börmum hans og er þar útsýni gott til allra átta. Þetta er aðeins tveggja tíma ganga en hægt að bæta við leiðum á nokkra vegu þarna. (Sjá m.a. tengingu hér.)

Gangan lengdist aðeins vegna skoðunar á hellum og fleiru góðgæti í landslaginu og því missti ég því miður af veislunni hennar Steinunnar Valdísar sem hún hélt í félagsheimili Þróttar tilefni af prófkjörinu hjá Samfylkingunni. En ég náði að mæta hjá Ástu R., en hún er með skrifstofu í Bankastræti 11. Ég missti reyndar af mesta fjörinu, en náði þó að hitta þau hjón, Einar og Ástu, og spjalla við nokkra eldheita áhugamenn um pólitík um það sem efst er á baugi þessa dagana. Það var líka margt um manninn hjá Ágústi Ólafi sem opnaði skrifstofu sína í Síðumúlanum á föstudaginn. Það er því margt að gerast og spennandi tímar framundan í pólitík og þjóðmálum. Meira um það síðar.  (sjá fleiri myndir)

Betra Breiðholt (19. október 2006)

Það fer vel á því að Þjónustumiðstöð Breiðholts hefur hafið átak undir kjörorðinu Betra Breiðholt, enda var það eitt af markmiðunum með stofnun þjónustumiðstöðvanna fyrir rúmu ári að bæta þjónustu og mannlíf í hverfum borgarinnar. Liður í þessu er Breiðholtsdagurinn, sem er nýafstaðinn með góðri þátttöku fólks á öllum aldri og endurspeglar hann þann mikla félagsauð sem í hverfinu býr. Það hefur sýnt sig að íbúar eru mjög ánægðir með starfsemi Þjónustumiðstöðvarinnar. 

Hverfisráðið er vettvangur fyrir íbúana
Nýkjörið hverfisráð er tekið til starfa og má binda miklar vonir að það verði vettvangur fyrir umræðu á meðal hverfisbúa og farvegur fyrir óskir þeirra til borgarinnar, m.a. um bætta aðstöðu og þjónustu.. Ráðið er skipað þremur fulltrúum sem kjörnir eru af borgarstjórn. Hér í Breiðholti hefur skort almenn íbúasamtök og það var því einkar ánægjulegt þegar þau voru stofnuð í haust og má búast við því að náið samstarf takist með þeim og hverfisráðinu.

Á fundum hverfisráðsins undanfarið hefur verið fjallað um ýmis mál, svo sem sjá má í fundargerðum (á www.rvk.is). Rætt hefur verið við skólastjórnendur, lögreglu og stjórnendur hverfisbækistöðvar og viðræður við leikskólastjórnendur og fleiri eru á dagskrá. Ráðið fær til umsagnar áformaðar skipulagsbreytingar í hverfinu og á síðasta fundi ráðsins tók það undir áhyggjur íbúa um aukna umferð vegna áformaðra nýbygginga nálægt Seljaskóla. Ráðið fagnaði á hinn bóginn skipulagsbreytingum sem ætlað er að bæta aðstöðu íþróttafélagsins Leiknis.  

Íþróttaaðstaðan fer batnandi
Það er ánægjulegt að sjá aðstöðuna batna hjá íþróttafélögum í hverfinu, eins og gervigrasvöllurinn hjá ÍR er dæmi um. Það er framkvæmd sem Reykjavíkurlistinn stendur fyrir, auk þess sem hann setti 800 milljónir króna til íþróttahúss fyrir ÍR á þriggja ára áætlun og 100 milljónir króna í niðurgreiðslu á æfingagjöldum og þátttökugjöldum til íþróttafélaga og annars tómstundastarfs. Nýjar hugmyndir um skipulag á ÍR-svæðinu eru einnig spennandi fyrir félagið, en það fagnar 100 ára afmæli á næsta ári.

Megn andstaða gegn spilasal í Mjódd
Þegar margt jákvætt er í gangi vekur sérstaka eftirtekt að margir íbúar hverfisins eru sáróánægðir með áform um að koma fyrir svokölluðum spilasal í Mjódd. Það virðist fátt geta hindrað þetta, nema ef vera kynni samstaða íbúa, en hafin hefur verið undirskriftasöfnun meðal íbúa gegn þessu. Það er ótrúlegt að Háskóli Íslands, og ýmsir sem annars vilja stuðla að jákvæðri uppbyggingu í samfélaginu skuli enn treysta á tekjur frá svona starfsemi. Af þessu tilefni hef ég óskað eftir því að kynntar verði upplýsingar um fjölda spilafíkla sem leitað hafa sér aðstoðar í borginni á undanförnum árum.  

Skólarnir eru lykilstofnanir samfélagsins
Á þeim fundum sem haldnir hafa verið hér í hverfinu í haust hef ég skynjað enn betur en áður mikilvægi grunnskólanna og leikskólanna í hverfinu. Þeir eru ekki bara menntastofnanir, heldur eru þeir einnig farvegur fyrir alla þá félagslegu strauma sem liðast um samfélagið. Það frumkvæði sem skólarnir hafa sýnt í því að ýta undir foreldrastarf verður seint ofmetið. Starf af því tagi, hvort heldur er í svokölluðu foreldrarölti til að hafa eftirlit með unglingunum, eða starf foreldra hjá íþróttafélögunum og öðrum félögum eru eru einnig stór partur af þeim jákvæða félagsauði sem í hverfinu býr. Það er því margt jákvætt í gangi hér í hverfinu og mikilvægt að íbúarnir vinni stöðugt að því með borgaryfirvöldum að gera gott Breiðholt enn betra.

 

 

Berlín hefur að geyma ótrúlega sögu (14. október 2006)

Ég átti þess kost að heimsækja Berlínarborg í vikunni. Ég fékk góða leiðsögn um borgina og gekk í heilan dag um stræti og torg sem höfðu mörg hver að geyma merka viðburði í sögu Evrópu. Margir af fremstu hugsuðum síðustu alda hafa átt viðkomu í Berlín og þar hafa líka mörg af myrkustu verkum mannsandans verið undirbúin eða litið dagsins ljós. Á einum degi skynjar maður ok sögunnar og þá einkum þau þyngsli sem á hinni þýsku þjóð hvíla vegna óhæfuverka nasista og alræðiskomma. Margir vilja sjálfsagt gleyma þýskum harðstjórnum, en aðrir geta ekki gleymt og leggja sig fram um að minnast þeirra sem féllu.

Berlínarbúar minnast harðstjóranna
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ég heimsótti Berlín fyrst hefur

Harðir kossar höfðingjanna Minningarreitur um fallna gyðinga í Berlín

 minnisreitum og söguskiltum um sögu Austur-þýska alþýðulýðveldisins fjölgað. Þessi saga er nálæg í tíma og því ofarlega í huga margra. Einvers staðar sá ég að um 150 hefðu látist á flótta til Vestur-Berlínar, þar af margir sem voru skotnir á sundi yfir ána Spree. Samt virðast margir sjá tímabil alþýðulýðveldisins í hyllingum, því þá hafi lífið um margt verið auðveldara í samanburði við það sem gerist í dag. Þetta kom mér nokkuð á óvart, en er sjálfsagt skiljanlegt þegar málin eru krufin til mergjar. Grímulaus samkeppni og einstaklingshyggja kapítalismans hefur líka sínar skuggahliðar og er mikið atvinnuleysi ein þeirra. Sjálfsagt á þar einnig tregbreytanlegt skipulag evrópsks atvinnulífs hlut að máli.

Voðaverk nasismans eru fólki einnig ofarlega í huga þótt lengri tími sé liðinn frá því að herir nasista fóru um með eldi eyðileggingar meðal landa og þjóða. Það er samt eins og Berlínarbúar vilji helst gleyma þeim hildarleik sem þýska þjóðin upplifði fyrir rúmri hálfri öld. Þannig er ekki auðvelt fyrri ókunnuga að finna staðinn þar sem Hitler hélt til með hyski sínu síðustu daga sína í byrgi langt undir yfirborði jarðar. Steinsteypt þak byrgisins var fjórir metrar að þykkt og veggirnir þrír og hálfur metri. Ekkert var sparað til að tryggja öryggi foringjans! Það var því enginn hægðarleikur að eyða byrginu, þótt það virðist hafa tekist að loknum miklum borunum og sprengingum. Svo var mokað yfir óhæfuna og nú er þar bílastæði við blokkaríbúðir.

Framkvæmdir enn á fullu
Framkvæmdir í Berlín hafa verið ótrúlega miklar á síðustu árum. Heilu hverfin hafa verið byggð upp, s.s. Potsdamer plats með nýtískulegum stórhýsum sem rýma m.a. skrifstofur stórfyrirtækja. Á vissum svæðum í austurhluta borgarinnar voru allar götur upp rifnar, borgarbúum til nokkurs ama. Mér skildist að framkvæmdamenn vildu klára framkvæmdir áður en frosthörkur vetrarins gengu í garð. Þannig var umhorfs við Alexanderplats, sem hýsir stolt alþýðulýðveldisins, gríðarháan sjónvarpsturn, sem verkfræðingar sósíalista gátu þó ekki klárað án þess að fá hjálp frá kollegum sínum í Svíþjóð, en mér skilst að skjöl hafi fundist um það nýlega.

Nokkur fjölgun virðist hafa átt sér stað í Berlín sem er næst fjölmennasta borg Evrópu með þrjár og hálfa milljón íbúa. Svæðið umhverfis borgina er hins vegar ekki jafn fjölmennt og t.d. hjá London eða Madríd.

Listamönnum gefinn laus taumur Marx og Engels horfa á stolt alþýðunnar
Ný stjórnarbygging Þinghúsið í endurnýjun lífdaga....

Borg lystisemda og lista...
Nú virðist frelsi og frjó hugsun fá að njóta sín í Berlín. Í vissum hverfum hafa listamenn og fræðimenn af ýmsu tagi tekið sér bólfestu. Þar á meðal eru nokkrir Íslendingar. Andrúmsloftið er fremur afslappað að því er virðist og laust við þá ímynd sem maður hefur af agaþrunginni þýskri þjóð. Samt ríkir agi undir niðri, ekki minnst sjálfsagi, sem sjálfsagt má ýmislegt læra af. Á göngu um borgina tekur maður eftir því að hjólreiðafólk hefur sinn ríka rétt þarna. Og umferðarreglur virðast almennt sæmilega virtar!

Sagt er að sagan endurtaki sig. Það er þó vonandi að Þjóðverjar, Evrópubúar og heimsbyggðin öll geti lært af hörmungum þeim sem átt hafa sér rætur m.a. í Berlín. Mannkynið á ekki að þurfa að upplifa kúgun og harðræði. Það krefst þess þó að við þekkjum söguna og getum greint merki um það þegar þjóðfélagsþróunin er komin á hættulega braut. Til þess þarf þó ekki bara þekkingu og innsæi, heldur ekki hvað síst hugrekki til að standa upp og segja sína skoðun. Því fylgir áhætta - og fólk þarf að þekkja sinn vitjunartíma.

 

Öflugir frambjóðendur fyrir Samfylkinguna - lofa góðu um framtíð jafnaðarstefnu á Íslandi (8. október 2006)

Nú er að skýrast hvaða fólk gefur kost á sér í prófkjörum Samfylkingarinnar fyrir komandi þingkosningar. Framboðsfrestur er runninn út alls staðar nema í Reykjavík. Ljóst er að sums staðar verða breytingar þar sem nokkrir sitjandi þingmenn hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur. Auk þess hafa margir nýir frambjóðendur gefið kost á sér svo það stefnir í spennandi prófkjör víða. Hér í nágrenninu, í suðvestrinu, gáfu 19 kost á sér. Í þeim hópi eru þekktir einstaklingar innan hreyfingarinnar og svo aðrir sem eru minna þekktir utan kjördæmisins. Í öllu falli stefnir í mjög efnilegan lista í „kraganum“.

Hér í Reykjavík rennur framboðsfrestur út 21. október, en nú þegar virðist ljóst að 13 gefa kost á sér og vafalítið eiga einhverjir eftir að bætast við. Það verður ekki auðvelt fyrir marga að raða á listann. Þingmenn flokksins í Reykjavík hafa allir staðið sig með prýði og sinnt sínum málaflokkum af kostgæfni. Það er því engin ástæða til þess að hafna þeim. Þeir eiga þó sæti sín ekki vís fremur en aðrir. Víst er að fyrrverandi borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, mun blanda sér í slaginn um efri  hluta listans. Eins er líklegt að framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, eigi möguleika á góðri útkomu. Þá er góður liðsauki í frambjóðendum eins og Valgerði Bjarnadóttur, sem hefur mikla reynslu úr heilbrigðiskerfinu og Kristrúnu Heimisdóttur, sem hefur starfað fyrir Samtök iðnaðarins og sinnt ýmsum verkum fyrir Samfylkinguna.

Þá er ótalin Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir sem gefur kost á sér í prófkjörinu, en hún hefur undanfarið unnið talsvert í flokksstarfinu og sinnt jafnréttismálum og mannréttindamálum í Reykjavík. Bryndís reið á vaðið í gær með því að opna kosningaskrifstofu og sýnir með því að henni er full alvara enda vel að verki staðið. Það er ekki ólíklegt að Bryndís muni ná langt á hinum pólitíska átakavelli.

Svo er bara að sjá hvaða frambjóðendur eiga eftir að bætast í hópinn. En ljóst er að baráttan er byrjuð að fulllu þótt allt sé að sjálfsögðu á hófstemmdum nótum.

Prófkjörsbaráttan hafin - netkosning og hefðbundin kosning (5. október 2006)

Í kvöld ákvað Samfylkingin í Reykjavík hvernig prófkjör fer fram vegna vals á lista flokksins fyrir Alþingiskosningar næsta vor. Fulltrúaráðið í Reykjavík ákvað þá að leyfð skyldi netkosning samhliða hefðbundinni kjörfundarkosningu. Með þessu sýnir Samfylkingin að hún fylgir eftir samþykktri stefnumörkun sinni um að nýta kosti nettækninnar þar sem því verður við komið. Það hafa verið skiptar skoðanir um að leyfa netkosningu samhliða kjörfundarkosningu, en flestir virtust þó vera að sætta sig við að rétt væri að nota þessa aðferð til þess meðal annars að draga úr kostnaði við prófkjör og gefa jafnframt fleirum kost á því að taka þátt. Miðað við þekkta tækni og aðferðir á þetta að vera öruggt og langtum betri aðferð en t.d. Flórídaaðferðin margfræga svo nokkuð sé nefnt.

Stöðugt fleiri gefa kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar og er því ljóst að það verður úr góðum hópi að velja. Við munum eiga lið sem getur mannað allar stöður hvar sem er á hinum pólitíska velli. Samfylkingin er því að leggja upp í skemmtilega ferð til næstu kosninga sem mun leggja grunn að því að okkar fólk taki við stjórnartaumum í vor.

Börnin sem komast ekki á frístundaheimilin -
 - og jarðýtuflokkarnir ....
(3. október 2006)

Á borgarstjórnarfundinum í gær talaði ég um þau börn sem bíða eftir því að komast á frístundaheimilin í borginni. Þau börn og fjölskyldur þeirra eru í erfiðri aðstöðu. Í síðasta mánuði voru þetta um fimm hundruð börn, en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá starfsmönnum ÍTR voru þau í þessari viku um 255. Ég minnti á málflutning sjálfstæðismanna fyrir ári síðan. Þá sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi: „Þetta á ekki að geta gerst í stærsta sveitarfélagi landsins að mörg hundruð börn njóti ekki þeirrar þjónustu sem þau eiga að njóta. ... [og menn áttu]fyrir löngu að vera búnir að setja sér einhverja áætlun, einhver markmið, einhverja hluti til þess að tryggja það að svona færi ekki..“

Hvernig stendur á því að Hanna Birna er ekki búin að leysa málið fyrst hún telur það svo auðleysanlegt? Guðrún Ebba Ólafsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi tók í sama streng á borgarstjórnarfundi fyrir ári, er hún sagði: „Já það er ekki glæsilegt umhverfi sem við bjóðum reykvískum börnum og fjölskyldum þeirra þetta haustið .." Gísli Margeinn fór svipuðum orðum um málið í blaðagrein fyrir prófkjör sjálfstæðismanna og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagðist vilja borg án biðlista.

En hvað hefur gerst? Að mati sjálfstæðismanna var lítið mál að leysa þetta. Hvers vegna hafa þeir þá ekki kippt þessu öllu í liðinn. Af hverju þegja þeir um ástandið núna? Það varð heldur fátt um svör hjá sjálfstæðismönnum á borgarstjórnarfundinum í gær og það var sérkennilegt að heyra núverandi formann íþrótta- og tómstundaráðs, Björn Inga Hrafnsson, gera lítið úr verkum flokkssystur sinnar úr Framsóknarflokknum, Önnu Kristinsdóttur, sem að mínu mati stóð sig prýðisvel sem formaður ÍTR. Þegar svo á það var minnt að það eina raunhæfa sem gert hefur verið í þessum málum til að fjölga starfsfólki var sú aðgerð Reykjavíkurlistans að hækka laun þeirra starfsstétta sem hér um ræðir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, borgarstjóra, í fararbroddi, þá þögnuðu bæði sjálfstæðismenn og hin hjáróma rödd dvergflokksins í borgarstjórninni, Framsóknarflokksins, sem er langminnstur allra, rétt hálfdrættingur á við Frjálslynda.

En Framsókn á oft greiða leið í stjórn, skítt með úrslit kosninga, eins og síðustu borgarstjórnarkosningar sýna. Í þeim flokki hafa þau öfl náð yfirhöndinni sem eru vön að sitja í skjóli Sjáfstæðisflokksins og beita valdi sínu óhikað. Það kom berlega í ljós á fundinum í gær þegar tillagan um skoðun á vatnshæð Hálslóns var afgreidd. Sú tillaga snertir mesta og heitasta deilumál á Íslandi í dag. Málið er komið í þann farveg að það er mikilvægt að reyna að finna leiðir til að skapa sátt um framvindu mála. Því var tillagan fram komin - og þess vegna hefði verið sjálfsagt að láta fara fram faglega skoðun á þessari tillögu sem Ólafur F. Magnússon flutti. En nei! framsóknar- og sjálfstæðisjarðýturnar tóku slíkt ekki í mál og hindruðu alla frekari umræðu með því að vísa málinu frá með nánast dólgslegum hætti. Það þótti mér fremur sorglegt. 

Netkosning eða ekki? (2. október 2006)

Á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á laugardag var farið yfir ýmsa þætti varðandi mögulega netkosningu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Skoðanir eru skiptar um það hvort heimila skuli netkosningu. Ýmsir sjá í þessari aðferð mikla möguleika fyrir flokkinn, en aðrir sjá þessu ýmislegt til foráttu, bæði skort á öryggi (hættu á svindli) og misjafnt aðgengi hinna ýmsu hópa að þessari aðferð. Hluti fundarmanna:
Sjálfur er ég sannfærður um að það er tæknilega mögulegt að leyfa flokksmönnum að kjósa á netinu og að það þurfi ekki að vera minna öryggi í því en í póstkosningu. Danskir jafnaðarmenn kusu sinn formann í netkosningu meðal annars. Þá má ætla að netkosning gæti dregið verulega úr kostnaði við framkvæmd prófkjörsins. Jafnræði verður varla skert því hugmyndin er sú að eftir sem áður verði hægt að kjósa á kjörstað. Hins vegar eru einhverjar líkur á að netkosning myndi breyta hlutfallslegri þátttöku tiltekinna hópa. Þannig má fastlega búast við að þátttaka yngra fólks og þeirra sem sitja reglulega fyrir framan tölvur geti aukist. Slíkt gæti auðvitað breytt röðun frambjóðenda í prófkjörinu í sæti. Í öllu falli er ljóst að það er ekki full sátt um að innleiða þessa nýjung, þ.e. netkosningu, en ákvörðun verður tekin um þetta á fundi fulltrúaráðsins í Reykjavík næstkomandi fimmtudag.

 

Breiðholtsdagurinn 2006 (2. október 2006)

Breiðholtsdagurinn var haldinn hátíðlegur í göngugötunni í Mjódd sl. laugardag. Það var starfsfólk í Þjónustumiðstöð Breiðholts í Mjódd sem hafði veg og vanda af þessari hátíð og mætti mikill fjöldi til að taka þátt og fylgjast með. Leikskólabörn sýndu myndir, kórar sungu og ungt fólk sýndi dans og lék á hljóðfæri og söng. Einnig mættu góðir gestir. Hátíðin tókst í alla staði vel og sýnir hversu mikill félagsauður er í hverfinu.

 

Íbúasamtök Breiðholts stofnuð í kvöld (28. september 2006)

Íbúasamtök Breiðholts voru stofnuð í kvöld á fundi sem haldinn var í Gerðubergi. Samtökin ná yfir öll Breiðholtshverfin og er stjórn þess skipuð fólki úr þeim öllum. Markmið  félagsins er m.a. að stuðla að samhug og samkennd íbúa hverfisins, vera samstarfsvettvangur og vinna að framfara- og hagsmunamálum hverfisbúa. Í fyrstu starfsáætlun kemur fram að bæta á bílastæðamál í hverfinu, vinna að fegrun skólalóða, lagfæringu á útivistarsvæðum, stuðla að endurbótum á almenningssamgöngum og vinna að umferðaröryggismálum. Í fyrstu stjórn voru kjörin þau Helgi Kristófersson (formaður),  Bogi Arnar Finnbogason (ritari), Elísabet Júlíusdóttir(varaformaður), Gunnar H. Gunnarsson (gjaldkeri), Þorkell Ragnarsson, Elín Hartmannsdóttir og Magnús Gunnarsson. Í varastjórn voru kjörin þau Ingimundur Pétursson og Guðrún Elva Arninbjarnardóttir

Það er mikið fagnaðarefnið fyrir okkur Breiðholtsbúa að þessum samtökum hafi verið ýtt úr vör og væntum við í Hverfafélagi Samfylkingarinnar í Breiðholti góðs samstarfs við samtökin.

 

Íþrótta- og tómstundaráð tekur til óspilltra málanna! Rætt um biðlista á frístundasheimilum, aðstöðu til íþróttaiðkunar og fleira (24. september 2006)

Íþrótta- og tómstundaráð kom saman til fundar sl. föstudag eftir tæplega eins og hálfs mánaðar fundarhlé. Fjölmörg mál lágu fyrir fundinum, s.s. um aðstöðumál handknattleiksdeilda, fimleikadeilda, bardagaíþrótta, skíðadeilda, akstur fyrir unga iðkendur á æfingar og fleira. Alls var dagskráin í 26 liðum. Á fundinum var líka fjallað um stöðuna á frístundaheimilum í borginni, enda biðlisti enn talsverður sem veldur nokkrum vandræðum. Af því tilefni lögðum við fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fram eftirfarandi tillögu sem meirihlutinn tók undir: „Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að gera könnun meðal foreldra á því hvernig gæslu barna á biðlista eftir plássi á frístundaheimili er háttað eftir venjulegan skólatíma og hvort og þá hvaða áhrif ástandið hefur haft á atvinnuþátttöku foreldra.“ 

Margt fleira var rætt, s.s. sundiðkun fatlaðra og annarra hópa, fjárhagsáætlun og aðstöðumál í Grafarvogi.

Út með valinkunna menn og útlensk ávarpsorð í borgarstjórn! (20. september 2006)

Sú venja hefur skapast á fundum borgarstjórnar að borgarfulltrúar eru  ávarpaðir þannig að fyrst er nefnt orðið borgarfulltrúi og síðan nafn fulltrúans. Þannig segir forseti borgarstjórnar jafnan: „Nú tekur til máls borgarfulltrúi Dagur B. Eggertsson.“ Mér finnst þetta undarlegt og ég tók þetta upp undir lok fundar borgarstjórnar í gær. Ég beindi þeirri ósk til forsætisnefndar, sem undirbýr fundi borgarstjórnar og ræðir starfshætti á fundum hennar, að þetta yrði tekið til umræðu og fengnir íslenskufræðingar til að gefa álit um það hvort þetta samræmdist íslenskum reglum og venjum eða hvort hér væri um einhverja gamla danska venju að ræða. Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, lofaði því að þetta mál yrði tekið til umræðu.
 
 
Í lok fundarins fór einnig fram fyrri umræða um breytingar á samþykkt um hundahald í Reykjavík, en í þeim felst í stuttu máli að í stað þess að í samþykktinni standi að hundaeigendur geti fengið undanþágu frá banni við hundahaldi þá eigi þeir að geta fengið leyfi til að halda hund. Í samþykktinni segir nú m.a. að umsókn um undanþágu frá banni við hundahaldi skuli fylgja meðmæli tveggja valinkunnra manna um hæfi umsækjanda til að halda hund. Ég lagði til að þetta orð, „valinkunnur“, yrði fellt brott þar sem það hefði enga merkingu í þessu samhengi og ekki væri vitað til þess að umsóknir væru skoðaðar með tilliti til þess hvort meðmælendur væru valinkunnir (þekktir að góðu einu og réttlátir, samkvæmt Íslenskri orðabók Menningarsjóðs) eða ekki. Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs, sagðist í sjálfu sér geta tekið undir sjónarmið mín, en í þessari atrennu ætti bara að breyta orðalaginu úr „undanþága frá banni“ í „leyfi til hundahalds“, og því vildi hann ekki samþykkja tillöguna. Svo fór að 7 borgarfulltrúar Samfylkingar, Frjálslyndra og Vinstri Grænna vildu samþykkja tillögu mína, en 8 fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins voru á móti og því var hún felld. Því var hins vegar lofað að þetta yrði tekið með við frekari endurskoðun á hundasamþykktinni!
 

Getum við lært eitthvað af Dönum í íþróttum? (12. september 2006)

Ég átti þess kost að fara í ferð til Kaupmannahafnar í byrjun mánaðarins á vegum íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Í ferðinni hitti ég fulltrúa annarra höfuðborga á Norðurlöndum og fleiri borga, s.s. Stuttgart, sem verður íþróttaborg Evrópu 2007, Rotterdam, og smábæjar hjá Madrid á Spáni. Okkur gafst kostur á að kynnast því sem er að gerast á hverjum stað og svo fengum við að heyra erindi danskra fræðimanna og kynnast því nýjasta sem er að gerast í okkar gömlu höfuðborg í íþróttamálum.

Það sem mér er efst í huga eftir ferðina er spurningin hvort við séum um of bundin af hefðbundnum viðmiðum þegar uppbygging íþróttamannvirkja og stuðningur við íþróttastarfsemi er annars vegar.

Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að íþróttaiðkun hefur aukist á Vesturlöndum, bæði skipulögð og kerfisbundin iðkun barna og unglinga, en þó einkum ýmiss konar iðkun fólks sem komið er af hefðbundnum keppnisaldri, þ.e. sem er eldra en 30 ára. Eitt nýjasta dæmið er reglubundin ganga, svokölluð stafganga, sem vinsæl er hjá fólki í eldri kantinum.  

En á sama tíma og aukningin á sér einkum stað meðal eldri hópa og í óhefðbundnum, stundum óskipulögðum, íþróttum, þá miðar löggjöf, stefna og stuðningur einkum við hefðbundnar greinar og yngri iðkendur. Er einhver ástæða til að breyta því? Ég er ekki viss, en tel rétt að við skoðum það og ræðum.

Í Kaupmannahöfn fengum við að sjá íþróttahús í smíðum í fjölmennu íbúðahverfi. Þetta íþróttahús var ætlað bæði fyrir hefðbundnar og óhefðbundnar greinar, en var mjög óhefðbundið í öllu útliti og hönnun, enda niðurgrafið að stórum hluta þannig að hægt var að ganga upp á það eins og eins konar hól þarna í hverfinu. Í húsinu var salur fyrir handbolta og körfubolta, en einnig svæði fyrir ýmislegt annað, jafnvel tónlist og fleira. Þessu húsi var ætlað að vera eins konar miðstöð fyrir hverfið – ekki bara til nota fyrir skipulagðar æfingar og keppni.

Það er einnig íhugandi fyrir okkur að þriðjungur ferða Kaupmannahafnarbúa er farinn á reiðhjóli, þriðjungur í einkabíl og þriðjungur með almenningsfarartækjum, þ.e. lestum og strætó. Það fæst því talsverð hreyfing út úr hjólreiðum. Við eigum dálítið langt í land með að ná Dönum í þessu, þótt margt hafi áunnist hér á landi. En það er líka eins gott að vera ekkert að flækjast fyrir hjólandi Dönum, hvort sem maður er gangandi eða á bíl, því maður fær það á tilfinninguna að réttur hjólreiðamanna sé númer eitt í Köben – þar á eftir koma gangandi vegfarendur og svo bílistar. Ef menn átta sig ekki á þessu er eins gott að halda sig bara á Strikinu!
 

Bílastæðamál í hverfum borgarinnar þarfnast skoðunar (28. ágúst 2006)

Á fundi framkvæmdaráðs í dag lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna til að tilteknir þættir bílastæðamála yrðu skoðaðir í borginni. Ástæðan er m.a. sú að vegna mikillar fjölgunar bifreiða á undanförnum árum hafa þrengsli skapast, ekki hvað síst í nokkrum hverfum borgarinnar, s.s. í Breiðholti, Selási og Grafarvogi, en þessi þrengsli lýsa sér m.a. í því að bílum er lagt upp á græn svæði meðfram götum. Afleiðingarnar eru moldarflög meðfram götunum sem óprýði er af og er ýmsum til ama.

Af þessu hlýst nokkur kostnaður árlega við að tyrfa þessi grassvæði og hefur í einhverjum tilvikum verið gripið til þess ráðs að setja stóra  steina á svæðin til að halda bílum frá. Það er hins vegar ljóst að það leysir ekki grunnvandann, sem sé þann að bílstjórar finna ekki önnur stæði til að leggja á.

Það þarf að skoða þessi mál heildrænt. Ljóst virðist að þær forsendur sem liggja að baki skipulags á bílastæðum á vissum svæðum hafa ekki haldið. Þess vegna þarf e.t.v. að fara yfir skipulag bílastæðamála í hverfum upp á nýtt. Þar þarf að sjálfsögðu að skoða hver er vilji íbúanna og eins hvað er samrýmanlegt þeirri stefnu sem borgaryfirvöld hafa samþykkt, s.s. í umhverfismálum. Hugsanlega er hægt að leysa ýmislegt ef menn lyfta sér aðeins upp og líta yfir sviðið – svona nánast í bókstaflegum skilningi, því stundum eru ónotuð bílastæði í 30-50 metra fjarlægð, t.d. hjá fyrirtækjum og stofnunum, ef bílastæðin finnast ekki við útidyrnar.

Undirritaður kom með fyrirspurn um þessi mál í framkvæmdaráði fyrir um mánuði síðan. Á fundi framkvæmdaráðs í dag var lagt fram stutt svar starfsmanns framkvæmdasviðs sem er þess eðlis að fyllsta ástæða er til þess að skoða þessi mál nánar. Við viljum ekki hafa moldarflög meðfram íbúagötum. Þess vegna var tillaga um þetta lögð fram í dag af fulltrúum Samfylkingar og Vinstri Grænna og þeirri tillögu var vel tekið, þannig að búast má við frekari upplýsingum um stöðu bílastæðamála í hverfum borgarinnar á næstunni.

 

Grafa prófkjör undan flokkum?

(Ræða flutt á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík 26. ágúst 2006)

Spurt er á vef Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hvort prófkjör grafi undan flokkum.

Spurningin er athyglisverð og bendir til þess að einhver umræða hafi verið um að svo geti verið – þ.e. að prófkjör grafi með einhverju móti undan flokkum. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að undanfarið hefur ýmsum þótt það vera aðalsmerki á flokkum jafnaðarmanna hér á landi  hversu opnir og lýðræðislegir þeir eru þegar kemur að því að velja fólk á lista. Þar hafi ekki einungis flokksfólk tækifæri til þess að velja fólk á listana, heldur einnig fólk utan flokka sem vill þó sjá tiltekna einstaklinga í forystu hjá okkur – og tengist þannig flokksstarfinu með þátttöku sinni í prófkjöri.

Það er óumdeilt að prófkjör vekja áhuga á flokkum, því í prófkjörum takast einstaklingar á um sæti og slík átök vekja spennu, almennan áhuga – og  jafnvel kátínu þegar því er að skipta. Í kringum þessi prófkjör er fjöldi fólks virkjaður til starfa, bæði til stuðnings einstökum frambjóðendum og til að sjá um framkvæmd kjörsins fyrir hönd flokksins.

En hvernig er þá reynslan af þessu? Prófkjörin hafa verið talsvert opin – jafnvel galopin öllum á kosningaaldri í viðkomandi kjördæmi – reyndar frá 16 ára aldri ef ég man rétt. Eru einhverjir neikvæðir þættir sem hafa fylgt þess háttar prófkjörum.

Kostnaðurinn oft úr hófi
Það fyrsta sem nefnt er af neikvæðu tagi er kostnaðurinn. Hann hefur oft verið umtalsverður og setur því skorður hverjir taka þátt – og með hvaða krafti fólk getur tekið þátt. Bæði er að fjárráð einstaklinga eru ærið misjöfn og eins hefur fólk misjafnan aðgang að fjársterkum stuðningsaðilum. Svo eru þeir til sem ekki vilja þiggja stuðning frá fyrirtækjum í þessu skyni – af prinsippástæðum. Ég er ansi hræddur um að framkvæmd prófkjara þar sem umsvif og kostnaður hefur verið með meira móti þætti á sumum bæjum ansi „ameríkaniseruð“ ef grannt er skoðað, með þeim kostum og göllum sem því fylgir, og lítt minna á jafnaðarstefnu og lýðræðisjafnaðarhugsjónir.  En því er ekki að neita að allt kostar þetta sitt.

Þá vaknar spurningin hvort hægt sé að setja kostnaðinum einhverjar skorður. Það getur verið erfitt að setja fjárhæð einhver mörk, þótt það sé auðvitað gerlegt ef vilji er fyrir hendi. Hins vegar hefur reynst auðveldara að útiloka vissa auglýsingamiðla og auglýsingaaðferðir sem dýrar eru, s.s. í sjónvarpi. Mikill pappírsaustur í þessu skyni er heldur ekki umhverfisvænn ef út í það er farið.

Annað atriði í sambandi við kostnaðinn er að þegar frambjóðendur í prófkjöri eru búnir að betla fé hjá fyrirtækjum, þá getur verið erfitt fyrir flokkana að fara skömmu síðar til sömu fyrirtækja og biðja um fé. Á þann hátt geta prófkjörin dregið úr mætti flokkanna – eða flokksins okkar.

Það er því ljóst að kostnaðarmálin vekja upp ýmsar spurningar, einnig siðferðilegs eðlis, t.d. um tengsl fjárstuðnings og pólitískrar afstöðu í einstökum málum – og því í fyllsta máta eðlilegt að reynt sé að taka á álitaatriðum eins og hæfir siðuðu og lýðræðislegu samfélagi. Það má því svara spurningunni sem byrjað var á játandi – þ.e. prófkjör grafa undan flokkum því þrengra verður um fé – og hugsanlega neitandi, þ.e. prófkjör eru sérstakur pólitískur angi í starfi flokkanna – og því öflugri sem prófkjörin eru – því stærri er þessi starfs-angi – og hugsanlega flokkarnir í heild.

Loft í flokksskrám
Þá er komið að öðrum þætti, sem sé þeim sem snýr að félagsstarfi. Prófkjörin auka lífið í flokksstarfinu, fólk skráir sig í flokkana til að geta stutt tiltekna frambjóðendur ef prófkjörin eru eingöngu opin flokksmönnum, eða að fólk kemur til þátttöku ef prófkjörin eru opin öllum. Fólk myndar félagslegar tengingar við flokkana með þessum hætti – og það er styrkur út af fyrir sig. Hins vegar geta þessi tengsl varað mjög stutt eins og við þekkjum og mikil verðbólga, jafnvel óðaverðbólga, hlaupið í félagatal þegar lífleg prófkjör eru í algleymi. Þá er ýmissa meðala neytt til að fá fólk til þátttöku og veiðar stundaðar á ýmsum stöðum þar sem fólk er í alls kyns ástandi. Einnig er eitthvað um það að fólk taki þátt í opnum prófkjörum í fleiri flokkum. Þetta þekkjum við sem höfum fylgst með í einhvern tíma og haft augu og eyru opin. Í sumum tilvikum hefur því líflegt prófkjör gefið falsvonir um kosningasigra – því áhugi þátttakenda var fyrst og fremst bundinn við útkomi tiltekins frambjóðanda í prófkjörinu – og jafnvel slæma útkomu annars - og þessir þátttakendur láta síðan ekki sjá sig í sjálfri kosningavinnunni eins og við þekkjum. Það má því svara spurningunni bæði játandi og neitandi hvað félagslega þátttöku áhrærir. Vegna prófkjara fjölgar á flokksskrám og fleiri hreyfa sig fyrir frambjóðendur – en það þarf í sjálfu sér lítið annað að búa að baki þátttökunni – og í raun ekkert eiginlegt flokksstarf sem slíkri þátttöku fylgir – heldur fyrst og fremst þátttaka í eins konar vinsældakosningu.

Grafið undan stefnumótunarvinnu
Þá er komið að þriðja þættinum sem ég vil nefna, sem sé þeim sem snýr að pólitískri stefnumótun. Gagnast flokkum almenn þátttaka í prófkjörum þegar kemur að því að vinna og móta stefnu fyrir starf flokkanna? Það er hægt að svara þeirri spurningu játandi ef prófkjörið skilar einhverju inn af stefnumálum sem ekki kæmu inn ella ef önnur aðferð yrði valin. Ég hygg þó að þetta ætti fyrst og fremst við ef flokkur hefði verið lokaður lengi, búið við talsvert flokks- og foringjaræði þar sem farið væri að slá í bæði mannskap og málefni. Slíkt á ekki við um Samfylkinguna í dag – og hefur ekki átt við um hana. Þvert á móti er það svo með flesta flokka í dag að hugmyndir og nýjungar eiga nokkuð greiða leið í umræðuna í gegnum alls kyns fjölmiðla, þar með talið netmiðla, því allir þessir miðlar reyna að fanga eitthvað nýtt – og það gera stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar líka til að beina að sér athyglinni.

Á hinn bóginn geta prófkjör haft það í för með sér að stefnumótunin verður í mun meira mæli hjá einstökum frambjóðendum en flokksfólkinu sjálfu. Frambjóðendurnir ganga frá stefnunni eftir að prófkjörum og uppstillingu á lista er lokið og ganga þá í eigin smiðju, sinna stuðningsmanna – og auðvitað flokkanna líka. Ein hlið sem lýsir stöðu þessa máls er samkeppni hluta stjórnmálamanna í heimasíðugerð og birtingu efnis á heimasíðum sem eru margar hverjar margfalt áhrifameiri en heimasíður flokkanna þegar umræðan í samfélaginu er skoðuð.  – Sumir stjórnmálamenn virka þá eins og heil stofnun og flokkarnir eins og kaffistofa á litlum vinnustað. - Það hlýtur að endurspegla að flokkarnir sem skipulags- og umræðuvettvangur eru fremur veikir í samanburði við einstaka þingmenn. Með þessu geta einstakir stjórnmálamenn jafnvel verið flokksforystunni – og þá flokksstarfinu – fjötur um fót – vætt púður, þvælst fyrir – og ruglað fólk í ríminu með endalausum skrifum um allt og ekkert - í þeim tilgangi að vera í sem bestri stöðu meðal líklegra kjósenda þegar kemur að næsta prófkjöri. Með fullri virðingu fyrir sjálfum mér og öðrum sem halda úti heimasíðum: Það verður nú ekki margur maðurinn vitur af því að þræða sig eftir þessari endalausu ritræpu sem vellur um á ótal bloggsíðum – þótt inn á milli séu skínandi perlur. Og vissulega segir bloggið sitt um tíðarandann – eins og dagbókarfærslur hafa gert í gegnum tíðina.

Að þessu leyti minnir staðan dálítið á lýsingu á skipulagi stjórnmálastarfs fyrir um öld síðan, áður og um það leiti sem nútímalegt flokksstarf hófst, þegar stjórnmálamenn voru sagðir einyrkjar í pólitík og beittu sér sem slíkir á þingi. Fyrir vikið eru stjórnmálamenn meira að bregðast við uppákomum og aðsteðjandi vanda en að stunda skipulega og faglega stefnumótun til framtíðar.

En hvað er hægt að gera? Er hægt að breyta um kúrs? Er ástæða til þess? Ég held að sem lýðræðislegur jafnaðarflokkur verðum við að sníða verstu agnúana af opnum prófkjörum í það minnsta. Við erum bundin af samþykktum um að tryggja eigi aðkomu flokksmanna að vali á lista – og það er hægt að gera með ýmsu móti.  Við þurfum ekki fólk úr öðrum flokkum til að velja okkar lista. Það þarf að vera meiri samfella í almennri stefnumótunarvinnu, flokksstarfi og framboðsmálum. Þetta þrennt þarf að tengjast betur saman ef við viljum að samfélag okkar verði lýðræðislegt jafnaðarsamfélag með almennri þátttöku, en ekki foringjaelítusamfélag og fylgjendasamfélag þar sem flestir láta sig litlu skipta hvernig samfélagið eða umhverfið lítur út bara ef þeir hafa nóg að bíta og brenna.

Látum því þá sem vilja taka þátt í flokksstarfinu með því að velja á lista fyrir komandi kosningar, að lágmarki -  að skrá sig í flokkinn fyrir tiltekinn tíma.

 

Hverfisráð í Breiðholti komið í gang (22. ágúst 2006)
Í dag var haldinn fyrsti fundur í Hverfisráði Breiðholts á þessu kjörtímabili. Hverfisráðin eru mjög mikilvægur vettvangur fyrir upplýsingamiðlun og lýðræðislega umræðu innan hverfanna. Í sumum hverfum hafa fulltrúar tiltekinna  hópa verið kallaðir til formlegs samráðs, s.s. í Grafarvogi. Við í Breiðholti höfum setið dálítið á eftir, og því lagði ég til á fundinum í dag að úr þessu yrði bætt. Jafnframt lagði ég til að í tengslum við Breiðholtsdaginn 16. september næstkomandi yrði haldinn opinn fundur með íbúum hverfisins í samræmi við samþykktir um hverfisráð borgarinnar.

Meirihlutinn treysti sér ekki til að samþykkja tillögur mínar um aukið samráð við íbúanna og felldi tillöguna um opinn fund á Breiðholtsdeginum. Það kom mér nokkuð á óvart.

Mér virðist ljóst að meirihlutinn er ekki kominn almennilega í gang eftir kosningar. Ennfremur virðist ljóst að hann sniðgengur algjörlega þennan lýðræðisvettvang í hverfunum, þrátt fyrir samþykkt frá borgarstjórnarfundi 20. júní síðastliðinn um hverfisráðin, þar sem segir m.a. að hverfisráðin eigi að stuðla að hvers konar samstarfi innan hverfis, stuðla að aukinni virkni íbúa og svo framvegis. Það að hverfisráðið var algjörlega fryst í sumar í tengslum við hreinsunar- og fegrunarátak borgarstjórans og formanns umhverfisráðs er dálítið sérkennilegt í ljósi þess að borgarstjórinn var fulltrúi í hverfisráðinu á síðasta kjörtímabili.

Ég geri mér þó væntingar um að þessi hæga byrjun boði ekki ganginn á öllu kjörtímabilinu og að við Breiðhyltingar getum vænst þess að ráðið starfi með kröftugum hætti á næstu misserum og árum.

Ég læt hér fylgja með tillögur mínar og bókun í lok fundarins. Tveimur tillögum var frestað og ein felld.

Fyrsta tillagan var svohljóðandi:

Hverfisráð Breiðholts samþykkir að bjóða fulltrúum foreldrafélaga,
íþróttafélaga, lögreglu, trúarsafnaða, samtaka í verslun og annarra samtaka í hverfinu seturétt á fundum hverfisráðsins með málfrelsi og tillögurétti og
felur framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar í hverfinu að útfæra nánar tillögu um tilhögun þessa fyrirkomulags.
(Þessari tillögu var frestað)

Önnur tillagan var svohljóðandi:

Hverfisráð Breiðholts samþykkir að á næsta fundi ráðsins verði boðaðir
fulltrúar Hverfabækistöðvar í Breiðholti, umhverfissviðs og framkvæmdasviðs til þess að miðla upplýsingum um verkefni á þeirra vegum og svara fyrirspurnum. Á þeim fundi verði farið yfir nýlegar og áformaðar skipulagsbreytingar og framkvæmdir á vegum borgarinnar og þjónustu þessara aðila. Jafnframt samþykkir ráðið að setja á dagskrá á næstu fundum þar á eftir umræðu um málefni verslunar- og þjónustustaða í hverfinu, skóla, félagsþjónustu, trúarsafnaða og íþróttamála.
(Þessari tillögu var frestað - hins vegar var síðar á fundinum samþykkt að
bjóða hluta þessara aðila á næsta fund)

Þriðja tillagan var svohljóðandi:

Hverfisráð Breiðholts samþykkir að í tengslum við Breiðholtsdaginn 16.
september 2006 verði haldinn opinn fundur með íbúum hverfisins, sbr. 8. grein í Samþykkt fyrir Hverfisráð Reykjavíkurborgar. Á fundinum verði kynnt starfsemi á vegum borgarinnar í hverfinu, einkum í þágu skólafólks og ungmenna, m.t.t. þess að skólar eru að hefjast, en jafnframt verði ýmsir þjónustuaðilar fengnir til að sitja fyrir svörum.

Þessi tillaga var felld með tveimur atkvæðum gegn einu.


Bókunin var svohljóðandi:

Vakin er athygli á því að hverfisráð Breiðholts er ekki kallað saman fyrr en í
lok ágúst, þótt málefni Breiðholts hafi verið talsvert til umfjöllunar í
borgarkerfinu og sérstakar aðgerðir boðaðar í hverfinu um mitt sumar. Það er mjög sérkennilegt að í þeim aðgerðum hafi hverfisráðið verið látið algjörlega afskipt, sbr. þó það sem segir í 2. mgr. um verksvið hverfisráða í samstarfi innan hverfis. Með þessu var lýðræðislegur vettvangur fyrir íbúa til þátttöku um málefni hverfisins vannýttur.

 

Vantar sterkari stjórnmálamenn? (15. ágúst 2006)
Augu allra beinast að flokksþingi framsóknarmanna um helgina. Um fátt er meira skrafað en hvort þeirra vinni slaginn um formanninn, Jón eða Siv.

Staðan sem upp er komin er annars merkileg. Jóni Sigurðssyni var kippt inn í stjórnmálin af því að áhrifamenn í Framsókn töldu að enginn þingmanna flokksins væri nógu burðugur til þess að gegna embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Flokkurinn var talinn sterkari með Jón í stjórninni - til skemmri og lengri tíma. Þetta hlýtur að segja sitt um álit manna á hluta þingflokksins.

Stór hluti flokksins hafði ekki trú á að Guðna varaformanni lánaðist að lyfta flokknum - og því var jafnframt þrýst á hinn hófsama og hæfileikaríka Jón í framboð til formanns. Guðni lagði ekki í hann en vill verða varaformaður áfram. Siv gaf um síðir kost á sér til formanns. Á meðan Jón virðist vera málamiðlunarmaður án margra óvina hefur Siv stundum verið með uppsteit og er sögð hafa bakað sér óvinsældir ýmissa innan flokksins. Hún hefur hins vegar góðan kjörþokka og sýnt árangur í kosningum, en þar er Jón nýgræðingur.

Flestir virðast hallast að því að Jón leggi Siv. Sumir telja að Jón yrði hækja fyrir íhaldið sem formaður og að Vinstrigrænir myndu fitna við valdatöku hans. Siv myndi hins vegar taka frá VG. Ég er ekki svo viss um hvernig þetta kæmi út fyrir Samfylkinguna. Bæði Jón og Siv hafa gott orð á sér í starfi. Siv er reyndur þingmaður og ráðherra og Jón hefur áunnið sér traust í því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Ég hugsa þó að Siv myndi afla Framsókn meira fylgis meðal landsmanna. Jón kann hins vegar að vera líklegri til að halda Framókn í stjórn - og þá jafnvel með Samfylkingunni.

Innkoma Jóns Sigurðssonar Frammara í stjórnmálin vekur upp spurningar um gæði stjórnmálamanna. Umræður um innkomu nafna hans Sigurðssonar og Hannibalssonar nýverið geta virst af sama meiði, þótt eflaust blandist þar einhver fortíðarþrá með. Það geta alls kyns kenndir og sjónarmið spilað inn í þessar umræður. Jón krati var kallaður til á sínum tíma af nafna sínum, formanninum, til að auka trúverðugleika frambjóðenda Alþýðuflokksins - og hann þurfti ekki að fara í gegnum raunverulegt prófkjör sem þó hefur verið lenska meðal krata. Er sú staða virkilega uppi núna að við höfum ekki nægan fjölda frambjóðenda sem almennt eru taldir hæfir til að gegna ráðherraembætti? Við höfum jú fyrrverandi ráðherra í hópnum, en hvað með hina? Enginn efast um hæfileika og styrk formannsins, né reynslu. En til þess að slá í gegn verður hún að hafa með sér efnilegt og samhent lið sem passar í ráðherrastólana.

Það er mín skoðun að í þingmannaliði Samfylkingar séu margir öflugir stjórnmálamenn og vaxandi sem geta axlað ráðherraábyrgð. Til þess að ná völdum þurfum við þó að styrkja okkur fyrir tímabilið, eins og stundum er sagt í íþróttunum. Það er bara spurning hvernig það verður gert. Næstu mánuðir munu leiða það í ljós.

 

Framboðsmálin (13. ágúst 2006)
Nú má búast við því að ýmsir ágætir einstaklingar bjóði sig fram vegna komandi alþingiskosninga. Það á svo eftir að koma í ljós hver eftirspurnin verður eftir þeim, bæði í prófkjörum og sjálfum kosningunum. Kosningastefnumálin líta svo smám saman dagsins ljós. Það er reyndar umhugsunarefni hversu miklu meira rými virðist fara í umræðu um pólitíkusa en pólitíkina sjálfa.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst. Hann hefur til þessa ekki verið mikið í framboði og segir í Fréttablaðinu í dag eftirspurnina hafa ráðið meiru í pólitísku starfi sínu. Nú er hann hins vegar í framboði og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort eftirspurnin verði meiri eftir honum en Siv Friðleifsdóttur í embætti formanns Framsóknarflokksins. Nú þekki ég ekki það vel til innviða Framsóknar að ég þori að spá fyrir um úrslitin. Það sem sjálfsagt skiptir mestu fyrir okkur sem fyrir utan standa er hvort þessir formannskandídatar muni breyta einhverju um stefnu og stjórnarhætti Framsóknarflokksins og möguleika á stjórnarstarfi með öðrum flokkum. Mér sýnist Jón reyna að höfða ákveðið til miðjunnar í stjórnmálum líkt og Siv hefur gert í gegnum árin. Líklega meta framsóknarmenn það þannig að aðeins með því að höfða ákveðið til miðjunnar geti þeir komið flokknum upp úr þeim öldudal sem hann er í. Reyndar virðast frammarar vera í dálítilli tilvistarkreppu þessa dagana ef marka má orð Önnu Kristinsdóttur fyrrverandi borgarfulltrúa um naflaskoðun innan flokksins á miðstjórnarfundum.

Framboðsmál Samfylkingar
Samfylkingarfólk er nú að gíra sig í framboðsmálin. Hafin er umræða um tímasetningu og fyrirkomulag við val á lista flokksins í hinum ýmsu kjördæmum. Líklega er best að klára þessi framboðsmál vel fyrir áramótin, bæði til að vera vel undirbúinn í tíma og eins þar sem gera má ráð fyrir að þingkosningarnar hafi vaxandi áhrif á störf þingsins eftir því sem á líður veturinn. Víðtæk stefnumótunarvinna hefur verið í gangi í Samfylkingunni á síðustu árum og nú þarf flokkurinn að undirbúa áherslumál sín fyrir kosningar. Í þeim efnum skiptir m.a. miklu að kjósendur trúi því að við getum stuðlað að framförum í efnahags- og þjóðlífi, að stefna okkar og starf stuðli að aukinni velferð almennt og bættum hag þeirra sem minnst mega sín, án þess að gengið sé um of á náttúruleg gæði landsins. Stefnan verður að vera skiljanleg og trúverðug, einkum og sér í lagi í stærstu málaflokkunum. Við þurfum að hafa skýra sín í atvinnumálum, opinberum fjármálum, heilbrigðismálum, menntamálum, félagsmálum og umhverfismálum. Þegar breytinga er þörf í samfélaginu snerta þær ýmsa hópa. Við verðum þó að varast að stefna okkar sé túlkuð sem árás á hópa samfélagsþegna. Í Samfylkingunni þurfa allir að geta fundið sér farveg, jafnvel þótt skoðanir og hagsmunir geta verið ólíkir.

Aftur að framboðsmálunum. Hverjir eiga að velja fulltrúa á lista flokksins? Samþykktir eru með misjöfnum hætti þótt á endanum séu það fulltrúa- og kjördæmisráð sem afgreiða listana. Umræða er um það hversu víðtæk þátttaka eigi að vera í valinu, þ.e. hvort viðhafa beri galopið prófkjör meðal alls almennings á kosningaaldri, hvort eingöngu flokksfélagar eigi að velja, hvenær eigi þá að loka kjörskrá, hvort nýta eigi almennar skoðanakannanir að einhverju leyti í þessu vali, hvort nýta megi Netið í þessari kosningu (líkt og danski krataflokkurinn gerði í sinni formannskosningu) og í hve miklum mæli uppstillingarnefndir eigi að ráða um niðurröðun á listana. Sumir vilja hafa þetta sem mest opið og frjálst þar sem það laði fram þátttöku, á meðan aðrir óttast kostnaðinn og jafnvel vissan lýðræðishalla sem fylgir opnum prófkjörum. Ég hugsa að galopin prófkjör þar sem frambjóðendur eru í meira mæli háðir sjálfum sér og sínum tilfallandi stuðningsmönnum geti til lengdar grafið undan skipulegri stefnumótunarvinnu flokksins til framtíðar. Á hinn bóginn geta of þröngar valreglur hindrað eðlilega endurnýjun á frambjóðendum og stefnu. Ég held að það væri á ýmsan hátt lærdómsríkt fyrir okkur að líta til þess hvernig skoðanasystkin okkar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu sinna þessum málum. Að þeirri skoðun lokinni hugsa ég að mörgum okkar þætti við vera undarlega ameríkaniseruð nú þegar Kaninn er að yfirgefa okkur. Þar með er ekki sagt að við getum ekki lært eitthvað af Bandaríkjamönnum líka.

Til þess að treysta Samfylkinguna skiptir miklu máli að hún verði vettvangur fyrir líflega umræðu, þar sem stjórnmálin eru krufin til mergjar og að út úr því komi stefna og starf sem höfðar til lengri tíma litið til almennings í landinu, sem trúir því að hreyfingin sé til þess fallin að verða leiðandi í stjórnarstarfi. Við þurfum alltaf að bregðast við aðsteðjandi vandamálum og uppákomum með ýmsum skammtímalausnum, en kosningastefnumálin verða þó að lifa lengur en nokkra mánuði. Ég hef trú á því að við séum á réttri leið - og að við séu á góðri leið með að byggja þann grunn fyrir flokkinn, starfslega og stefnulega, sem muni fleyta honum til valda landi og þjóð til heilla.

Móskarðshnúkar að baki (10. ágúst 2006)
Til hvers ertu að klífa þessi fjöll? Þessi spurning var einhvers staðar borin fram. Svarið var einfalt: Af því þau eru þarna! Síðustu ár hefur áhugi minn á fjallgöngu og göngu almennt aukist. Kannski hefur það eitthvað með aldurinn að gera. Manni veitir ekki af hreyfingunni, útivistinni og hressingunni eftir innivinnuna. Það má segja að ég hafi eiginlega byrjað á öfugum enda, því ég gekk á hæsta tind landsins, Hvannadalshnúk, fyrir þremur árum. Eftir það hafa nokkur minni fjöll verið klifin, eða öllu heldur gengin, á hverju sumri. Í gær var röðin komin að Móskarðahnúkum (reyndar tala flestir um Móskarðshnúka) - sjá píluna á myndinni hér að ofan - en eiginkonan hefur lengi haft augastað og áhuga á þessum líparítstindum sem blasa við höfuðborgarbúum.

Þetta er mjög ákjósanleg og skemmtileg fjallganga. Það er hægt að komast að fjallsrótum eftir slóða sem er fólksbílafær. Þá er beygt til til vinstri skömmu eftir að komið er framhjá Gljúfrasteini og haldið áfram framhjá Skeggjastöðum og Hrafnhólum. Maður leggur bílnum við endann á sumarbústaðalandi sem þarna er og maður hafði ekki hugmynd um að væri til. Gangan er dálítið á fótinn en samt ekki verulega erfið. Í bók eftir Ara Trausta Guðmundsson er þetta sögð tveggja til þriggja tíma ganga. Við vorum tvo tíma upp og klukkustund niður. Við létum nægja að fara á hæsta tindinn sem er í ríflega 800 metra hæð. Þaðan sést yfir höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, í Þingvallavatn, út til Eyja, Eyjafjallajökul, upp í Borgarfjörð, Hvalfjörð og víðar. Það var frábært að standa þarna á tindinum eftir dálítið puð og virða fyrir sér landslagið nær og fjær.

Á leiðinni niður rákumst við á vængbrotna rjúpu. Ég er nú að velta því fyrir mér hvort einhver leyfi þurfi til að sinna fuglum í slíku ástandi!

Sjá mynd....

Eftir Leggjabrjót rýkur leiðinlega úr Hvalfirði (3. ágúst 2006)
Þriðjudaginn 1. ágúst sl. fór ég í gönguferð svokallaða leggjabrjótsleið á milli Þingvalla og Hvalfjarðar. Við hjónin gengum sem leið lá ásamt hundinum okkar úr Hrútagili, skammt frá Svartagili, þar sem við lögðum bílnum, Þingvallamegin. Vinir okkar lögðu upp úr Botnsdal þannig að við gátum skipst á bílum.  Veður var mjög ákjósanlegt þennan dag, léttskýjað, örlítil gola og góður gönguhiti. Fjallasýnin var stórfengleg og efst á Leggjabrjót sást til Vestmannaeyja, upp í Borgarfjörð og víðar. Það er stórkostlegt í svona veðri að sjá ofan í Brynjudalinn (sjá mynd), út Hvalfjörðinn og að koma ofan í Botnsdal (sjá mynd) og sjá hæsta foss landsins, Glym.

Mikil fegurð - góð gönguleið
Frá Þingvöllum er gengið sem leið liggur á milli Búrfells og Botnssúlna, á slóða sem liggur upp með Orustuhól, upp að Öxará og með henni á slóða upp á Leggjabrjót sem er þarna efst á leiðinni í um 500 metra hæð. Öxará rennur úr Myrkavatni sem þarna er, en þarna er líka annað lítið vatn, Sandvatn, en úr því rennur lækur ofan í Brynjudal, þar sem er ágætis laxveiðiá. Við mættum félögum okkar við Sandvatnið, þar sem við áðum og drukkum kaffi. Síðan lá leiðin áfram meðfram Botnssúlum og svo með Hvalvellið (sjá mynd) á hægri hönd þegar komið er ofan í gróinn og fallegan Botnsdalinn. Þetta er sögð vera svona fjögurra til sjö tíma gönguferð. Við vorum um fimm og hálfan tíma með kaffistoppi og örlitlum útúrdúrum við myndatökur. (Sjá kort)

Það kom mér dálítið á óvart að ekki skyldu vera fleiri á þessari leið. Fyrir utan félaga okkar sáum við einungis á þessari leið jeppafjölskyldu sem fór slóðann upp að Syðstu-Súlu og var sjálfsagt að ganga á  hana. Eins og áður sagði er þetta ágæt gönguleið því göngu- eða jeppaslóði er mest alla leiðina og leiðin er ágætlega vörðuð, þannig að ekki á að vera mikil hætta á að villast illa. Þó mættu merkingar vera betri, þannig að fólk lendi ekki óvart á stígnum upp að Glym í stað þess að fara á Leggjabrjót. Auðvitað þarf maður sums staðar að vara sig því grýtt getur verið yfirferðar, en þó varla eins grýtt og nafn leiðarinnar gefur til kynna.

Þegar ekið var heim á leið blasti Hvalfjörðurinn við í allri sinni dýrð - þar til við komum auga á reykinn frá Járnblendiverksmiðjunni. Það er í raun stórfurðulegt að þetta skuli viðgangast því á slíkum góðviðrisdögum er þetta mikið lýti og sjónmengun. Þetta blasir við ferðalöngum, innlendum sem útlendum, og er okkur til vansa. Svo virðist sem reykhreinsunin sé ekki fullkomnari hjá Járnblendinu en svo að það þurfi að hleypa reyknum óhreinsuðum út með reglulegu millibili á meðan skipt er um einhverjar síur og þá liggur reykurinn yfir eins og móða eða strókur upp í loftið eftir aðstæðum.

Spurst fyrir um reykinn í stjórn Faxaflóahafna
Ég sótti fund í stjórn Faxaflóahafna sem varamaður í fjarveru Dags B. Eggertssonar í gær. Þar var m.a. farið yfir starfssvið hafnanna og m.a. um aðstæður í kringum Grundartangahöfn. Þetta var fyrsti fundurinn sem ég fór á og spurði ég fundarmenn hvort stjórnin eða hafnirnar hefðu ekki fjallað eitthvað um þessa sjónmengun og hvort þetta snerti ekki hafnirnar eitthvað. Auðvitað reyndist svo vera og var bókað sérstaklega um það mál í framhaldi af fyrirspurn minni, enda höfðu sveitarfélög þarna í kring lýst sams konar áhyggjum. Það er erfitt að selja út á ímynd hreinleikans á meðan svona sóðaskapur viðgengst.

Það var svo ánægjulegt að sjá að frétt um þessa bókun birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem vitnað var til formanns stjórnarinnar um efnið.

Bloggað, skráð og skrafað ... (31. júlí 2006)
Ég tók eftir því að einhver bloggarinn kvartaði yfir því nýlega að ég hefði lítið átt við heimasíðuna mína frá því í prófkjörinu í febrúar sl. Fyrir því eru náttúrulega þær ástæður að ég taldi kröftum mínum betur varið með öðrum hætti í kosningabaráttuna fyrir Samfylkinguna. En eins og hér að neðan kemur fram verður nú tekinn upp þráðurinn og þessi síða nýtt til að koma því á framfæri sem hér á erindi.

Nú telst enginn maður með mönnum nema hann „bloggi“. Yfirleitt eru menn þá einfaldlega að skrá skoðanir á heimasíður síður sínar. Misjafn er hvort boðið er upp á skoðanaskipti á síðunum og hversu mikil viðbrögð verða. Þeir sem mest viðbrögð fá eru kallaðir ofurbloggarar, eins og t.d. Össur Skarphéðinsson, sem lengi hefur verið með betri pólitísku pennum hér á landi. Aðrir ná athygli sjaldnar eða jafnvel aldrei...

Þessi heimasíðu- og bloggmenning ýtir á vissan hátt undir einkenni sem verið hafa á íslensku stjórnmálalífi. Hér eru einstaklingarnir á vissan  hátt stærri og meiri en víða annars staðar. Prófkjör innan flokkanna eru ein birtingarmynd þessa - og svo hefur fámennið líklega sitt að segja. Ég gæti ímyndað mér að margfalt meiri vinna sé lögð í heimasíður stjórnmálamanna í sumum flokkum en síður flokkanna sjálfra. Það má sjálfsagt velta því fyrir sér hvaða áhrif það hafi á stefnumótun flokkanna. Ég hugsa að á því séu bæði kostir og gallar. Kostirnir eru án efa þeir að á heimasíðum sínum eru menn eigin ritstjórar og skrifa það sem þeir vilja. Fleira kemur fram, margt vafalaust nýstárlegt - og svo er annað sem hefði mátt liggja í skúffu um sinn og slípast betur. Umræðan verðu í öllu falli opnari.

Það hefur verið dálítill sumarbragur á stjórnmálaumræðunni. Ýmsir þingmenn og tilvonandi þingmenn eru að setja sig í stellingar fyrir komandi prófkjör og kosningavetur. Flokkarnir huga að undirbúningi kosninga og einstaklingar segja skoðun sína á því hvað eigi að gera og hvað ekki. Grein Margrétar Björnsdóttur um Samfylkinguna í Morgunblaðinu nýlega vakti verðskuldaða athygli. Það var að mínu mati margt gott í þessari grein og mér datt í hug við lesturinn að það væri sjálfsagt ekki vitlaust að atriði sem þar voru nefnd yrðu tekin til umfjöllunar með kerfisbundnum hætti í litlum starfshópum. Það hefði getað orðið áhugavert sumarkaffispjall áhugafólks innan Samfylkingar. Margrét þekkir söguna og innviðina betur en margur. Það í grein hennar sem einna mesta athygli og viðbrögð vakti í fjölmiðlum var umfjöllun hennar um mögulegan samstarfsaðila í ríkisstjórn. Samflokksfólk okkar skiptist dálítið á skoðunum um þetta. Mér finnst nú of mikið gert úr þessu atriði.

Það sem skiptir máli fyrir Samfylkingina er að bjóða fram trúverðugan valkost fyrir kjósendur. Þess vegna hefur verið unnið öflugt starf í stefnumótun og skipulagsvinnu innan flokksins. Við viljum koma hugsjónum okkar í verk. Til að ná árangri í kosningum skiptir meginmáli að hafa trúverðuga stefnu sem höfðar til kjósenda og forystu sem fólk treystir til að fylgja málum eftir og vill sjá í forystu landsmálanna. Flokkur byrjar ekki á því að segja hver sé hans óskakostur í samstarfi. Það kemur að jafnaði síðar - og yfirleitt ekki fyrr en að kosningum loknum.

Þegar ég fylgdist með þessari umræðu varð mér hugsað til jafnaðarmanna í Svíþjóð. Þeir hafa að jafnaði verið einir í stjórn, en oft studdir af vinstri mönnum, sósíalistum, kommúnistum og umhverfissinnum. Formlegt stjórnarsamstarf við hægri menn hefur ekki verið til umræðu þótt samkomulag af ýmsu tagi hafi verið gert um einstök mál. Það er reyndar umhugsunarefni að nú virðast hægri menn í Svíþjóð vera að búa til eins konar „Reykjavíkurlista“ með öfugum formerkjum til að reyna að sigra jafnaðarmenn og bandamenn þeirra í næstu kosningum.

Auðvitað er það þannig að það er gott samkomulag um ýmis mál á milli allra stjórnmálaflokka. Um sum mál eigum við meiri samleið með vinstri grænum, en um önnur með sjálfstæðismönnum. Svo eru það ýmis atriði í stefnu beggja flokka sem við getum ekki fallist á. Margir sjálfstæðismenn geta ekki fallist á félagshyggju jafnaðarstefnunnar og margir vinstri grænir geta ekki fallist á frelsisgrunn jafnarðarstefnunnar. Það sem við þurfum að gera er að sýna fram á kosti jafnaðarstefnunnar sem fætt hefur af sér mestu velferðar- og auðlegðarþjóðfélög sem um getur. Við þurfum að efla umræðuna um frelsið, jafnréttið og samhygðina (bræðralagið). Reyndar þykir sumum frjálshyggjumönnum frelsið vera komið út í öfgar þegar álagningarskrár liggja frammi öllum til skoðunar. Auðvitað getur það haft sína kosti og galla að láta þessar upplýsingar liggja frammi, en ég get nú ekki séð að það hafi skaðað neinn og fremur orðið til góðs í þjóðfélagsumræðunni. Það skiptir þó meira máli að fólk öðlist frelsi frá fátækt og áþján af ýmsu tagi sem finnst á meðal okkar í dag. Athafnafrelsi skiptir líka meginmáli og sýnist mér þar vera margt í góðu horfi þótt alltaf megi betur gera.

Það hefur orðið afturkippur í jafnrétti og dregið hefur úr jöfnuði. Það nægir að benda á umræðuna um klámvæðinguna, sem þó hefur aðeins snúist við á síðustu misserum, og á umræðuna um stöðu aldraðra. Hlutur aldraðra hefur verið skertur með kerfisbundnum hætti á síðustu árum. Því þurfum við að breyta.

Þá þurfum við að leggja aukna áherslu á vinnu að umhverfismálum sem byggir á hugmyndafræði um sjálfbæra þróun, þ.e. þróun sem auðgar lífsgæði fólks án þessa að rýra möguleika komandi kynslóða. Þetta er jafnaðarstefna í umhverfismálum. Hægri menn hafa kallað þetta sósíalisma - fram að þessu - en nú vilja sumir þeirra taka undir þetta og vilja láta kalla sig hægri græna.

Það er því af ýmsu að taka, en af því að nú er sumar segi ég bara að lokum að hér gildir eins og í boltanum, að hafa leikkerfi í lagi, skýr markmið og þol og úthald við hæfi - þá eru líkur á að við hittum í mark - svipað og leikmaðurinn á myndinni hér til vinstri ....

En ... aðeins í lokin ... þar sem ég bý nú við þær aðstæður í sumarfríinu sem lesa má um í einu af höfuðritum stjórnmálanna; ég les á morgnana, skrifa svo dálítið, fer svo að múra, pússa og mála og labba svo Leggjarbrjót á morgun .... hlustandi á fréttir í hádeginu og skoðanir Gísla Marteins Baldurssonar í umhverfis- og löggæslumálum: Hvaða óhreinindi skyldu hafa verið í eyra mannsins sem vöktu upp þvílíkt ofbeldi að eyra mannsins var bitið af?

Mér finnst rigningin góð ... (26. júlí 2006)
... því hún hreinsar loftið og vökvar gróðurinn í borginni. Og jafnvel þótt litlu knattspyrnumennirnir á REYCUP-móti Þróttar í Reykjavík þurfi að þola örlitla vætu þá gerir það þeim bara gott. Það ver verst með knattspyrnuvellina - þeir spænast upp í vætutíðinni. En Þróttur hefur þokkalegt svæði þannig að engin hætta er á ferðinni enn. Við ÍR-ingar unnum Þróttara í 3ja flokki karla A, en töpuðum fyrir Gróttu í 3B. Strákarnir virtust bara allir hressir og kátir. Sjá www.reycup.is

Farið af stað á ný (25. júlí 2006)
Eftir nokkurt hlé er nú ætlun mín að hefja hér skrif á nýjan leik. Síðan var upphaflega sköpuð í tengslum við prófkjör og svo tók kosningabaráttan við þannig að skrifum og kröftum var beint þangað. Nú í sumarfríinu er ágætur tími til að byrja að nýju og langar mig í upphafi að benda á örlitla frásögn mína af ferð vestur á firði fyrir nokkrum dögum.

Sjá nánar.

(Efst á síðu)

Eldra forsíðuefni...

 
    Hit Counter
     
 

Stefán Jóhann Stefánsson,  netfang: stefan.johann@islandia.is, sími 895-0532